Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, hæðist að Pírötum í færslu sem hann birtir á Facebook-síðu sinni. Þar gerir hann grín að því hve margir bjóða sig fram í prófkjörum flokksins á höfuðborgarsvæðinu.
„Prófkjör Pírata á höfðuborgarsvæðinu vekur athygli. Það má með sanni segja að í því prófkjöri sé framboð meira en eftirspurn miðað við það sem áður er þekkt í prófkjörum. Hjá hinu mikla "lýðræðisafli" eru yfir 100 frambjóðendur og u.þ.b 2,000 mega kjósa, eða að jafnaði 20 manns að baki hvers frambjóðanda,“ skrifar Jón og bætir við: „Ef við berum þetta saman við prófkjör Sjálfstæðismanna á sama svæði fyrir síðustu kosningar til Alþingis þá voru frambjóðendur 35 og 14,912 tóku þátt eða 426 að baki hverjum kjósanda. Við vorum tilltölulega sátt við þessa niðurstöðu þó vissulega hefðu einhverjir viljað sjá fleiri kjósendur mæta til þátttöku. En það er auðvitað mismunur á því hvernig stjórnmálaflokkar skilgreina lýðræðisást sína. Sumir sannarlega hrópa meira en gera minna.“
Sameiginlegt prófkjör Reykjavíkurkjördæma og Suðvesturkjördæmis hófst í kosningakerfi Pírata í gær og stendur fram á föstudaginn 12. ágúst. Eru 108 manns í framboði á höfuðborgarsvæðinu
Athugasemdir