Tími ljóss og friðar er genginn í garð. Á þessum árstíma lítum við yfir farinn veg, rifjum upp góðar minningar, hugsum með hlýju til fólksins í kringum okkur og finnum leiðir til að sýna öðrum góðvild. En hversu dugleg erum við að beina slíkum tilfinningum inn á við?
Í þessum stutta pistli langar mig að hvetja þig, lesandi góður, til að beina tilfinningum kærleiks og þakklætis til líkama þíns. Líkami þinn er búinn til úr 7.000.000.000.000.000.000.000.000.000 atómum. Hjartað þitt slær yfir 100 þúsund sinnum á sólarhring óháð því hvort hvað þú ert að gera, hvort sem þú vakir eða sefur, hvort sem þér líður vel eða illa, þá heldur líkami þinn áfram að sjá til þess að allt virki vel og að þú lifir. Tvö hundruð vöðvar vinna saman við að taka eitt lítið skref. Heilinn í þér, sem er 60% fita, er búinn til úr 100 milljörðum taugunga og alltaf þegar þú lærir eitthvað nýtt, eða skapar minningu, þá verða til nýjar taugatengingar. Kraftaverkin gerast innra með þér á hverri sekúndu.
Hann á betra skilið því hann er tifandi kraftaverk.
Þannig gengur þetta allt árið, alla daga, alla ævi okkar. Líkaminn fær hins vegar alltof sjaldan kredit fyrir það sem hann gerir en er þess í stað gagnrýndur miskunnarlaust fyrir allt sem hann er ekki: Ekki nógu flottur, ekki nógu ungur, ekki nógu sterkur, ekki nógu sléttur. Hann á betra skilið því hann er tifandi kraftaverk.
Innan megrunarmenningarinnar rúmast lítið annað en of eða van. Annað hvort er verið að skera niður, takmarka, stjórna og píska áfram, eða þá að stjórnleysi ríkir með tilheyrandi ofgnótt. Í hugum margra er einmitt núna tími ofneyslu, ofslökunar eða ofstreitu. Síðan tekur við tími syndaaflausnar í janúar, átök, aðhald, harka og yfirbót. En hvenær fær líkaminn það sem hann raunverulega þarf: jafnvægi? Að borða það sem okkur langar í en hlusta jafnframt á líkamann og fara ekki yfir þau mörk sem honum finnst þægileg. Að hreyfa sig reglulega til að viðhalda styrk, sveigjanleika og orku en ekki til að píska líkamann í form sem honum er ekki eðlilegt. Að gefa sér tíma til að njóta lífsins og fá ekki samviskubit yfir því að slaka á, lesa, hanga, spjalla og gera ekkert.
Miðað við allt rýmið sem ýmist lífsnautnir eða meinlætalifnaður fá í daglegu lífi er alltof sjaldan talað um jafnvægi – gott líf sem breytist ekkert þótt það komi hátíðir eða nýjar árstíðir. Það er engin ástæða til að sleppa sérstaklega fram af sér beislinu í desember ef við megum alltaf borða það sem við viljum án samviskubits. Það er engin ástæða til að fara í sérstakt hreyfiátak í janúar ef við erum þegar að hreyfa okkur reglulega sama hvaða mánuður er á dagatalinu.
Gott líf sem veitir gleði og friður í sál og líkama. Það er þess sem ég óska þér, kæri lesandi. Ekki bara núna heldur alltaf.
Ég ætla að enda þetta á lítilli hugvekju frá Íslandsvinkonunni Harriet Brown. Hún er bandarísk blaðakona sem byrjaði að skrifa um heilsu og holdafar þegar dóttir hennar veiktist af átröskun. Hún setti saman þessa yfirlýsingu – „Líkamsmyndareiðinn“ - sem gæti virkað eins og heilandi mantra nú þegar janúarátökin fara að ríða yfir:
Ég heiti því að tala fallega um líkama minn.
Ég lofa að tala ekki um stærð læra minna, rassins eða magans, eða um að ég verði að missa 5 eða 10 eða 20 kíló. Ég lofa því að kalla sjálfa(n) mig ekki feitt svín eða neinum öðrum sjálfsfyrirlítandi, niðurrífandi nöfnum.
Ég heiti því að vera góð(ur) við sjálfa(n) mig og líkama minn. Ég ætla að læra að vera þakklát(ur) fyrir styrk hans og fegurð, og læra að sýna mildi gagnvart ófullkomnleika hans.
Ég ætla að minna mig á að líkamar koma í öllum stærðum og gerðum, og hver sem stærð og lögun líkama míns er, þá verðskuldar hann góðvild, ást og umhyggju.
Athugasemdir