Við könnumst öll við sætar myndir sem fylgja fréttum um mælingar á hamingju, með þeim fylgja kannski myndir af fólki hlægjandi eða að gæða sér á ís en þegar fréttir af hagvexti eða vergri landsframleiðslu eða öðrum sambærilegum mælikvörðum birtast er alvarleikinn allsráðandi. Þegar meta á hvort íslenskt samfélag er að þróast í rétta átt er oftast rætt um mælingar á hagvexti, sem segir til um hlutfallslega aukningu á framleiðslu og neyslu á vörum og þjónustu svokallaðri vergri landsframleiðslu. Þetta eru mikilvægir mælikvarða á efnahagslega framför en síðari ár hefur oft verið vitnað til orða Roberts Kennedy frá 1968 þar sem hann sagði í ræðu sinni að hagvöxtur sem mælikvarði „mælir allt, fyrir utan það sem gerir lífið þess virði að lifa því“. Hagvöxtur er fyrst og fremst mælikvarði á fjárhagslega stöðu þjóðfélags en hann er alveg ónæmur fyrir lífsgæðum eða vellíðan fólks. Við hver kaup á pilluglasi, hvern hjónaskilnað eða hvert skipti sem tveir bílar rekast á eykst hagvöxtur þar sem það leiðir til viðskipta. Meðan hagvöxtur hefur margfaldast síðustu áratugi hefur tíðni kvíða og þunglyndis aukist og traust okkar á samfélaginu og samkennd minnkað. Vellíðan er mikils virði fyrir bæði einstaklinga og samfélag, ekki bara af því að hún minnkar líkur á vandamálum eða heilsubresti í nútíð eða framtíð heldur er það að fólk upplifi vellíðan hér og nú mikils virði.
„Meðan hagvöxtur hefur margfaldast síðustu áratugi hefur tíðni kvíða og þunglyndis aukist og traust okkar á samfélaginu og samkennd minnkað.“
Þekking á hvað fær fólk til að upplifa hamingju og vellíðan hefur aukist síðustu ár og rannsóknir hafa sýnt að hægt er að mæla vellíðan með ábyggilegum hætti, bæði tilfinningar og virkni fólks. Þessar mælingar eru að skila upplýsingum sem ekki fást með öðrum hætti og eru því mikilvægir mælikvarðar fyrir þjóðir til að meta hvort samfélag er að þróast í rétta átt. OECD, Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóða heilbrigðismálastofnunin og fleiri veita hamingju og vellíðunarmælingum aukna athygli og þjóðir eins og Bretland og Frakkland átta sig á að þarna er kominn fram mælikvarði á árangur sem vert er að gefa gaum. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur lagt áherslu á að hamingja er enginn munaður heldur djústæð þrá alls mannkyns og hana þarf að taka alvarlega. Það er sameiginlegt markmið allra samfélaga að fólk sem „býr í því félagi saman“ líði vel. Rannsóknir hafa sýnt að hamingjusamir lifa lengur, eru heilsuhraustari, virkari þjóðfélagsþegnar, í betri hjónaböndum og eru síður frá vinnu vegna veikinda. Það er þar af leiðandi þjóðfélagslega hagkvæmt að sem flestir séu hamingjusamir auk þess sem það hefur góð efnahagsleg áhrif á bæði atvinnulífið og hið opinbera.
Ein af grunnstoðum hamingju í samfélagi er jöfnuður og að fólk upplifi að það tilheyri samfélagi og að þeirra framlag til samfélagsins skipti máli. Einstaklingar sem búa í samfélagi sem einkennist af samkennd og samvinnu eru líklegri til að upplifa vellíðan. Jöfnuður í tekjudreifingu, efnahagslegri stöðu, menntun og heilsufari segja mikið um árangur stjórnvalda til að skapa umhverfi þar sem fólk upplifir vellíðan en umhverfi og samfélagsgerð skipta þar einna mestu máli. Í skýrslu sem kallast „Heims-hamingjuskýrslan 2016“ kemur fram að ef mikill munur er á vellíðan fólks innan samfélags hafi það slæm áhrif á alla sem í því samfélagi lifa. Það er því allra hagur að unnið sé að því að eyða atvinnuleysi, vinna að því að allir nái endum saman og upplifi náin tengsl við aðra, þetta er ekki bara mikilvægt fyrir þá sem annars upplifðu minni vellíðan heldur alla.
Auðvitað þarf rekstur að vera sjálfbær en það þarf samfélagið líka að vera í félagslegum og hnattrænum skilningi. Við viljum ekki nota meira fé en við öflum, nýta auðæfi jarðar meira en hún getur endurnýjað og ekki viljum við skapa þannig samfélag að fólk upplifi minni vellíðan eða verri heilsu enda er slíkt samfélag ekki sjálfbært til lengri tíma. Hagvöxtur hefur lengi verið aðalmælikvarði á hve vel samfélögum gengur en kannski ættum við frekar að tala um vellíðunarvöxt sem mikilvægan mælikvarða, við ættum í það minnsta að tala um það líka. Til hvers ættum við að vilja auka framleiðslu og kaupgleði fólks ef það veitir þeim ekki hamingju?
Athugasemdir