Nú skulum við loka augunum og ímynda okkur - algerlega hlutlaust eins og við værum geimverur, eða algerlega hlutlaus eintök af Homo Sapiens - og við skulum horfa á íslenskt samfélag og við skulum ímynda okkur hvað hefði gerst ef við hefðum tekið á móti nokkur hundruð manns í öllum helstu áföllum sem hafa dunið yfir heiminn frá seinni heimsstyrjöld. Þannig hefðum við tekið á móti 500 Finnum á flótta undan Rússum og 500 Gyðingum á flótta undan Hitler í seinna stríði, 500 Grikkjum á flótta frá Tyrklandi og 500 Austur-Evrópubúum að flýja járntjaldið, svo hefðum við fengið eitthvað af fólkinu sem var hent út úr flugvélum af herforingjunum í Suður Ameríku og kannski 500 Víetnömum og 500 manns frá Búrkína Fasó og 500 manns sem flúðu byltinguna í Íran og stóran hóp frá Eþíópíu. Ímyndum okkur að hingað hefðu komið samtals um 10.000 manns fyrir árið 1980, samtals um 3% landsmanna. Talan væri vitanlega á reiki, fólk sem kom í seinni heimsstyrjöld væru væntanlega ekki taldir innflytjendur lengur. En er það há tala? 200 á ári í 50 ár? Það eru samt helmingi færri innflytjendur en eru núna á Íslandi 35 árum síðar.
En nú getum við ímyndað okkur hvaða áhrif þessi litli hópur hefði haft og hvernig Ísland væri núna ef við hefðum verið jákvæð og opin fyrir fólki í neyð. Heldur einhver að við hefðum orðið fátækara eða verra land? Hér væri væntanlega synagóga og moska, til viðbótar við aðra litla söfnuði, kannski réttrúnaðarkirkja. Við getum síðan lokað augunum og ímyndað okkur fjölskyldurnar sem vantar í samfélag okkar vegna þess að þetta fólk kom ekki hingað. Hvernig hér vantar heilu ættartrén sem hefðu lifað hérna við hliðina á Urbancic, Drusin, Waage, Takefusa, Thors, Samper og Haarde fjölskyldunum. Börnin mín áttu færeyska langömmu og danskan langafa með eftirnafnið Torp en hér hefur hefur okkur alveg vantað ömmu Wang, ömmu Goldstein og Hassan, ömmu Iwonu, og ömmu Kojik og lagið mamma Angóla hefði átt að vera samið árið 1965 en ekki 2010. Fyrirsögnin „Negri í Þistilfirði“ hefði auðvitað aldrei átt að sjást á prenti en að hún hafi birst árið 1977 en ekki 1957 eða 1937 er í rauninni átakanlega vandræðalegt.
„Einu börnin með hreim voru börn námsmanna sem höfðu fæðst í Ameríku og á Norðurlöndum.“
Ég ólst upp í Árbænum eftir að ég flutti heim eftir sex ár í Ameríku, það tók mig nokkra mánuði að komast aftur inn í tungumálið en skrítnasta nafnið í skólanum á þessum tíma var Carl Matthías Christopher Lund. Það var norskt en svo var það Ormur sem var hálf þýskur og kallaður Spatsí - eða spörfugl af móður sinni. Það var semsagt öll exótíkin. Einu börnin með hreim voru börn námsmanna sem höfðu fæðst í Ameríku og á Norðurlöndum. Krakkarnir höfðu varla séð neinn frá Afríku, Arabíu, Asíu og Indlandi. Pælið í því að fæstir höfðu séð nema einn eða tvo Austur-Evrópubúa með berum augum! Einhver gæti saknað þessarar heimsmyndar og óskað þess að heimurinn yrði alltaf 1980.
En við skulum halda áfram að ímynda okkur. Hvernig var veitingahúsaflóran á Íslandi árið 1980? Voru ekki tveir veitingastaðir í allri Reykjavík? Hvaða áhrif hefði örlítið opnara Ísland haft á tengsl okkar við útlönd og tengslanet, hvaða áhrif hefði þetta haft á tækniþróun, íþróttir og menningu? Hvaða áhrif hefði þetta haft á bókmenntirnar? Þegar fólk flýr þá er þversnið samfélagsins á flótta, bændur, bakarar, læknar, hjúkkur, kennarar, blaðamenn, lögfræðingar, íþróttafólk, viðskiptamenn, stjórnmálamenn, listamenn. Hvaða vini eignaðist mín kynslóð ekki og hvaða matarboð fórum við ekki í og hvaða skrítnu brúðkaup eða hátíðir fórum við ekki á með æskuvinum okkar?
