Jónas Sigurgeirsson, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Kaupþings, segir að engum ætti að koma á óvart að ákærðir og dæmdir bankamenn sætti sig ekki við þá fangelsisdóma og meðferð sem þeir hafa fengið innan réttarkerfisins. Í raun hljóti þeir, sem hópur, að komast að þeirri „einu rökréttu niðurstöðu að þeir séu fórnarlömb skipulegrar aðfarar“. Þetta skrifar Jónas í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Þar segir hann það einnig hafa verið lágkúru af Ríkissjónvarpinu að leika hljóðupptöku af Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings, í sprelli í Áramótaskaupinu.
Sem upplýsingafulltrúi Kaupþings starfaði Jónas afar náið Sigurði og bar meðal annars vitni í Al-Thani málinu svokallaða. Jónas sendi út fréttatilkynninguna um að Sheikh Al-Thani hafi eignast 5,1 prósenta hlut í Kaupþingi.
Sem kunnugt er fengu Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans, allir þunga dóma fyrir markaðsmisnotkun í málinu og þeir Sigurður og Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson fyrir umboðssvik eða hlutdeild í þeim.
Afburðanámsmenn með hreina sakaskrá
Í greininni í Fréttablaðinu rekur Jónas mál Sérstaks saksóknara sem tengjast falli bankanna. „Þegar hafa 17 bankamenn hlotið fangelsisdóma vegna starfa sinna en út frá þeim málum, sem eiga eftir að fara fyrir dómstóla, má ætla að yfir 40 bankamenn muni hljóta fangelsisdóma. Líklegt er að síðustu dómarnir falli árin 2019-2020 og síðustu afplánunum ljúki árið 2024, en þá verða 15-16 ár liðin frá falli bankanna,“ skrifar hann. „Hinir dæmdu eru, utan einnar konu, fjölskyldumenn, karlmenn sem flestir eru fæddir á árunum 1966 til 1976. Margir þeirra voru afburðanámsmenn og sammerkt er með þeim öllum að þeir voru með hreina sakaskrá þegar meint brot voru framin, flest sömu dagana haustið 2008. Að því best er vitað hafa þeir heldur ekki brotið af sér þau átta ár sem eru liðin frá hruni.“
Jónas segir uppgjörið hér á landi við bankamennina vera einstætt á heimsvísu. Engin önnur þjóð hafi tekið jafn hart eða jafn grimmilega á eftirmálum alþjóðlegu fjármálakreppunnar og Íslendingar.
Gjaldþrot og bókaútgáfa
Jónas lýsti sig gjaldþrota árið 2013 vegna hlutabréfaviðskipta sem hann átti við Kaupþing þegar hann starfaði sem upplýsingafulltrúi bankans. Þurftu kröfuhafar að afskrifa meira en 240 milljónir króna af kröfum sínum í búið en einungis fengust ríflega sjö milljónir upp í kröfurnar. Jónas er nú framkvæmdastjóri Bókafélagsins, forlags í eigu Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, Kjartans Gunnarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, Ármanns Þorvaldssonar, fyrrverandi forstjóra dótturfélags Kaupþings í London, og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar háskólaprófessors. Forlagið hefur gefið út nokkrar bækur tengdar hruninu og eftirleik þess. Má þar meðal annars nefna Icesave - afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson, núverandi upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins, og Andersen skjölin: Rannsóknir eða ofsóknir? eftir Eggert Skúlason, ritstjóra DV. Jónas er að auki framkvæmdastjóri Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt (RNH) sem berst fyrir markaðsfrelsi og gegn ríkisafskiptum. Hannes Hólmsteinn er forstöðumaður rannsókna og ritstjóri rita frá RNH.
Athugasemdir