„Taílandsferðin breytti öllu. og hann kom aftur allur annar maður með ný lífsviðhorf,” segir í nýrri bók um Megas, Viðrini tel ég mig vera, eftir Óttar Guðmundsson. Þarna er því lýst þegar tónlistarmaðurinn tók upp ástarsamband við ungan taílenskan mann, svokallaðan „ladyboy“, Mú að nafni. Megas bauð Mú til Íslands og landið bókstaflega logaði af kjaftasögum.
Rakið er í bókinni hvernig ástarsamband þeirra kom til. Megas hafði hitt Mú á bar „þar sem hann kom fram sem kona eða drag-kvín”.
Megas fellur af stalli
„Þeir hrifust hvor af öðrum og urðu nánir vinir. Megas fór fljótlega aftur til Taílands og hann bauð Mú að koma til Íslands. Megas sótti vin sinn út á flugvöll og fór með hann heim til sín þar sem Mú dvaldist um hríð,“ segir í bókinni.
Áður en þetta kom til virtist framtíðin ætla að verða sú að Megas yrði settur á stall af þjóð sinni og hlyti fjölda viðurkenninga. Hann var elskaður og dáður og edrúmennskan var í fyrirrúmi. Höfundur spáir því að Megas verði aufúsugestur á Bessastöðum og fái listamannalaun í áskrift. En svo snérist allt gegn honum.
„Megas datt eins og fallin keila af sínum nýfengna stalli“
„Íslenskt samfélag var á engan hátt tilbúið til að sætta sig við samband þessara tveggja manna. Margar sögur fóru á flug og fljótlega var Mú orðinn 12-13 ára og kominn í útleigu til bæði karla og kvenna. Megas datt eins og fallin keila af sínum nýfengna stalli og varð að pervert, vændiskaupanda, barnaperra og homma í þjóðarvitundinni. Fallið var hátt og margir tilbúnir til að kasta steinum í skáldið,” segir í bókinni.
Forboðnar ástir
Bókarhöfundur líkir þessu við forboðnar ástir séra Hallgíms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur. Þá hafi eins og nú náðst þjóðarsátt um að fordæma hið breyska skáld.
„Sannleikurinn var sá að Mú var fullorðinn, fæddur karlmaður en klæddi sig og málaði sig eins og kona og lifði á landamærum kynjanna. Slíkir menn kallast transvestítar, klæðskiptingar eða ladyboys í Taílandi …,“ segir í bókinni.
Því er lýst í bókinni að Mú hafi litið upp til Megasar en fljótlega uppgötvað vandamál Megasar með eigin kynhneigð eða skort á samkynhneigð. Og það fjaraði undan sambandinu. Mú fór að fara sínar eigin leiðir.
„Litlir sætir strákar“
Mú sást oft í Vesturbæjargufunni og fleiri stöðum þar sem karlmenn hittust til spjalls og leikja. Eftir nokkurn tíma hafði Megas misst öll tök á aðstæðunum og vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Algjör hlutverkaskipti urðu í sambandinu. Megas varð bráðin en Mú veiðimaður en ekki öfugt eins og þegar þeir hittust fyrst …,” segir í bókinni.
Mú kom aftur til Íslands en þá var sambandið „tekið að súrna”. Gjáin milli þeirra dýpkaði. Megas uppgötvaði að hann hafði vakið til lífsins ástand sem hann réði engan veginn við.
„Hann var gagnkynhneigður í sambandi við samkynhneigðan mann í kvenmannsgervi sem ætlast var til að hann héldi uppi …,“ skrifar Óttar um endalok sambandsins. Seinna átti Megas eftir að vekja upp enn meira umtal þegar hann gaf út lagið Litlir sætir strákar.
Athugasemdir