Dæmi eru um að foreldrar hafi fjárhagslega hagsmuni af því að börn sem búa í heimahúsum nái ekki bata. Samkvæmt frétt Mbl.is kom þetta fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á hádegisfundi hjá Samtökum eldri sjálfstæðismanna í gær.
Í svari við fyrirspurn Stundarinnar segir Bjarni hins vegar að þetta sé ekki réttur skilningur á orðum sínum. Hann skrifar:
„Þetta er ekki réttur skilningur. Í svari við fyrirspurn kom staða öryrkja til tals og fjölgun þeirra umdanfarin ár. Ég benti á að sú gagnrýni sem fram hefur komið á barnalífeyri (m.a. frá Pétri heitnum Blöndal) byggir á því að foreldrar (ekki börn) sem fara af örorku tapa honum og njóta sem launþegar töluvert minni stuðnings sem foreldrar. Þetta getur skapað ranga hvata. Um þetta hefur m.a. verið rætt í nefnd um endurskoðun almannatrygginga.“
Í frétt Mbl.is er haft eftir Bjarna að viðurkenna þurfi göt í bótakerfinu, auk þess sem mikilvægt sé að ná samkomulagi við Öryrkjabandalagið og aðra hagsmunaaðila um að byggja á starfsgetumati en ekki læknisfræðilegri örorku sem grundvelli örorkubóta. „Nefndi ráðherrann einstaklinga sem festust í grasreykingum og tölvuleikjum og svæfu fram á hádegi. Í sumum tilfellum hefðu foreldrar fjárhagslega hagsmuni af því að börn sem byggju hjá þeim næðu ekki bata. Göt væru í kerfinu sem menn yrðu að viðurkenna að væru til staðar,“ segir í fréttinni. Þá kemur fram að Bjarni hafi sagt að sífellt fleira fólk á vinnualdri byggði framfærslu sína á örorku en ef maður segði að fjölgun öryrkja sé vandamál væri maður sakaður um að vera uppfullur af mannvonsku.
Velferðarráðuneytið birti í vikunni upplýsingar um þróun örorku hérlendis. Þar kemur fram að á tímabilinu nóvember 2005 til nóvember 2015 fjölgaði öryrkjum um 29%. Var mest fjölgun á aldursbilinu 65-66 ára en öryrkjum á aldrinum 40-49 ára fjölgaði lítið sem ekkert. Í yngsta hópnum, 16-19 ára, varð mikil fækkun en í nóvember 2015 voru engu að síður 156 öryrkjar í þeim hópi. „Í því sambandi verður að hafa hliðsjón af því að með lagabreytingu sem tók gildi 1. janúar 2010 miðast lágmarksaldur örorkulífeyrisþega við 18 ár en var 16 ár áður,“ segir í texta ráðuneytisins.
Athugasemdir