Finnur Árnason, forstjóri Haga, er ósammála þeirri yfirlýsingu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í viðtali á Bylgjunni í morgun að styrkir og tollar vegna landbúnaðarframleiðslu á Íslandi snúist um að stuðla að lágu matvælaverði fyrir íslenska neytendur.
Sigmundur áfelldist kaupmenn fyrir „frekju“ vegna þess að þeir vildu leggja niður eða lækka tolla á innflutt matvæli, líkt og stendur til með fatnað og fleiri vörur. Hann segir Ísland vera „í meðaltali Evrópusambandsins í matvælaverði“. Tölur OECD frá 2012 sýna hins vegar að Ísland hafi verið 18 prósent yfir matvælaverði í Evrópusambandinu.
Segir neytendur borga 16 til 18 milljarða
„Það liggur fyrir því að það er mótsögn í því sem hann segir. Annars vegar segir hann að matvælaverð sé lágt og hins vegar að verslunin sé að leggja of mikið á. Neytendur eru að borga sennilega 16 til 18 milljarða fyrir óhagkvæmt landbúnaðarkerfi. Að kalla það frekju kaupmanna að fólk hafi skoðun á því er einföldun.“
Athugasemdir