Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, tapaði í dag meiðyrðamáli sínu gegn Reyni Traustasyni, fyrrverandi ritstjóra DV. Hún var dæmd til að greiða allan lögfræðikostnað Reynis, eða um 750 þúsund krónur.
Ásgerður stefndi Reyni persónulega fyrir frétt sem birtist í DV í júlí árið 2013 þar sem nágrannar hennar sögðu hana hafa tússað á bíla. Þar var haft eftir Sverri Tómasi Bjarnasyni, nágranna Ásgerðar og viðmælanda DV, að hún hafi verið kærð fyrir eignaspjöll en hún krotaði „einkastæði“ á glugga og spegla bílsins.
Lögmaður Ásgerðar Jónu,Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hélt því fram fyrir dómi að hún hafi ekki verið kærð formlega heldur hafi lögreglu aðeins verið tilkynnt um eignaspjöllin. Vilhjálmur hélt því sömuleiðis fram að Ásgerður væri ekki opinber persóna. Katrín Smári Ólafsdóttir, lögmaður Reynis Traustasonar, mótmælti því að hún væri opinber persóna með þeim rökum að hún hafi stigið inn í kastljós fjölmiðla þegar hún tók við stöð formanns Fjölskylduhjálpar Íslands.
Athugasemdir