Vegna lagabreytinga, sem munu meðal annars lækka frítekjumark lífeyrisþega úr 109 þúsund krónum í 25 þúsund krónur, taka eldri borgarar sig nú saman um að auglýsa eftir svartri vinnu.
Í fjöldatölvupósti sem gengið hefur á milli eldri borgara er því lýst yfir að, vegna breytinganna á almannatryggingarlögum, neyðist þeir nú til þess að fara að vinna svart.
Eldri borgarar sem Stundin ræddi við í fyrri umfjöllun um breytingarnar, segja að hreinlega sé verið að þvinga fólk sem vill stunda vinnu út af atvinnumarkaði.
Í keðjubréfinu sem Stundinni barst eru lagabreytingarnar gagnrýndar harðlega og fast er skotið á síðustu ríkisstjórn: „Yfirlýsingar og fagurgali íslenskra stjórnmálamanna um að skapa vinnuumhverfi og aðstæður í þjóðfélaginu svo að eldri borgarar geti starfað sem lengst til að skapa þeim betra heilsufar og velsæmd eru því marklausar með öllu.“
Í bréfinu er svo komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem vilji halda áfram að vinna neyðist nú til þess að sækja sér svarta vinnu, til þess að komast hjá hinum miklu skerðingum sem eru í vændum þann 1. janúar. „[…]eigum við að fara heim um ármótin og verslast upp drepast úr leiðindum eða neyðumst við til að ná okkur í SVARTA VINNU?“ Að lokum eru atvinnurekendur svo ákallaðir að nýta sér stundvísa, reglusama og heilsuhrausta eldri borgara í svarta vinnu. „ÞVÍ NÚ ER ÞAÐ SVART OG ALLTAF DÖKKNAR ÞAÐ!“
Í bréfinu er komið inn á það hverjar afleiðingar þess að hætta vinnu geta verið fyrir eldri borgara. Þeir eigi það á hættu að einangrast félagslega, auk þess sem andlegri og líkamlegri heilsu þeirra hraki hraðar en hjá þeim sem haldi lengur áfram á vinnumarkaði. Rannsóknir sem gerðar hafa verið virðast styðja við þá kenningu, og jafnvel að eftir því sem fólk er lengur utan vinnumarkaðar hraki heilsunni meira.
„...varðhundur kerfisins til áratuga á rjómaríkum bitlingaspena framsóknar í gegnum lífið“
Í öðru dreifibréfi sem sagt er ganga á milli eldri borgara er Haukur Ingibergsson, formaður Landssambands eldri borgara tekinn föstum tökum. Þar er spurt hvort það sé ekki dæmigert fyrir íslenskt stjórnkerfi „að framsóknarmaðurinn Haukur Ingibergsson, varðhundur kerfisins til áratuga á rjómaríkum bitlingaspena framsóknar í gegnum lífið“ sé í dag formaður Landsambandsins. Hans hlutverk þar sé „að sjá til þess og tryggja það að sem flestir eldri borgarar lifi sem skemmst og það á undanrennu.“
Í samtali við Stundina sagðist Haukur þó hefði viljað sjá frítekjumarkið mun hærra. Fyrirætlun stjórnvalda hafi verið að skerða bætur strax frá fyrstu tekjum. Landssambandið skilaði áliti við þá tillögu þar sem komið var á framfæri að frítekjumarkið þyrfti að hækka til þess að auka atvinnuþátttöku eldri borgara.
Nú eftir áramót fá eldri borgarar mest 180 krónur af hverjum 1000 eftir að yfir frítekjumarkið er farið. Haukur sagði það vera of lítið, en hann hafði sjálfu heyrt í fólki sem mun hætta á vinnumarkaði eftir að breytingarnar taka gildi. „Ég vil sjá endurskoðun á þessu ákvæði hvað varðar frítekjumarkið og tek alveg undir þessa gagnrýni. Þetta er ekkert í þágu samfélagsins. Eldri borgarar vilja og geta unnið, það er þörf á vinnukröftum þeirra, þess vegna á frítekjumarkið að vera margfalt hærra en það er núna.“
Athugasemdir