Íslensk stjórnvöld hafa óskað eftir aðstoð frá danska sjóhernum í tengslum við leitina að Birnu Brjánsdóttur. Þetta segja heimildir Stundarinnar en samkvæmt þeim hefur nú dönsku varðskipi verið stefnt að grænlenska togaranum Polar Nanoq sem fór frá Hafnarfjarðarhöfn á laugardagskvöldið.
Talið er að grænlenskir skipverjar um borð tengist rauðri Kia Rio-bifreið sem lögreglan hefur leitað að í tengslum við hvarf Birnu aðfaranótt laugardags. Eiga þeir að hafa leigt bifreið af sömu tegund af Bílaleigu Akureyrar á föstudeginum og skilað henni á laugardeginum. Togarinn fór síðan úr höfn eins og áður segir á laugardagskvöld.
Skipstjórinn á Polar Nanoq staðfestir í samtali við Stundina að skipið sé nú á leið til Íslands.
Nákvæm staðsetning ekki fyrir hendi
Danska varðskipið HDMS Triton nálgast nú grænlenska togarann. Ekki er vitað um nákvæma staðsetningu togarans eða varðskipsins eða hvort þeir hafi yfir höfuð náð sambandi við grænlensku áhafnarmeðlimina. Ef litið er á vefinn MarineTraffic.com sem heldur utan um skipaumferð víða um heim má sjá að vefurinn staðsetur grænlenska togarann síðast fyrir rúmum þrettán klukkutímum en þá stefndi það hraðbyri á grænlenska lögsugu.
Þess ber að geta að lögreglan telur að skór sem fundust í Hafnarfjarðarhöfn séu skórnir sem Birna gekk í kvöldið sem hún hvarf.
Athugasemdir