Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ræddi við fréttamenn á Bessastöðum, eftir að hafa skilað Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, stjórnarmyndunarumboðinu nú í morgun. Hún sagðist hafa notað gærdaginn til þess að fara yfir aðra valkosti, eftir vikutíma í stjórnarmyndum sem gekk ekki upp, og í gærkvöldi hafi hún ákveðið að „kasta inn handklæðinu“. Hún hafi upplýst forseta um þá kosti sem hún sæi í stöðunni. Hún mælti ekki við því við forseta með því að einhver sérstakur fengi stjórnarmyndunarumboðið og sagði forsetann verða að gera grein fyrir því hver næstu skref yrðu.
Katrín sagði stöðu allra flokka nú vera að þrengjast. Úrslit kosningana hafi falið það í sér að ekki sé hægt að ná eins málefnalegri samstöðu og oft áður. Nú þurfi hver flokkur að ræða það innan sinna raða hvort slaka þurfi á kröfunum.
Spurð að því hvort nú þurfi hugsanlega að mynda minnihlutastjórn eða þjóðstjórn sagði Katrín ekkert útilokað, nú þegar búið væri að reyna að mynda tvær meirihlutastjórnir án árangurs. Hún vildi ekki kalla ástandið nú stjórnarkreppu en staðan væri snúin.
Vonbrigði að viðræðunum hafi lokið
Sjálf hefði hún ekki náð þeim árangri sem hún vænti og að hún hefði orðið hissa á því hvernig viðræður Vinstri grænna við Samfylkingu, Pírata, Bjarta framtíð og Viðreisn fóru. „Ég varð fyrir miklum vonbrigðum,“ sagði hún. Hún hafi hins vegar ákveðið að slíta viðræðunum strax.
„Ég varð fyrir miklum vonbrigðum“
Áður hefur komið fram að á fundi hennar með Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar, hafi hann lýsti því yfir að hann hefði ekki sannfæringu fyrir þessari leið. Í samtali við fréttamenn nú sagði Katrín að hún liti svo á að allir yrðu að hafa sannfæringuna til að halda þessari vegferð áfram. Án þess væri varla hægt að gera nauðsynlegar málamiðlanir til að þessir fimm flokkar geti náð saman. Heilbrigðismálin hafi verið stóra málið í kosningabaráttunni og flokkarnir þyrftu að finna leiðir sem þeir væru sáttir við til að fjármagna þá uppbyggingu.
Ræddi við Bjarna
Þá sagðist hún hafa rætt við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins. „Ég átti samtal við Bjarna í gær og hef átt mörg samtöl við hann,“ en bætti því við að að væri málefnalega langt á milli þessara flokka og málefnin réðu för. Það væri ástæða fyrir því hvar flokkarnir staðsettu sig á þessum hefðbundna ás, til hægri eða vinstri. Staðan væri hins vegar farin að þrengjast. Nú sé tímabært að flokkarnir fari aftur yfir sína afstöðu því á endanum verði að mynda ríkisstjórn. „Mér finnst kannski of snemmt að segja til um það,“ sagði hún um möguleikann á að því að Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn gætu myndað ríkisstjórn.
Að lokum sagði hún að þing þyrfti að koma saman til að ljúka fjárlögum, og það væri vel hægt án þess að búið væri að mynda ríkisstjórn.

Enginn fær umboðið
Guðni Th. Jóhannesson steig síðan fram og sagðist ekki ætla að láta neinn fá stjórnarmyndunarumboðið að svo stöddu. Eftir fundinn með Katrínu hefði hann rætt við formenn allra flokka og hvatt þá til þess að ræða sín á milli í leit að lausnum, um leið og hann hefði minnt á þá miklu ábyrgð, sem hvílir á þinginu, að sjá til þess að ný ríkisstjórn verði mynduð þegar fyrri stjórn hefur misst þingmeirihluta og beðist lausnar.
Hann sagðist hafa ástæðu til að ætla að það skili árangri, án þess að skýra það frekar. Hann vænti þess að um eða eftir helgi hefðu línurnar skýrst og þá væri hægt að sjá fyrir næstu skref í þessum stjórnarmyndunarviðræðum.
Guðni sér möguleikann á nýrri ríkisstjórn.
„Í ljósi þess hvernig viðræður um stjórnarmyndun hafa þróast frá kosningum og þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið í samtölum mínum við forvígsmenn flokkanna hef ég ákveðið að veita ekki einum tilteknum formanni eða fulltrúa flokks umboð til stjórnarmyndunar að sinni. Fyrir slíku skrefi eru bæði hefð og gildar ástæður eins og málum er komið. Skynsamlegast er að forystufólk flokkanna á þingi kanni óformlega næstu daga hvers konar samstarf sé mögulegt enda eru slíkar viðræður þegar hafnar. Í því sambandi árétta ég mikilvægi þess að stjórnmálamennirnir rísi undir þeirri ábyrgð sem þeim er lögð á herðar, að sjá til þess að í landinu sé ríkisstjórn sem meirihluti á Alþingi geti sætt sig við. Ég nefni jafnframt þá brýnu nauðsyn að kalla þing senn saman. Vitaskuld væri æskilegast að samkomulag um nýja ríkisstjórn lægi fyrir við þingsetningu.“
Aðspurður sagði hann að þing þyrfti að koma saman á næstu vikum. „Ég er ekki að segja að það komi saman í næstu viku eða þar næstu viku. Segjum að það komi saman fyrir jól.“
Athugasemdir