Framsóknarmenn eru nú í óðaönn að undirbúa komandi alþingiskosningar sem stjórnarflokkarnir lofuðu að yrðu í haust.
Kjördæmasamband Framsóknarfélaganna í Reykjavík óskar eftir framboðum á lista flokksins á Facebook-síðu Framsóknar en þar er fólk hvatt til þess að skila inn framboðum eigi síðar en föstudaginn 12. ágúst.
Ekki geta þó allir farið í framboð fyrir fyrir flokkinn því frambjóðendur verða að hafa verið skráðir í Framsóknarflokkinn að minnsta kosti frá 27. júlí 2016. Það þýðir að væntanlegir frambjóðendur sem ekki eru í flokknum hafa nákvæmlega þrjár vikur til þess að skrá sig í Framsókn.
„Röðun á lista flokksins í Reykjavík fer fram á tvöföldu kjördæmaþingi í Reykjavík laugardaginn 27. ágúst 2016,“ segir í auglýsingunni en þá er einnig tekið fram að kosið er um fimm efstu sætin í hvoru kjördæmi í Reykjavík.
Athugasemdir