Hvergi í gögnum um starfsleyfi eða matsskýrslu United Silicon er minnst á orðið „lykt“ eða „lyktarmengun“ en samkvæmt upplýsingum frá eftirlitsaðilum var ekki gert ráð fyrir því að stæk brunalykt myndi berast frá kísilmálmverksmiðjunni í Helguvík.
Umrædd gögn voru lögð til grundvallar starfsleyfisútgáfu fyrir United Silicon. Enginn eftirlitsaðili virðist hafa búist við því að jafn mikil lyktarmengun myndi berast frá verksmiðjunni og raun ber vitni.
Verksmiðjan hefur átt í erfiðleikum með að hita upp fyrsta ofninn af fjórum sem áætlað er að gangsetja. Til þess að hita upp ofninn þá hafa starfsmenn verksmiðjunnar þurft að brenna mikið magn af timbri en ef timbrið er brennt við of lágan hita geta myndast lyktarsterk og ertandi efnasambönd. Efnasambönd sem geta til að mynda valdið óþægindum í öndunarfærum.
Þessi efnasambönd og efnin sem myndast við bruna timbursins eru ekki á lista yfir þau efni sem sérstakir loftgæðismælar ná utan um en þremur slíkum mælum hefur verið komið fyrir á svæðinu. Þetta hefur fengist staðfest hjá Umhverfisstofnun. Staðsetning umræddra loftgæðismæla er mjög umdeild en hún var ákveðin út frá loftdreifilíkani sem enginn vill kannast við að hafa búið til. Loftdreifilíkanið var til að byrja með skrifað á dönsku ráðgjafa- og verkfræðistofuna COWI en talsmenn fyrirtækisins óskuðu eftir því við Umhverfisstofnun að nafn fyrirtækisins yrði afmáð úr matsskýrslu United Silicon þar sem enginn hjá COWI kannast við að hafa búið hana til.
Sver af sér loftdreifilíkan
Stundin hefur áður greint frá dularfullu matsskýrslu United Silicon en þar kom meðal annars fram að Magnús Ólafur Garðarsson, einn aðaleigandi fyrirtækisins, starfaði hjá ráðgjafar- og verkfræðistofunni COWI en fyrirtækið er eins og áður segir danskt og starfa hjá því um sex þúsund manns. COWI var skrifuð fyrir mengunarspá sem bæði fyrsta verkefnið, Iceland Silicon Corporation, og það síðara, United Silicon, skilaði inn til Umhverfisstofnunar sem hluta af mati á umhverfisáhrifum við framleiðslu kísils í Helguvík. COWI sver hins vegar af sér umrædda spá og krafðist þess við Umhverfisstofnun að nafn fyrirtækisins væri afmáð af fylgigögnum sem fylgdu matsskýrslunni sem Magnús Ólafur bjó til í tengslum við verkefnin tvö. Í dag, á vefsíðu Umhverfisstofnunar, er hægt að sjá umrædda matsskýrslu og er þar búið að taka út nafn COWI við svokallaða AIRMOD-loftdreifingarútreikninga á fylgiskjölum. Þrátt fyrir kröfu COWI um að nafn fyrirtækisins verði afmáð þá var það aðeins gert að hluta til. Enn stendur í skýrslunni: „Alþjóðlega verkfræðistofan COWI í Danmörku gerði árið 2008 loftdreifilíkan fyrir Helguvíkursvæðið ...“ Samt vill enginn kannast við það hjá fyrirtækinu að hafa unnið umrætt líkan.
Magnús Ólafur starfaði hjá COWI eins og áður segir en árið 2009 var honum gert að segja upp ella verða rekinn. Það kom í kjölfar hneykslismáls í Danmörku þar sem Magnús Ólafur var sagður hafa notað nafn fyrirtækisins í leyfisleysi og þannig misnotað aðstöðu sína sem starfsmaður COWI. Nafnið COWI notaði hann meðal annars við byggingarverkefni í Valby í Danmörku. Verkefnið vakti gríðarlega athygli ytra þar sem fyrirtæki Magnúsar var sakað um að greiða pólskum verkamönnum of lág laun miðað við danska kjarasamninga en verkamennirnir, meðal annars smiðir, unnu við íbúðir við Trekronergade í Valby. Verkamennirnir komu frá pólsku starfsmannaleigunni Tomis Construction en danska stéttarfélagið BJMF taldi Magnús og viðskiptafélaga hans standa að baki starfsmannaleigunni.
Eigandinn sagður hafa búið til mengunarspánna
Þrátt fyrir þær upplýsingar sem lágu fyrir frá COWI, um að þeir hafi ekki komið nálægt umræddri mengunarspá, var United Silicon gefið starfsleyfi fyrir rekstrinum í júlí 2014. Magnús Garðarsson fullyrðir enn í dag að COWI hafi gert umrædda útreikninga en í viðtali við DV sagði hann: „Við skiljum ekki af hverju COWI sendi þetta bréf enda gerði fyrrverandi starfsmaður þess útreikningana.“ Heimildarmaður Stundarinnar fullyrðir að Magnús sé þessi „fyrrverandi starfsmaður“ sem hann benti á í umræddu viðtali og hafi því sjálfur búið til mengunarspá fyrir sína eigin verksmiðju.
Samkvæmt tilkynningu á vef Umhverfisstofnunar þá hafa borist fjöldi ábendinga, annarsvegar um reyk frá verksmiðjunni og hinsvegar um viðvarandi brunalykt.
Gætu misst starfsleyfið
„Fulltrúar stofnunarinnar hafa verið í sambandi við fyrirtækið til að fá nánari upplýsingar og hafa tvívegis á síðustu dögum farið í fyrirvaralaust eftirlit í verksmiðjuna til að fá betri og nákvæmari upplýsingar og einnig til að staðfesta umrædda lykt eða reyklosun. Fyrirtækið er í byrjunarfasa og búnaður er enn í prófun. Skýringar á þeim reyk sem sést hefur má rekja til þess að enn er verið að finna réttar stýringar á afsogi frá ofnum og reykhreinsibúnaði. Lyktin stafar fyrst og fremst af ófullkomnum bruna á lífrænum efnum (timburflís) þar sem ofninn er enn ekki kominn á það stig að vera kominn í jafnvægi og ná því hitastigi þar sem von er á að lyktin eyðist,“ segir í tilkynningunni.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar hafa forsvarsmenn United Silicon aðeins örfáa daga til þess að koma verksmiðjunni í lag áður en gripið verður til aðgerða. Þess ber að geta að ef brunalyktin verður langvarandi þá er hægt að krefjast þess að starfsleyfi verksmiðjunnar verði endurskoðað enda ekki gert ráð fyrir neinni slíkri lykt, hvorki á vinnusvæðinu eða í íbúabyggð í Reykjanesbæ.
Athugasemdir