Allt frá lýðveldisstofnun hefur helsta aðalsmerki íslensks samfélags verið síaukin menntun. Menntakerfi rekið af samfélaginu þar sem allir landsmenn hefðu jafnan aðgang að. Aðalsmerkið var að úr röðum hinna fátækustu komu iðulega hinir hæfustu. Hið fámenna samfélag Íslands hefði ekki efni á því að útiloka þann hluta þjóðarinnar frá tækifærunum sem skólaganga skapaði. Þetta átti ekki einungis við tap viðkomandi einstaklings heldur var það hið íslenska samfélag sem tapaði mestu. Með aukinni menntun allrar þjóðarinnar myndi okkur takast að komast upp úr þeirri stöðu að vera á meðal fátækustu þjóða Evrópu. Við lögðum þar af leiðandi áherslu á að byggja upp öflugt skólakerfi fyrir alla. Þar var stoðum rennt undir eflingu atvinnulífsins og þannig myndi okkur takast að koma Íslandi í efstu röð evrópskra samfélaga.
En við höfum hins vegar undanfarin ár verið að átta okkur á því að það eru ákaflega mikil líkindi með Íslandi og vanþróuðum ríkjum sem eiga auðlindir. Þegar land á mikið af náttúrulegum gæðum birtast ávallt hópar sem beita öllum brögðum til að koma sér vel fyrir við útdeilingu arðsins af auðlindum landsins. Þjóðinni er síðan talin trú um að þessir aðilar beiti sér við að auka gæði stjórnsýslu og stjórnunar. Niðurstaða verður síðan ávallt sú að þeir telja sig hreinlega ekki hafa efni á því að sólunda verðmætum og auðlindum til annarra og allra síst samfélagslegra þátta. Undanfarin misseri hafa ráðandi stjórnmálamenn beitt sér í vaxandi mæli fyrir því að arðurinn af auðlindum Íslands renni í minnkandi mæli til samfélagsins og nýtist þannig ekki til frekari uppbyggingar á innviðum landsins, aukinnar menntunar, eflingar hugvits og aukinnar framleiðni.
Vaxandi þjóðarauður skapaði miklar freistingar og í kjölfar þess hefur þróast mikil óstjórn. Það er þarna sem spillingin sprettur upp. Nú er svo komið að við stjórnvölinn er fólk sem gætir annarlegra hagsmuna og víkur til hliðar þeirri samfélagsgerð sem við vildum beita okkur fyrir. Kerfið sem þessum hópi tókst að búa til er sniðið fyrir þá sem eiga mikla peninga og þeir vilja enn meiri peninga. Svona stjórnsýsla einkennir oft lönd sem eiga miklar náttúruauðlindir. Sumum auðlindaríkum löndum hefur tekist að komast að rótum þessarar spillingar eins og til dæmis hinum Norðurlöndunum og hafa stjórn á því hverjir fá aðgang, hverjir fá nýtinguna, hvert arðurinn fer og hver fær að koma sér fyrir á réttum stöðum til að hafa arð af landinu eða sjónum umfram hina.
Réttur til náms varanleg eign
Í alþjóðlegum skýrslum hefur undanfarið komið fram að menntastig fólks á íslenskum vinnumarkaði sé mun lakara en í þeim löndum, sem við viljum helst bera okkur saman við. Íslendingar eru aldir upp í samfélagi þar sem langur vinnudagur og vinnuharka hefur til skamms tíma verið talið manndómsmerki eða jafnvel dyggð og þá um leið forsenda efnalegrar velmegunar.
Í dag er svo komið að íslenskum námsmönnum er gert að greiða svimandi há námsgjöld. Tökum sem dæmi Háskóla Íslands þar sem námsmönnum er gert að greiða tæpan milljarð í námsgjöld, en einungis fjórðungur af þessum fjármunum rennur hins vegar til skólans. Sama á við um skatta af umferðinni. Beinir og óbeinir skattar af lífeyrisþegum nema í dag hærri upphæð en þeirri sem rennur úr ríkissjóði í lífeyri og rekstur hjúkrunarheimila og þannig mætti lengi telja. Þeir sem hafa komið sér fyrir við útdeilingu arðsins af auðlindum Íslands hafa hafnað þátttöku í rekstri samfélagsins og þeir hafa sett þingmenn sína í að finna aðrar leiðir til þess að fjármagna ríkissjóð.
