Daglega verður á bilinu fimm til tíu aðgerðum á hjartaþræðingarstofu Landspítalans frestað vegna verkfalls lífeindafræðinga, geislafræðinga og náttúrufræðinga. Ástæðan er sú að skurðlæknar þurfa gjarnan að fá niðurstöður blóðrannsókna og geislarannsókna áður en farið er af stað í aðgerðir. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala bíða nú um 400 manns eftir þjónustu á hjartaþræðingastofu, þar af bíða tæplega 200 eftir að komast í hjartaþræðingu. Þá bíða 110 manns eftir því að komast í brennsluaðgerð. Sumir hafa verið á biðlista eftir aðgerð frá árinu 2012.
Allar stærri bæklunaraðgerðir og aðrar aðgerðir sem ekki teljast bráðaaðgerðir frestast vegna verkfallsins. Starfsfólk Landspítala fundaði klukkan átta í morgun og fór yfir stöðuna. Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Landspítala er verkfallið sem hófst í dag snúnara en til dæmis læknaverkfallið í haust og erfiðara að sjá hver áhrifin verða á starfsemina. Landspítali mun eftir sem áður sinna allri bráðastarfsemi og hvetur alla sem telja sig þurfa slíka þjónustu að draga ekki að leita til spítalans.
Athugasemdir