„Ég hef í rauninni ekkert um þetta að segja,“ segir Bragi Ólafsson rithöfundur við spurningum blaðamanns um nóvelluna Bögglapóststofuna. Bókin kom út fyrir síðustu jól á vegum fjárfestingafyrirtækisins GAMMA (GAM Management hf.) og var aðeins aðgengileg 300 vinum og viðskiptavinum fyrirtækisins. DV fjallaði um málið í gær og þá hefur bókabloggsíðan Druslubækur og doðrantar einnig vakið athygli á útgáfunni. Bókin mun vera fyrsta sagan í ritröð.
Bragi segist sjálfur ekki vita til þess að bók hafi áður verið gefin út með þessum hætti hér á landi, þar sem fyrirtæki pantar skáldverk hjá höfundi og gefur útvöldum vildarvinum. Þess má geta að bókin var tilnefnd til íslensku auglýsingaverðlaunanna fyrr á þessu ári fyrir beina markaðssetningu. Bragi vill ekki tjá sig um tilnefninguna né svara því hvort verkið hafi verið sérstaklega skrifað fyrir GAMMA. Í kynningartexta sem fylgdi bókinni segir orðrétt: „Haft var samband við Braga Ólafsson rithöfund og hann beðinn um að semja sögu, nóvellu, sem síðan var prentuð og gefin út í 300 tölusettum einstökum, nákvæmlega fyrir viðskiptavini GAMMA og enga aðra.“
Athugasemdir