„Þetta eru pólitískar árásir sem beinast að mér persónulega, og ég er orðinn býsna vanur því að menn reyni að grafa undan trúverðugleika mínum,“ sagði Bjarni í viðtali í Sprengisandi á Bylgjunni um helgina, aðspurður hvort hann teldi ekki óheppilegt að hafa átt aðkomu að máli er varðaði kaup skattrannsóknarstjóra á upplýsingum um aflandsfélög Íslendinga í ljósi þess að nafn hans sjálfs kemur fyrir í gögnunum.
Í munnlegri skýrslu sem Bjarni flutti á Alþingi í síðustu viku sagði hann að þegar skattrannsóknarstjóra hefði boðist að kaupa gögn um eignir Íslendinga í skattaskjólum hefði fjármálaráðuneytið „eingöngu spurt að því hvort skattrannsóknarstjóri teldi eitthvert gagn af því fyrir meginstarfsemi embættisins að fá gögnin keypt“ og „aldrei gert ágreining um verðið“.
Samkvæmt bréfi skattrannsóknarstjóra frá 10. febrúar 2015 setti hins vegar fjármálaráðuneytið embættinu tvö skilyrði fyrir fjárheimild til kaupa á gögnunum og laut annað skilyrðið að því hve mikið og hvernig yrði greitt fyrir gögnin.
Sú staðreynd að bæði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Benedikt Sveinsson faðir hans áttu aflandsfélög sem koma fyrir í Panama-skjölunum vekur upp spurningar um samskipti Bjarna við skattrannsóknarstjóra árin 2014 og 2015 þegar embættinu bauðst að kaupa gögn um aflandsfélög Íslendinga.
Eins og áður hefur verið greint frá í fjölmiðlum kom félagið Falson & Co, sem Bjarni átti hlut í, fyrir í gögnunum sem skattrannsóknarstjóra bauðst að kaupa, en nú liggur einnig fyrir að faðir ráðherra átti félag á Tortólu og notfærði sér þjónustu lögmannsstofunnar Mossack Fonseca.
Í ljósi þess að Bjarni Benediktsson átti aðkomu að ýmsum viðskiptum föður síns fyrir hrun og sat í stjórnum félaga á hans vegum er ólíklegt að ráðherranum hafi ekki verið kunnugt um aflandsfélag Benedikts. Benedikt Sveinsson hefur fullyrt að fyrirtækið hafi eingöngu verið notað til að halda utan um eignarhald húss í Flórída, en þar hefur Bjarni sjálfur einnig dvalist. Hann var til dæmis staddur á Flórída þegar fyrsti þáttur Kastljóss um íslenska stjórnmálamenn í aflandsfélögum, meðal annars hann sjálfan, var sýndur ásamt heimsfrægu viðtali Sven Bergman við Sigmund Davíð.
Athugasemdir