Sextán ára hælisleitanda, sem leitaði á bráðamóttöku Landspítalans fyrir um rúmum mánuði síðan eftir að hafa reynt sjálfsvíg, var vísað frá eftir stutt samtal og sagt að koma aftur daginn eftir. Stundin birti sögu drengsins í síðasta tölublaði.
Daginn eftir að hafa reynt sjálfsvíg kom hann á BUGL og hitti geðlækni, sem gaf honum eina svefntöflu og sagði jafnframt að hann ætti að geta fengið fleiri töflur hjá öðrum lækni. Hann hitti geðlækninn einu sinni enn en hefur síðan hvorki verið undir læknishendi né fengið svefntöflur eða önnur lyf. Drengurinn á við alvarlegar svefntruflanir að etja og hefur því ýtt á eftir því að fá aðstoð, bæði sjálfur og í gegnum talsmenn hælisleitenda hjá Rauða krossinum. Í samtali við blaðamann Stundarinnar í dag sagðist hann nú loks hafa fengið þær upplýsingar frá starfsmönnum Útlendingastofnunar að hann fái læknisviðtal 18. október. Hann lýsir enn miklu vonleysi og segist enn stöðugt hugsa um að binda enda á líf sitt.
Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir, yfirlæknir göngudeildar BUGL, segir að það þurfi ekki að vera óeðlilegt að manneskju, sem gert hefur sjálfsvígstilraun, sé vísað frá samdægurs. „Nei, það þarf ekki að vera neitt óeðlilegt við það. Við erum með bráðateymi hér á BUGL sem sinnir þjónustu við börn og unglinga í kjölfar sjálfsvígstilrauna eða vegna sjálfsvígshugsana. Teymið hittir þau annaðhvort samdægurs eða daginn eftir og metur aðstæður. Ef þörf þykir á er barna- og unglingageðlæknir fenginn að málinu. Stundum þarf innlögn og stundum áframhaldandi aðkomu bráðateymis. Stundum er niðurstaðan sú að ekki er talin frekari þörf á aðstoð okkar. Þá vísum við jafnvel á úrræði annars staðar, svo sem í heilsugæslunni, hjá sálfræðingum á vegum Tryggingastofnunar eða í fjölskylduþjónustu Rauða krossins.“
Athugasemdir