Fyrir einu og hálfu ári síðan sat ég á klósettinu heima hjá mömmu og pabba þegar ég fékk skilaboð á Facebook frá Sóleyju Stefánsdóttur þar sem hún bauð mér að vinna með sér að næstu plötu og ferðast með henni um heiminn að spila hana. Ég réði mér ekki fyrir kæti. Ein mín helsta fyrirmynd var að bjóða mér að vera með í hljómsveitininni sinni! Mig langaði að hringja í alla vini mína og monta mig, en var svo hrædd um að þetta væri einhver misskilningur að ég sagði næstum því engum frá þessu.
Fjórum árum áður hafði ég verið í matarboði með poppstjörnum sem voru að skiptast á bransasögum. Það var augljóst að þetta fólk hafði upplifað rokkstjörnulíferni. Umræðuefnið var meðal annars hvar besti bensínstöðvamatur í Evrópu væri. Allt frá þeim degi þráði ég ekkert heitar en að keyra um Evrópu í góðra vina hópi á litlum sendiferðabíl stútfullum af hljóðfærum og borða á bensínstöðvum. Fimm árum seinna er ég nú stödd í Linz í Austurríki eftir þriggja vikna tónleikaferðalag með Sóleyju og félögum. Ég hef fengið allt sem ég óskaði mér, þótt við höfum reyndar aldrei borðað á bensínstöð. Þessi pistill er tilraun mín til að lýsa því hvernig það er að vera á tónleikaferðalagi fyrir litlu mig sem þráði ekkert heitar.
„Þegar maður býr í rútu og ver öllum vöku- og svefnstundum með sama fólkinu þá kemst maður ekki hjá því að verða nokkuð náin. Það er ekki hægt að fela neitt.“
Nánd: Þegar maður býr í rútu og ver öllum vöku- og svefnstundum með sama fólkinu þá kemst maður ekki hjá því að verða nokkuð náin. Það er ekki hægt að fela neitt. Ferðafélagar mínir sem ég þekkti kannski ekkert sérstaklega vel áður en við lögðum af stað eru nú þegar búnir að sjá mig gráta oftar en flestir fjölskyldumeðlimir mínir. Auk þess er ég er viss um að þeir gætu gefið nákvæma læknaskýrslu um alla mína líkamlegu kvilla, allt frá ofnæmi til tannskemmda, ef þeir væru beðnir um það. Á móti kemur að ég veit allt um æviskeið hunda þeirra, hversu viðkvæmir þeir eru fyrir sólbruna og hvar þeim vex, eða vex ekki hár á ólíklegustu stöðum. Ef eitthvað kemur upp á er ekki hægt að leyna því, en á móti kemur að maður nýtur stuðnings frá heilum hópi af fólki ef maður þarf á því að halda.
Einkahúmor: Strax á fyrstu dögunum fer að myndast einkahúmor sem vitnað verður í næstu dagana og vikurnar. Í okkar tilviki byggist þessi einkahúmor aðallega á stríðni og að spila íslenska tónlist frá níunda og tíunda áratugnum sem er á mörkum þess að vera mjög hallærisleg og mjög kúl. Stundum smitast þessi stríðni inn á svið, eins og til dæmis þegar Sóley laug því opinberlega á tónleikum að hennar lið hefði unnið sögulegan fótboltaleik í Varsjá. Þegar ég reyndi að leiðrétta þennan misskilning brá Frikki hljóðmaður (sem var í liði með Sóleyju) á það ráð að slökkva á míkrafóninum mínum og koma þannig í veg fyrir að sannleikurinn liti dagsins ljós ... Þar til nú. Ha ha ha ha ha!
Lykt: Hvert einasta prump sem lekur útúr afturenda þínum mun rata inn um nasir einhvers annars – og öfugt. Það má ekki kúka í klósettið í rútunni, en það angar þó af þvagi sem blandast lyktinni úr þvölum handarkrikum og sveittum strigaskóm. Það er engin sturta í rútunni þannig að maður sturtar sig í mis huggulegum sturtum baksviðs á tónleikastað og skiptist á að kúka. Eftir nokkrar vikur er táfýlan af okkur orðin svo óbærileg að við gerum okkur sérstaka ferð í apótek til að kaupa sprey sem eyðir henni.
Að tilheyra hópi: Fólk gegnir mismunandi hlutverkum innan hópsins. Ekki bara faglega, heldur líka félagslega. Ef einhver er í fýlu þá setur Albert á hresst Stuðmannalag og stríðir viðkomandi þar til hann fer að hlæja og hættir að vera í fýlu, Jón Óskar segir okkur helstu fréttir af Arsenal og ég finn upp á leikjum til að fara í á meðan við bíðum eftir matnum okkar á veitingastöðum, svo fáein dæmi séu tekin.
Rútína: Það er bæði rútína og skortur á henni á tónleikaferðalagi. Dagurinn byrjar yfirleitt á því að við vöknum um tvöleytið, rótum dótinu okkar inn á svið, stillum upp, gerum hljóðprufu, borðum, spilum tónleika, fáum okkur bjór í rútunni og förum annaðhvort á trúnó eða horfum á unglingadrama frá níunda áratugnum þangað til við förum að sofa um þrjúleytið á meðan Franke, rútubílstjórinn, keyrir okkur inn í næstu borg. Maður kynnist ekki beint borgunum sem maður kemur til, en maður kynnist Rútulandi ansi vel.
Líf í bubblu: Nú eru aðeins þrír dagar eftir af þessu ferðalagi og svo tekur hversdagsleikinn við. Það verður skrítið að fara aftur inn í raunveruleikann. Að vakna á morgnana og fara að sofa á kvöldin. Að tala við fólk sem skilur ekki einkahúmorinn, elda sinn eigin mat, vera ein. Það verður vissulega gott að koma heim, en ég er strax farin að hlakka til næsta tónleikaferðalags.
Athugasemdir