Trausti Harðarson, varaborgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, lýsir yfir stuðningi við franska þjóðernissinnann Marine Le Pen á Facebook í dag. Áður hefur hann vakið sérstaka athygli á fjölgun erlendra barna í leikskólum Reykjavíkur.
Hann situr í íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar fyrir hönd Framsóknar og flugvallarvina en flokkurinn hefur ítrekað sætt gagnrýni fyrir að ala á tortryggni gagnvart múslimum og útlendingum.
„Ég ætla að vona að Le Pen taki þetta og verði forseti,“ skrifar Trausti í dag. Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason svarar um hæl og segir „makalaust að sjá fulltrúa í gamalgrónum merkum stjórnmálaflokki“ lýsa yfir stuðningi við frambjóðandann. Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi Frönsku þjóðfylkingarinnar, er þekkt fyrir baráttu sína fyrir strangari útlendingalöggjöf, þjóðernishyggju, innilokunarstefnu og umburðarleysi gagnvart múslimum og fleiri minnihlutahópum. „Framsóknarflokkurinn á betra skilið,“ skrifar Egill.
Trausta er fjölgun erlendra leikskólabarna hugleikin, en í mars birti hann eftirfarandi færslu á Facebook: „Í Reykjavík eru 2 leikskólar sem hafa 75% börn af erlendum uppruna í skólunum, 4 leikakólar með 50% börn af erlendum uppruna í skólunum en allir aðrir leiksskólar hafa flestir um 25% börn af erlendum uppruna í leikskólunum. Þetta eru tölur síðasta skólavetrar en fjölgun hefur verið mikil. Þetta þykir mér merkilegt.“
Athugasemdir