„Ég stend á gati. Ég veit ekki neitt. Mér dettur ekkert í hug,“ segir Brjánn Guðjónsson, faðir Birnu Brjánsdóttur, rúmlega tvítugrar stúlku sem hefur verið týnd frá því á aðfararnótt laugardags.
Brjánn átti síðast samskipti við dóttur sína á föstudagsmorgun. Hann sagði allt hafa verið samkvæmt venju. „Bara þetta venjulega. Hún skutlaði mér í vinnuna og svo sagði ég „bless elskan mín“, og fór inn og hún keyrði burt.“
Fór í bíó með föður sínum
Fram hefur komið að samskipti Birnu á Facebook hafi gefið til kynna að hún væri niðurdregin. Brjánn segist ekki hafa greint slíkt.
„Engin merki um það. Hún var búin að vera hress og kát. Við fórum í bíó á þriðjudaginn, á Star Wars: Rogue One, og hún var bara mjög kát alla vikuna. Ég gat ekki merkt neitt annað.“
Birna starfar hjá Hagkaupi í Kringlunni og var fyrst og fremst að hafa gaman að lífinu og umgangast vinkonur sínar, auk þess sem hún hafði verið að ferðast.
Klár og flott stelpa

„Hún var bara að vinna í sinni vinnu hjá Hagkaupi í Kringlunni. Hún var ekki búin að ræða nein plön. Klár og flott stelpa. Þetta er svo gersamlega úr karakter,“ segir Brjánn.
Aðspurður hvernig hann takist á við óvissuna segist Brjánn reyna að sýna styrk. „Ég get ekkert gert nema reynt að vera sterkur. Hún á bróður og ég þarf að vera sterkur fyrir hann.“
Brjánn vill koma á framfæri þökkum til lögreglunnar. „Þeir eru búnir að vera hérna eins og gráir kettir í gær og í dag að skoða herbergið hennar og tölvuna hennar. Ég vil bara koma þökkum til þeirra.“
Hér sést Birna mínúturnar áður en hún hvarf.
Athugasemdir