Forðum var það þröstur minn góður með sinn ólýsanlega fagra söng og svo auðvitað lóan sem færir okkur sumar og dýrðina; svanurinn sem er tákn hugarflugs og þrár í íslenskum hugmyndaheimi eða fálkinn sem íhaldið reyndi að gera að einkennisfugli okkar; snjótittlingurinn/sólskríkjan sem er tákn fyrir það að hinn veikasti lifir af alla storma. Og svo framvegis. Íslendingar hafa hins vegar alltaf brosað að lundanum með sitt spaugilega nef og klunnalega flugtak, kallað hann „prófastinn“ í háðungarskyni. En nú er hann allt í einu orðinn tákn lands og þjóðar. Af því að hann selst.
Það er mikilvægt að fá hingað gesti, alls konar gesti, frábært að sjá alla þessa uppbyggingu kringum þann gestagang; kaffihúsin, hönnunina, lífsgleðina, mannlífið á götunum – orkan breytist í loftinu og verður jákvæðari þegar aðkomufólk stiklar um stræti og torg. Við hættum að rífast í smástund – þessi disfúnksjónala fjölskylda sem við Íslendingar erum, síkjósandi yfir okkur einhvern delerandi þjóðarpabba – við setum upp sparisvipinn gagnvart gestunum, örlar kannski á gestalátum í okkur en allt innan hóflegra marka. Gestirnir hjálpa okkur líka að sjá okkur sjálf með augum hinna aðvífandi: við förum jafnvel að meta það sem merkilegt er hér og gott og sérstakt og líka hitt, sem eru álappalegir tilburðir í próvinsunni til að sýnast hipp.
„Við höfum gert lundann að þjóðfugli okkar, þegjandi og hljóðalaust. Fugl sem táknar ekkert sérstakt í íslenskum hugarheimi annað en spjátrungshátt.“
En samt. Við höfum gert lundann að þjóðfugli okkar, þegjandi og hljóðalaust. Fugl sem táknar ekkert sérstakt í íslenskum hugarheimi annað en spjátrungshátt. Kannski er það allt í lagi: hann er soldið spaugilegur – dálítið eins og „lífskúnstner utan af landi með hatt“ – en gallinn er kannski sá að hann er orðinn þetta megintákn af því að Englendingar eru spenntir fyrir honum og við skynjum að við getum selt þeim myndir af honum og göngum á lagið. Þetta er hættan við túrisma: hin tómu tákn blása út og skyggja á hitt sem er satt og rótfast og smátt; eins og lúpínan eyðir fjallagróðrinum. Við lifum okkur inn í að vera eitthvað sem við erum ekki í rauninni. Við förum að leika Íslendinga; leikum okkur; göngum inn í einhverja einhlíta hugmynd um Íslendinga sem við höldum að falli í kramið – sé hægt að markaðssetja. Við förum smám saman að vinna við að leika Íslendinga samkvæmt fastmótuðum formúlum og „rofið milli veruleika og skynjunar“ verður þá kannski æ erfiðara að búa við. Og við endum eins og náunginn í 66° norður auglýsingunum áður en hann hvarf endanlega: þessi sem byrjaði á því að vera skeggjaður og endaði sem geggjaður. Maður hefur ekki séð hann lengi. Hann var alltaf einn að rolast í einhverju lokuðu rými, gott ef ekki helli, og eftir því sem auglýsingunum fjölgaði fór að koma á hann sífellt ískyggilegri svipur og tilfinning manns jókst um það að eitthvað hræðilegt væri í þann veginn að fara að gerast; hann varð sífellt meira eins og klikkaður einbúi. Það var eins og honum liði sífellt verr í þessu þrönga gervi „Íslendingsins“. Í lokin var hann orðinn eins og fyrsti íslenski ferðaþjónustubóndinn, Axlar-Björn …
Túristar eru ekki makríll, ekki veiðistofn. Þetta er fólk og því fylgir ýmislegt og alls konar, ánægjulegt og hvimleitt, eins og gengur. Það hefur áhrif á okkur, jákvæð og neikvæð eftir atvikum, en æskilegt væri ef við létum nálægðina við þá ekki breyta okkur öllum í lunda.
Athugasemdir