Ég hef upp á síðkastið áttað mig á því að ef álit fólks á mér er ólíkt upplifun minni af mér þá truflar það mig. Jafnvel þegar ég finn fyrir því að fólk ber virðingu fyrir mér, hrósar verkum mínum eða sýnir mér velvild á einhvern hátt á ég oft erfitt með það.
Mér fannst þetta áhugavert og fór því að skoða hvað það væri í mér sem gerði það að verkum að ef fólk hefði jákvætt álit á mér eða því sem ég gerði gæti ég ekki tekið því. Smám saman rann ástæðan upp fyrir mér.
Á unglingsárunum átti ég erfitt með mig. Glímdi við þunglyndi, drakk of mikið, gekk illa í námi, reykti of mikið hass, óheiðarlegur, óábyrgur og almennt var ekki besta mögulega útgáfan af sjálfum mér. Það er flókið að vera unglingur. Mjög brothætt ástand þar sem fullorðinn einstaklingur er að verða til úr ábyrgðarlausu og krumpuðu barni. Það ferli gekk ekki smurt fyrir sig.
„Jafnvel þegar ég veit að mér hefur tekist eitthvað vel upp þá finnst mér það bara tilviljun og heppni að aulinn ég hafi getað gert eitthvað gott og sniðugt.“
Til þess að sættast við það hvernig ég hegðaði mér á þessum tíma lagaðist sjálfsmynd mín að atferli mínu. Hugur og hönd vildu vera í takt. Og ég var kjáni. Akkúrat þegar ég var að verða fullorðinn. Þessi upplifun er eitthvað sem gleymdist alfarið að uppfæra.
Nú eru 15 ár liðin frá því þessi persónusköpun hófst. Þegar ég fæ hrós kemur upp lítil rödd í mér sem segir: „Þetta er nú bara vitleysa, þú ert lítill stóner lúði. Tossi og trúður.“ Jafnvel þegar ég veit að mér hefur tekist eitthvað vel upp þá finnst mér það bara tilviljun og heppni að aulinn ég hafi getað gert eitthvað gott og sniðugt. Þessa sjálfsmynd hef ég svo burðast með öll mín fullorðinsár. Og nú er komið að því að skapa sér nýja.
Athugasemdir