Ég spurði 7 ára gamlan son minn hvað hann myndi skrifa um ef hann fengi lánað gjallarhornið eina stund og mætti skrifa pistil í Stundina. Hann svaraði að hann myndi vilja skrifa um að það yrði skemmtilegra ef börn stýrðu samfélaginu en ekki fullorðnir! Það væri til dæmis ósanngjarnt að hann fengi ekki sleikjó í morgunmat! Brosti svo stríðnislega.
Stráksi fór út í garð að leika, dagur var lengstur og bjartastur. Ég horfði á eftir honum, velti fyrir mér hvort hagsmunum hans væri best borgið í Íslandi framtíðarinnar. Nokkrum dögum áður hafði erlent vinafólk okkar, sem býr í San Fransisco, mært upprisu Íslands eftir hrunið, hrósað matnum hérna, náttúrunni, talað um hve almenningur væri vel upplýstur. Það var pínu eins og að hlusta á Sigmund Davíð mæra kosti hinnar norrænu þjóðar. Eitt andartak hvarflaði að mér ég væri stundum vanþakklátur.
En talið við hina erlendu gesti okkar hafði einnig borist út á pólitískar brautir. Þeir ræddu hvernig korporisminn væri búinn að kaupa upp pólitíska fulltrúa í þeirra eigin landi. Sögðust hafa á tilfinningunni að Ísland væri ekki eins spillt og Bandaríkin. Þeim megin snerist allt um sérhagsmuni hinna ríku, almannahagsmunir yrðu undir.
„Er ekki rétt að þið hafið komið spilltum bankastjórum í fangelsi? Er ekki rétt að fyrrum forsætisráðherra hrunstjórnarinnar hafi verið sakfelldur fyrir að gegna ekki skyldu sinni í aðdraganda hrunsins?“ Spurðu erlendu gestirnir.
„Jú,“ svaraði ég. „Það er satt.“ Þá kom þessi spurning: „En hvað gerir fyrrum forsætisráðherra ykkar núna, sá sem var sakfelldur fyrir gáleysið?“
„Dæmdir sakamenn eru verðlaunaðir með æðstu embættum á sama tíma og þeir sem standa utan kjötkatlanna og innmúruðu klíkubandanna geta hreinlega farið norður og niður.“
„Uuuu. Hann er sendiherra Íslands í ykkar ríki núna,“ svaraði ég. Við skelltum upp úr en hættum svo að hlæja. „Þetta er auðvitað ekki fyndið,“ sögðu þau, sem var hárrétt. Þá rifjaðist upp fyrir mér hvers vegna svo margir vina minna tala um að þrátt fyrir fjárhagslegt sjálfstæði, þrátt fyrir íslensku náttúruna, fjölskylduna, vinnusemina og vinina, fýsir þá marga að flýja þetta sker og koma aldrei til baka. Auðvaldið beggja megin Atlantshafsála kann að hafa keypt upp pólitíkusana en það er vandséð að hvorki hin gamla Evrópa né hinn nýi heimur vestra, sem byggir afkomu sína á pólitískum trúnaði við almenning, hefðu gerst sek um sömu ósvífni og utanríkisráðherrann okkar íslenski, að verðlauna dæmdan sakamann með æðstu trúnaðarstörfum í Washington. Hugmyndin yrði varla handritstæk í House of Cards. Við mörlandarnir stöndum því ekki bara frammi fyrir spurningunni hvort auðvaldið sé búið að kaupa upp lánleysingjana í gömlu valdaflokkunum hér á landi heldur hefur ósvífnin reynst slík þegar kemur að verðleikum og andverðleikum að dæmdir sakamenn eru verðlaunaðir með æðstu embættum á sama tíma og þeir sem standa utan kjötkatlanna og innmúruðu klíkubandanna geta hreinlega farið norður og niður eða í öllu falli bara beðið eftir næstu ríkisstjórn.
Sá sjö ára kom nú inn úr garðinum, hafði meitt sig. Hann kenndi trampólíninu um meiddið en ekki sjálfum sér, mér varð hugsað til forsætisráðherra, mannsins sem skammar eigið trampólín, eigin þjóð, fyrir að vera firrt og geðveik að sjá ekki öll geðveiku kraftaverkin hans.
Kannski hefur draumur sjö ára sonar míns ræst nú þegar? Kannski er enginn hafragrautur lengur á morgunborði stjórnarstrákanna okkar heldur bara hlaðborð af sleikjóum í skiptum fyrir almannahagsmuni.
Athugasemdir