Ég sit í fundarherbergi í Kaupmannahöfn, nýbúinn að taka Metróið frá flugvellinum og beint á fundarstaðinn. Ég gekk beint út af flugvellinum, inn í lestina og 10–15 mínútum síðar var ég kominn í miðbæinn og á fund. Allt svo einfalt og þægilegt.
Svona gæti þetta líka verið á Íslandi. Lest sem gengur fyrir okkar eigin rafmagni og gengur endalaust með nokkurra mínútna millibili sjálfvirkt á milli Keflavíkur og Lækjartorgs eða Hlemms. Örfá stopp á leiðinni svo lestin nýttist líka þeim sem ferðast á milli Hafnarfjarðar, Smáralindar, Kringlunnar og miðbæjarins. Þetta liggur allt svo beint við. En hvað kostar þetta? Er þetta ekki nokkurra milljarða fjárfesting? Jú, þetta kostar helling. En það kostar líka helling að vera með tvo flugvelli. Einn í miðborginni og einn í Keflavík. Fyrir utan verðmætin í landsvæðinu sem Reykjavíkurflugvöllur er á.
Ef við leggjum niður Reykjavíkurflugvöll og notum fjármunina í staðinn til að koma upp slíku lestarkerfi þá ættum við hugsanlega að standa um það bil á sléttu samkvæmt mati einhverra sérfræðinga. Þeir sem ferðast innanlands yrðu aðeins lengur en í dag. Myndi muna um það bil 10–15 mínútum, færi eftir því hvert í Reykjavík þeir væru að fara. Gætu meira að segja í sumum tilfellum verið fljótari. Við fengjum skemmtilega byggð í vesturhluta borgarinnar sem myndi jafna umferðarálag sem nú er frá austri til vesturs á morgnana og frá vestri til austurs seinnipartinn. Umferðaræðarnar eru því vannýttar í gagnstæða átt á sama tíma.
„Þeir sem færu með innanlandsflugi hefðu líka lestina og myndu enda í miðbænum en ekki á flugvelli í Skerjafirði.“
Þeir sem færu með innanlandsflugi hefðu líka lestina og myndu enda í miðbænum en ekki á flugvelli í Skerjafirði. Þaðan þarf fólk í dag að koma sér sjálft í miðbæinn með takmörkuðum eða engum almenningssamgöngum. Álag á Keflavíkurveg myndi minnka verulega og þægindi fyrir ferðamenn einnig. Flugvöllinn í Keflavík er nú þegar verið að stækka svo best væri að gera ráð fyrir þessu í leiðinni.
Þetta virðist allt svo rakið dæmi en samt er fólk enn að rífast um þessa hluti. Þarna græða allir nema sjúkraflugið. En er það? Munar það svo miklu? Er þetta ekki bara spurning um lausn á því? Væri ekki bara hægt að nota sama kerfið fyrir það og útbúa einn vagn sem tæki við slíkum verkefnum? Með útbúnaði og aðstöðu sem færi sömu leið í slíkum tilfellum? Fyrir mér lítur þetta bara út fyrir að vera verkefni til að leysa. Það er allavega mjög spennandi kostur að auka sjálfbærni okkar í orku á sama tíma og við aukum þægindi fyrir 99% þeirra sem fara um flugvelli landsins. Til viðbótar fengi mikið af fólki mun betra samgöngukerfi sem tengdi betur saman hin ýmsu svæði á Reykjanesinu. Til dæmis væri loks hægt að byggja upp hverfið fyrir flugsækin viðskipti á Ásbrú sem gerði ráð fyrir starfsfólki af öllu Reykjanesinu.
Miðbær Hafnarfjarðar er til dæmis að verða hin skemmtilegasti bóhem miðbær. Þar verður líklega mikil fjölgun næstu árin. 201 Kópavogur, nýi miðbærinn í kringum Smáralind, á líka eftir að stækka mikið og íbúum að fjölga verulega á næstu árum. Það er því mikilvægt að hugsa nýjar leiðir til að koma öllu þessu fólki á milli á betri og umhverfisvænni hátt. Ungt fólk mun ekki geta búið í miðbæ Reykjavíkur héðan af frekar en í öðrum borgum þar sem ferðamennska er vinsæl. Verðmæti íbúða í miðbænum á bara eftir að hækka og vera því eingöngu fyrir mjög efnað fólk og ferðafólk. Við þurfum að koma unga fólkinu á hagkvæman hátt á milli staða með aðferðum sem áhugavert er að nota.
Frábærar samgöngur um allt Reykjanesið með þessum hætti er framtíðarmynd sem gaman væri að yrði að veruleika. Það ætti ekki að vera of langt í það. Erum við til í það?
Athugasemdir