Ísland hefði ekki orðið verra land ef 200 flóttamenn hefðu komið hingað árlega, Ísland hefði orðið betra land. Kannski hefðu einhverjir hópar haldið saman, kannski væri lítil Afríkugata í smáíbúðahverfinu, kannski svolítið Chile í Breiðholti, kannski dálítil Eþíópía á Vesturgötunni og Víetnamskur stigagangur í Hamraborginni. En þessi litli hópur - innan við 5% landsmanna hefði horfið inn í mannhafið - kannski eitt barn í hverjum bekk í mesta lagi. Hefði það riðið tungumálinu að fullu - eða værum við ríkari af tungumálum? Fólki sem gæti þýtt beint af og á íslensku úr allskyns málum þar sem enginn þýðandi er fyrir hendi? Fyrir rithöfunda hefur stærsti þröskuldurinn í útrás bókmennta verið skortur á þýðendum á mörg helstu heimsmálin utan Evrópu. Hvaða nýju hugmyndir hefðu komið í landbúnaði, fiskverkun, hvaða áhrif hefði þetta haft á blaðamennsku í landinu eða bara vitundarlíf okkar almennt, að hafa fólk í beinu talsambandi við nána ættingja í gamla landinu.
„Það er sorglegt að sjá fólk hrekjast inn í pólitískt öngstræti og standa upp í andstöðu við náttúruna, sköpunargáfuna og að lokum sjálfan kærleikann.“
Mannúðarsjónarmiðin í dag eru augljós en ég trúi varla að þau 20% landsmanna sem ekki vilja hleypa einum einasta flóttamanni inn í landið geri það á grundvelli kynþáttahyggju. Hluti af vandanum virðist vera einhverskonar efnahagsleg ranghugmynd eða alger skortur á ímyndunarafli. Menn hljóta að sjá þá sem komu til landsins fyrir 20 árum og eru orðnir gildir borgarar og menn hljóta að sjá fyrir sér að nákvæmlega það sama myndi gerast aftur. Ekki nema menn sjái bara fyrir sér að þessi manneskja sem aðlagaðist hafi „tekið starf“ frá einhverjum öðrum. Í huga sumra virðast lífsgæði hér vera einhver fasti, „útflutningstekjur“ samsettar úr áli og fiski sem deilast á þá sem búa hér. Menn líta svo á að aðkomufólk þynni út velferðina og „störfin“. Menn virðast álíta að eitthvað sé til sem heitir starf sem bíður eftir þeim sem getur „fengið starfið“. En hvað eru mörg „störf“ á Íslandi? Eru þau nákvæmlega 190.000 eins og vinnumarkaðurinn er í dag? Hvað eru mörg störf í Danmörku? 4 milljónir? Hvað eru mörg störf í New York? Hvað eru mörg störf á Raufarhöfn? Þegar helmingur íbúa flutti frá Raufarhöfn, losnuðu ekki mörg hundruð störf? Ætti ekki að vera peningur aflögu til að sinna öldruðum og fötluðum?
Þessi sama ranghugmynd ríkir reyndar í allri umræðu um orkumál og stóriðju. Við leggjum allt undir, náttúru og milljarða til að „skapa“ 100 - 400 störf með harmkvælum - á meðan vinnumarkaðurinn telur 190.000 störf. Við köllum þau „eitthvað annað“ með ákveðinni hæðni í raddbeitingunni.
Það hefur verið mjög sérstakt að fylgjast með samfélagsumræðu síðustu vikurnar á Íslandi. Stundum verður mér hugsað til Viktors Klemperer og bókar hans LTI - eða tungumál þriðja ríkisins - þar sem hann lýsir því hvernig orðið „ofstækisfullur“ varð allt í einu jákvætt í þriðja ríkinu, hvernig smám saman var grafið undan tungumálinu með þeim afleiðingum að venjulegt fólk gat ekki einu sinni orðað hugsanir sínar lengur. Að horfa upp á orðið „góða fólkið“ fara á flug og fljóta um eins og einhvers konar ebóla og bætast við önnur neikvæð orð í huga fólks, „náttúruverndarsinni“ og „eitthvað annað“. Það er sorglegt að sjá fólk hrekjast inn í pólitískt öngstræti og standa upp í andstöðu við náttúruna, sköpunargáfuna og að lokum sjálfan kærleikann.
Athugasemdir