Þingmaður Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson, beindi athygli að heimildum lögreglu til símhlerana í sérstakri umræðu á Alþingi í dag. Fyrir rúmu ári lagði Helgi Hrafn fram fyrirspurnir á Alþingi til innanríkisráðherra um ástæður hlerana frá ársbyrjun 2008.
„Hlerunarbeiðnir lögreglunnar eru samþykktar í 99,31 prósent tilfella. Það er í reynd öllum tilvika, með einstaka, einstaka undantekningum. Þetta eru fimm hafnanir af 720 beiðnum. Það er eiginlega þannig að lögreglan biður um heimild og fær hana,“ sagði Helgi Hrafn í ræðu sinni.
Langoftast vegna fíkniefnabrota
Helgi Hrafn segir að það hafi sömuleiðis vakið athygli sína í hvaða tilvikum símhleranir væru notaðar. „Það vekur líka áhuga minn að sjá í hvaða málum þetta er notað. Ef einhver nefnir manndráp eða mansal eða kynferðisbrot þá eru allir auðvitað til í að hlera, og gott og vel. En þessar beiðnir koma fram hins vegar yfirleitt eða það er að segja í meirihluta beiðna kemur til vegna fíkniefnabrota. Það er að segja um 65 prósent tilvika. 65 prósent hlerunartilvika koma til vegna fíkniefnabrota. Vegna mansalsbrota er það 2,64 prósent. Kynferðisbrota: 5,28 prósent. Þannig að það er í hreinum meirihluta, stærri meirihluta en meirihlutinn er hér á þingi, þar sem þetta er notað í fíkniefnabrotum,“ sagði Helgi Hrafn.
Minnihluti mála lögmæt
Þingmaðurinn benti sömuleiðis á að samkvæmt tölfræði virðast símhleranir ekki vera sérlega skilvirkt aðferð til að leiða fram dóm. „Ef maður lítur á afdrif mála, hvernig fer fyrir þessum málum, þá falla málin niður í sextíu prósent tilvika, ýmist hjá ákæruvaldi eða lögreglu. Það er einungis í 40 prósent mála þar sem málið heldur áfram og teljast því lögmæt,“ sagði Helgi Hrafn.
Athugasemdir