Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, útilokar ekki hægri stjórn með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn. Flest önnur ríkisstjórnarmynstur hafa verið útilokuð í umræðum fyrir og eftir kosningar.
Benedikt Jóhannesson hefur í raun útilokað möguleikann á fimm flokka stjórn stjórnarandstöðuflokkanna. „Þá værum við að ganga inn í Píratabandalagið. Ég held að það væri á skjön við úrslit kosninganna,“ sagði Benedikt Jóhannesson á Stöð 2 í hádeginu.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hefur þá bæði lýst andstöðu sinni við að mynda ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Pírötum, og því stendur eftir að mynda stjórn með VG eða Bjartri framtíð, ásamt Sjálfstæðisflokki. Þar sem Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segist ekki vilja ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, hafa möguleikarnir þrengst. Björt framtíð er hins vegar opin fyrir öllu.
Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, hélt öllu opnu í umræðum formanna á Stöð 2 í hádeginu. „Málefnalega hafa þessir flokkar verið ansi langt í sundur. En það er ekki ástæða til að útiloka neitt fyrirfram.“
VG vill ekki Sjálfstæðisflokkinn
Katrín Jakobsdóttir sagðist ekki vilja samstarf við Sjálfstæðisflokkinn fyrir kosningar og endurtók það eftir kosningar. Hún sagðist helst vilja stjórn minnihlutans á Alþingi: „En það virðist ekki í spilunum. Við höfum líka sagt að við teljum nánast enga málefnalega samleið með okkur og Sjálfstæðismönnum og það hefur ekkert breyst í því. Eins og ég er búin að segja, þetta eru þeir flokkar sem standa lengst frá hvor öðrum í íslenskum stjórnmálum. Við sjáum ekki fyrir okkur slíkt samstarf.“
Tæp Viðreisnarstjórn með Bjartri framtíð
Hins vegar hægt að mynda tæpa ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Slík ríkisstjórn væri tæp, með aðeins 32 þingmenn gegn 31 þingmanni stjórnarandstöðu, með sama meirihluta og Nýsköpunarstjórnin 1944 til 1947 og Viðreisnarstjórnin 1963 til 1971, sem samsett var af hægri og vinstri flokki, Sjálfstæðis- og Aþýðuflokki. Allir flokkarnir þrír eru í kringum miðju eða hægra megin við hana í efnahagslegu tilliti. Helsti ágreiningurinn gæti legið í sjávarútvegsmálum, þar sem Viðreisn hafði talað fyrir uppboði á aflaheimildum, en Sjálfstæðisflokkurinn staðið harður gegn því. Þá falla stefnur Viðreisnar og Bjartrar framtíðar ágætlega saman. Í þeirri ríkisstjórn hefur enginn útilokað samstarf við annan, ólíkt flestum öðrum mögulegum ríkisstjórnarsamstörfum.
Athugasemdir