Síðasta ríkisstjórn ákvað að stytta framhaldsskólanám um eitt ár og framhaldsskólunum lofað að sparnaðurinn yrði allur nýttur til þess að styrkja stöðu skólanna. Fyrir liggur að þessi breyting mun auka útgjöld skólanna á nemanda um 3-5% á ári að raunvirði vegna fækkunar nemenda. Í nýafgreiddri fjármálaáætlun ríkisins er þetta loforð svikið og 630 milljónum af sparnaðinum látinn renna í annan rekstur ríkisins. Haustið 2014 ákvað þáverandi ríkisstjórn að hætta að borga fyrir bóknám 25 ára og eldri nemenda í framhaldsskólum landsins. Þarna var um að ræða verulega stefnubreytingu í menntamálum. Það að kippa hreinlega burt einum hópi nemenda með ákvörðun í fjárlögum um að fækka nemendum í framhaldsskólum og hætta að greiða fyrir bóknám þeirra sem náð hafa 25 ára aldri er sérstök pólitísk ákvörðun. Þessi ákvörðun var því grundvallarstefnubreyting í þá átt að loka íslensku menntakerfi, draga úr hlutverki framhaldsskólanna og torvelda eldri nemendum að sækja sér menntun og þau tækifæri sem henni fylgja. Afleiðingar þessarar pólitísku ákvörðunar urðu þær að á milli áranna 2014 og 2015 fækkaði nemendum 25 ára og eldri um 742 í framhaldsskólum landsins. Þar af fækkaði bóknámsnemendum um 447 og verknámsnemendum um 295.
„Ef Íslendingur hverfur, af einhverjum ástæðum, úr framhaldsskólanámi en vill ljúka því síðar á ævinni, er honum gert að greiða svimandi há námsgjöld.“
Á hinum Norðurlöndunum er rétturinn til þess að ljúka framhaldskólanámi á kostnað skattborgaranna talin varanleg eign einstaklingsins, andstætt því sem nú tíðkast hér á landi. Ef Íslendingur hverfur, af einhverjum ástæðum, úr framhaldsskólanámi en vill ljúka því síðar á ævinni, er honum gert að greiða svimandi há námsgjöld. Á hinum Norðurlöndunum hefur málum hins vegar verið komið þannig fyrir að þar á þjóðfélagsþegninn rétt á að ljúka náminu án þess að þurfa að greiða fyrir það og á að auki rétt til námslána. Þar er framhaldskólanám viðurkennt sem eign hvers þjóðfélagsþegns og sama hvenær á lífsleiðinni hann nýtir þessa eign sína. Á hinum Norðurlöndunum er símenntun viðurkennd sem þjóðfélagsleg nauðsyn ef halda eigi vinnumarkaði viðkomandi lands samkeppnishæfu gagnvart hratt vaxandi framboði á tæknifólki á vinnumörkuðum austurlanda fjær.
Allir eiga skilyrðislausan rétt á að nýta sér annað tækifæri til náms og ljúka grunn- eða framhaldsskólanámi. Tryggja verður fullorðnum einstaklingum, sem hafa af einhverjum ástæðum flosnað upp úr námi, rétt til að ljúka námi við hæfi á framhaldsskólastigi og möguleika til að ljúka viðurkenndu einingabæru námi sem tryggi rétt til áframhaldandi náms á háskólastigi eða öðru sambærilegu framhalds- eða meistaranámi í viðkomandi grein.
Símenntun, nám er vinnandi vegur
Mikilvægt er að hvetja fólk til þátttöku í fullorðinsfræðslu með því að auka sýnilegan ávinning af námi. Einnig er mikilvægt að hindrunum sé rutt úr vegi og að reynsla einstaklinga úr atvinnulífinu sé metin þegar þeir vilja bæta við sig formlegu námi. Með markvissu mati á raunfærni einstaklinga má stytta námstíma og draga þannig úr kennslukostnaði. Tryggja þarf að viðurkenning á raunfærni sé bæði trúverðug og gegnsæ.
Efnahagshrunið hrakti marga úr atvinnulífinu og það voru fjölmargir sem gripu til þess ráðs að nýta tækifærið til að ljúka námi á framhaldsskólastigi og komu síðar öflugri út á vinnumarkaðinn. Strax daginn eftir hrunið tóku aðilar vinnumarkaðarins höndum saman um að stórefla starfsmenntun í atvinnulífinu. Í því starfi kom berlega í ljós að skólarnir þjónuðu fólki á öllum aldri og skipti þetta verkefni sköpum fyrir marga. Það er hreint út sagt stórfurðulegt viðbragð stjórnmálamanna að loka skólunum fyrir eldri nemendum, sama frá hvaða sjónarhorni það mál er skoðað. Haldbær rök fyrir þeirri ákvörðun hafa hvergi komið fram eða mat á áhrifum, svo sem á menntunarstigi þjóðarinnar eða á möguleikum einstaklinga á að bæta stöðu sína með aðgengi að námi á framhaldsskólastigi.
Athugasemdir