Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, gagnrýndi harðlega þá sem fela fjármuni í skattaskjólum í ræðu sem hún flutti í Hafnarfirði í dag í tilefni alþjóðlegs baráttudags verkalýðsins. Hún varaði við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og hvatti til þess að skattkerfið væri í auknum mæli notað sem tæki til að jafna kjör fólks.
„Við höfum að undanförnu fengið upplýsingar um að fólk sem hefur viljað láta til sín taka í íslensku samfélagi eigi miklar eignir í skattaskjólum – þar sem megintilgangurinn er að fela eignarhald og komast undan því að greiða skatta til samfélagsins. Við sættum okkur ekki við að þeir sem mest hafa geti ráðið því sjálfir hvort þeir ætla að greiða skatta til velferðarsamfélagsins, með okkur hinum, eða fela fjármuni sína í skattaskjólum á sólríkum Suðurhafseyjum,“ sagði Elín sem jafnframt benti á að í samanburði við önnur Norðurlönd væru framlög Íslands til velferðarmála minnst.
Athugasemdir