„Það er að eiga sér stað menningarlegt stórslys á Íslandi, það er bara ekki hægt að kalla það öðru nafni,“ segir Eyþór Eðvarðsson í samtali við Stundina, en hann átti frumkvæði að átaki til verndar strandminja við Ísland. Laugardaginn 18. apríl næstkomandi verður haldin ráðstefna á Hótel Sögu um málefni minja sem eru í hættu vegna ágangs sjávar. Eyþór segir þetta mestmegnis vera sjávarútvegsminjar; naust, varir, verbúðir, fiskgarða, en einnig bæjarhóla og aðrar minjar tengdar landbúnaði. „Þetta er bara að hverfa mjög hratt. Það hefur eitthvað gerst með brimrót hérna við Ísland, það er að aukast. Fornleifafræðingar sem hafa verið að grafa við strendur tala um þetta, en við höfum einnig verið að rýna í loftmyndir og það sést alveg klárlega að rofið er orðið það mikið að það stefnir í að við missum þetta næstum því allt saman ef við grípum ekki inn í.“
Stórmerkilegar minjar að hverfa
Eyþór tekur dæmi um Siglunesið á Siglufirði. „Á þessu svæði eru stórmerkilegar minjar sem eru dagsettar alveg frá fyrstu tíð Íslands, frá því Siglfirðingar byrjuðu að veiða fisk. Þar eru fullt af verbúðum og meðal annars öskuhaugar með fiskbeinum sem miklu fleiri en fornleifafræðingar geta rannsakað. Siglunesið sjálft á tíu til fimmtán ár eftir og þá er það horfið,“ segir Eyþór. Þá segir hann ástandið einnig afar slæmt á Norðurlandi Vestra, þar sem um 80 prósent af minjum eru að hverfa. Á Vestfjörðum sé staðan svipuð.
Athugasemdir