
Á sama tíma og stjórnendur og eigendur fyrirtækja eins og Thorsil, sem vill byggja kísilmálmverksmiðju á Íslandi, reyna að agitera fyrir því að af því megi verða sem fyrst reyna þeir á sama tíma að sannfæra stjórnvöld um að reisa virkjanir. Og stjórnvöld, með Jón Gunnarsson, formann atvinnuveganefndar í fararbroddi, vilja láta sannfærast af því þau vilja virkja.
Til þess að verksmiðja Thorsil geti starfað þarf hún rafmagn og til þess að hún fái rafmagn þá þarf að byggja virkjanir fyrir eigendurna. „Þetta hefur verið alveg gríðarleg pressa varðandi orkuna og virkjun neðrihluta Þjórsár. Meirihluti atvinnuveganefndar hefur verið að beita þessum stórfyrirtækjum fyrir sig til að réttlæta hraðferðina á því að samþykkja fleiri virkjunarkosti án þess að það fari í gegnum rammaáætlun,“ segir fulltrúi í atvinnuveganefnd en stjórnendur kísilmálmfyrirtækjanna komu á fund nefndarinnar þann 12. júní síðastliðinn og töluðu þá meðal annars um mikilvægi fleiri virkjana.
„Meirihluti atvinnuveganefndar hefur verið að beita þessum stórfyrirtækjum fyrir sig til að réttlæta hraðferðina á því að samþykkja fleiri virkjunarkosti án þess að það fari í gegnum rammaáætlun.“
Þetta er svo öfugsnúið. Ríkisstjórnin byrjar á því að gera fjárfestingarsamning við Thorsil og fyrirtækið skipuleggur byggingu verksmiðjunnar á Reykjanesi með tilheyrandi fjárútlátum.
Thorsil hefur einnig samvinnu við yfirvöld í Reykjanesbæ og aflar tilskilinna leyfa til að reisa verksmiðjuna. Íbúar í Reykjanesbæ vakna svo upp við það einn daginn að senn muni mengandi stóriðjuver rísa í túnfætinum hjá þeim. Sumir vilja það ekki og krefjast aðgerða frá bænum. Bærinn segir hins vegar: Verksmiðjan er of langt komin; það er ekkert hægt að gera.
Á sama tíma liggur fyrir að ekki er víst hvort eða hvar Thorsil fær rafmagn til að knýja verksmiðjuna.
Viðkvæðið hjá stjórnvöldum verður svo án vafa: Verksmiðjan er of langt komin til að hægt sé að sleppa því að byggja virkjun. Þannig eru stjórnvöld á endanum ekki bara að gera samning við Thorsil um að heimila þeim að byggja verksmiðju heldur er líka verið að lofa því að byggja fyrir þá virkjun.
Athugasemdir