Þótt hvergi í heiminum séu fleiri sjóræningjar en í Sómalíu trúi ég því staðfastlega að engin þjóð sé verri heldur en önnur. Heldur ekki betri. Við erum einfaldlega misheppin frá sögulegu sjónarhorni séð. Í tilviki Sómalíu leiddi langvarandi borgarastyrjöld til þess að vopnaeign almennings varð mikil. Þegar stríðinu slotaði kom í ljós að alþjóðleg fyrirtæki höfðu nýtt skort á ríkisvaldi til að kasta óhreinum úrgangi í hafið, og erlend fiskifyritæki höfðu veitt upp allan þann fisk sem úrgangurinn náði ekki að drepa. Einu atvinnutækifærin sem fyrrverandi sjómenn höfðu að lokinni borgarastyrjöld var að ráðast á verslunarskip á Indlandshafi.
Fyrir tveimur árum síðan þegar ég var á Grikklandi að skrifa skáldsögu undir sítrónutré rakst ég á Helenu. Helena var nágranni minn og samstarfsfélaga míns, hún var miðaldra kona sem sat undir sama sítrónutré og reykti nokkrum sinnum á dag, hún hafði rekið veisluþjónustu en var nú atvinnulaus. Helena hafði tilhneigingu til að kvarta við mig.
„Ég er atvinnulaus og þeir ætlast til að ég greiði fasteignagjöld. Pældu í því.“
„Það er hrikalegt,“ svaraði ég kurteisislega. Var samt meira að velta fyrir mér galdranorninni Kymros, óþokkanum Hetíon og risanum Tenok heldur en fasteignagjöldum Helenu. „Er það dýrt?“
„Nei,“ játaði Helena og bætti skömmustulega við: „En ég á bara svo mörg hús.“
Áður en við förum að áfellast Grikki fyrir þá krísu sem þeir lentu í árið 2008 verðum við að skilja hvernig stendur á því að atvinnulaus og ómenntuð kona geti átt fleiri fleiri íbúðir. Þegar ég spurði Helenu nánar út í það kom í ljós að hún hafði erft tvær fasteignir frá foreldrum sínum, hinar tvær frá einstæðum frænkum og frændum.
„Hvernig stendur á því að allir Grikkir eiga fleiri en eina íbúð?“ spurði ég Pantelis, leigusala minn í Aþenu sama kvöld.
„Sko, drakmað Snæbjörn,“ svaraði Pantelis sem var á eftirlaunaaldri. Íbúðin sem ég leigði af honum var í raun í eigu tengdamóður hans líkt og öll blokkin sem Pantelis uppnefndi langömmu Períklesar. (Ég hafði stundum á tilfinningunni að honum finndist hún óþarflega heimtufrek að hafa lifað svona lengi).
„Við gátum ekki sparað í drökmu. Gengið féll og féll svo aftur. Þannig að sparnaðurinn, púff, gufaði upp. Við gátum ekki annað en keypt íbúðir, lóðir, sumarhús. Í stað þess að setja inn á bankareikning urðum við að kaupa eitthvað. Hugmyndin var að við myndum selja húsin og lifa af því í ellinni.“
„Líkt og Íslendingar eru Grikkir Evrópumeistarar í skattsvindli.“
Líkt og Íslendingar eru Grikkir Evrópumeistarar í skattsvindli. Þetta er ekki fátæk þjóð, eitt stærsta skipaflutningafyrirtæki heimsins er grískt, þetta er þjóðin sem gat af sér Onassis sem giftist ekkju John F. Kennedy. En peningarnir skila sér ekki heim, þeir eru geymdir í aflandsfélögum, kannski á nágrannaeyjunni Kýpur, kannski einhvers staðar í Karabíska hafinu.
„Ég væri til í að selja íbúðirnar,“ sagði Helena næsta dag. „En ég finn ekki einu sinni leigjendur. Þú myndir kannski vilja leigja af mér, ég á hús í Píreus ekki langt frá góðum veitingastöðum.“
Ég sagðist ætla að hugsa málið.
Í dag er Grikkland komið með evru. En gamlir siðir deyja hægt. Til að komast undan því að greiða fasteignagjöld stinga sumir járnrörum í þakið og þykjast ætla að byggja nýja hæð (ekki þarf að greiða fullt gjald fyrir óklárað hús). Ég hugsa að spillingin á Grikklandi sé smám saman á undanhaldi, gríska þjóðin hefur fundið fyrir henni á eigin skinni of oft, þótt vel megi vera að önnur mál séu meira aðkallandi. (Eins og hvernig taka eigi á móti sýrlenskum flóttamönnum).
Við mótumst af aðstæðunum í kringum okkur. Ef Grikkland er spillt þá er það ekki af því Grikkir hata land sitt, það gera þeir ekki frekar en Íslendingar. Báðar þjóðir eru óhemju stoltar af glæstri klassískri fortíð, þótt þær skammist sín fyrir niðurlægingu síðari tíma. Ef Grikkir greiða ekki skatt þá er það út af langvarandi kerfisvillu sem refsar heiðarleika en hvetur til undanskota. Rétt eins og íbúar Singapore nota ekki aðstöðu sína nærri skipaumferð heimsins til að stunda sjórán, en Sómalir gera það, liggur hundurinn grafinn í sögunni og aðstæðum fólks. Hvað skyldi vera vandamálið?
P.S. Það er ekki skattprósentan. Ef það væri skattprósentan væru Ísland og Grikkland ekki með fleiri undanskot heldur en Noregur og Danmörk. Giskið aftur.
Athugasemdir