Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður af héraðssaksóknara fyrir að hafa hótað lögreglumanni að hann yrði drepinn.
Maðurinn er jafnframt ákærður fyrir að hafa kýlt þennan sama lögreglumann. Þegar atvikið átti sér stað var maðurinn á skilorði vegna kynferðisbrots gegn barni. „Í kjölfar þess að ákærði var handtekinn að Njálsgötu 65 í Reykjavík, í lögreglubifreið á leið að lögreglustöðinni við Hverfisgötu, hótað lögreglumanninum [X], með því að segja að hann gæti látið drepa lögreglumanninn og með því að hafa ráðist með ofbeldi á [X] skömmu eftir að ákærði hafði verið færður í fangaklefa í lögreglustöðinni við Hverfisgötu með því að slá [X] hnefahöggi sem lenti á hægri öxl hans og með því að sparka í hægra hné [X],“ segir í ákæru.
Atvikið átti sér stað á aðfaranótt Þorláksmessu árið 2014 en í október það sama ár staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanninum.
Hann var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn barni en hann veittist kynferðislega að 14 ára stúlku í strætisvagni árið 2011. Maðurinn fékk 8 mánaða skilorðsbundin dóm vegna þess.
Athugasemdir