Skiptum á þrotabúi Aska Capital hf. er nú lokið, sjö árum eftir að stjórn fjárfestingabankans óskaði eftir að hann yrði tekinn til slitameðferðar.
Samkvæmt tilkynningu í Lögbirtingablaðinu var samþykkt úthlutunargerð á skiptafundi þann 30. desember 2016 um að forgangskröfur í þrotabúið yrðu greiddar að fullu, alls 77 milljónir króna. Hins vegar verða aðeins 3 milljarðar greiddir upp í samþykktar almennar kröfur sem alls námu 7,3 milljörðum króna. Þannig verða kröfuhafar af 4,3 milljörðum vegna gjaldþrots fjárfestingarbankans, en stærsti kröfuhafinn í Askar Capital var Eignasafn Seðlabanka Íslands, einkahlutafélag sem heldur utan um kröfur sem Seðlabankinn stóð uppi með eftir bankahrunið.
Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og þingmaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 2009 til 2013, var forstjóri Aska Capital fyrir hrun. Fjárfestingarbankinn var meðal annars í eigu Milestone, fyrirtækis Karls og Steingríms Wernerssonar, umsvifamikill á fjármálamarkaði og með starfsemi á Indlandi, í Lúxemborg, Rúmeníu og Bandaríkjunum.
Athugasemdir