Umhverfisstofnun gaf kísilmálmverksmiðju United Silicon þau fyrirmæli að ekki mætti kveikja á ofni verksmiðjunnar í Helguvík fyrr en úrbætur hefðu verið gerðar vegna fjölmargra athugasemda stofnunarinnar um mengunarvarnir. Slökkt var á ofni United Silicon vegna vinnuslyss sem þar varð á dögunum en einn af starfsmönnum United Silicon fékk í sig rafmagn.
Stundin hefur undanfarnar vikur fjallað ítarlega um óánægju íbúa sveitarfélagsins með mikla mengun sem hefur borist yfir byggð frá kísilmálmverksmiðjunni. Um er að ræða stæka brunalykt sem aldrei var gert ráð fyrir og íbúum var aldrei gert grein fyrir í aðdraganda útgáfu starfsleyfis verksmiðjunnar. Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfið en Stundin hefur farið í gegnum öll þau gögn sem lágu til grundvallar þeirri ákvörðun og er sömu sögu að segja þar, hvergi er gert ráð fyrir lyktarmengun.
Verksmiðjan tók til starfa síðasta haust og þann 11. október var kveikt upp í fyrsta ofni verksmiðjunnar af fjórum sem áætlað er að taka í notkun á næsta áratug. Snemma í nóvember fóru íbúar að finna fyrir reyk- og lyktarmengun frá verksmiðjunni. Í kjölfarið barst Umhverfisstofnun fjölmargar kvartanir frá íbúum og hefur síðan þá farið í fjórar eftirlitsferðir í verksmiðjuna. Í þessum fjórum eftirlitsferðum voru skráð niður fjöldinn allur af frávikum sem stofnunin hefur nú krafist að ráðist verði í úrbætur á. Íbúar hafa þó ekki sagt sitt síðasta og hefur hópur þeirra hrundið af stað undirskriftasöfnun þar sem skorað er á Reykjanesbæ og Umhverfisstofnun að bíða með útgáfu starfsleyfis fyrir Thorsil, hina stóru kísilmálmverksmiðjuna sem ráðgert er að verði gangsett í Helguvík. Ef af þeirri kísilmálmverksmiðju verður er ljóst að tvær stærstu kísilmálmverksmiðjur í heiminum verða í Helguvík í Reykjanesbæ, aðeins kílómetra frá íbúabyggð.
United Silicon virðist nú hafa uppfyllt skilyrði Umhverfisstofnunar því verkmsiðjunni hefur verið heimilað að kveikja á ofninum.
Meðfylgjandi myndband var tekið í verksmiðju United Silicon fyrir nokkru.
Athugasemdir