Í vetur kærði ég mann sem hafði áreitt mig frá árinu 2013, að því að virtist vegna fréttar sem karlkyns kollegi minn skrifaði árið 2010. Kolleginn heyrði aldrei frá manninum, sem tók aftur á móti upp á því að senda mér ítrekuð skilaboð þar sem hann kallaði mig hóru, hótaði mér refsingu og beindi sjónum að börnunum mínum. Skilaboðin einkenndust fyrst og fremst af kvenfyrirlitningu, enda var hann ekki að ráðast að mér sem blaðamanni heldur sem konu.
Hótanir og árásir gegn kvenkyns blaðamönnum og bloggurum er vandamál sem samfélagið þarf að takast á við, segir Dunja Mijatovic, fulltrúi ÖSE fyrir frelsi fjölmiðla. Hún gerði þetta að umtalsefni á opnum fundi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands sem var haldinn í samstarfi við utanríkisráðuneytið og fjölmiðlanefnd í byrjun vikunnar og fjallaði um ógnir við tjáningarfrelsi í fjölmiðlum og á internetinu. Í erindi hennar kom fram að konum væri hótað nauðgunum og dauða. Vegna þessa hefðu margar konur hrakist úr faginu og sumar farið í felur. „Það er ráðist á þær sem konur, ekki sem blaðamenn,“ sagði hún og ítrekaði að lögreglan væri ekki að gera nóg til að mæta þessum vanda.
Ég hafði fyrst samband við lögregluna síðasta sumar. Þá hitti ég lögreglumann sem lét mig vita af því að svona málum væri yfirleitt vísað frá án frekari rannsóknar. Til að auka líkurnar á því að málið fengi efnislega meðferð væri réttast að láta lögmann fjölmiðilsins senda inn kæru.
Lögreglumaðurinn var hinn indælasti og virtist allur af vilja gerður til að aðstoða mig. Enda hafði hann sjálfur komið að rannsókn sakamáls þar sem sami maður kom við sögu og lyktaði með því að hann var dæmdur fyrir brot gegn fyrrverandi eiginkonu sinni. Það skorti ekki viljann, heldur getuna til að taka á svona málum, útskýrði hann og sagði að lögreglan væri ekki aðeins fjársvelt heldur væri lagaramminn líka þess eðlis að erfitt væri að kæra áreiti ef menn hefðu ekki uppi beinar hótanir um líkamsmeiðingar eða morð.
Samviskusamlega prentaði ég út alla tölvupóstana, raðaði þeim upp í tímaröð og lagði á borð ritstjórans, sem láðist að koma því til lögmannsins, svo málið var aldrei kært. Skömmu síðar hætti ég að vinna fyrir miðilinn og ákvað að láta kyrrt liggja, enda bjóst ég við því að vera laus við áreitið.
Næstu vikur og mánuðir liðu fjarri skarkala fjölmiðla. Upp rann nýtt ár með stofnun nýs fjölmiðils og við auglýstum eftir starfsfólki. „Sæki auðvitað um djobbið,“ stóð í pósti frá honum. Einfalt og sakleysislegt, aðeins til þess fallið að láta vita að hann væri kominn með nýja netfangið og hvergi nærri hættur.
Tveimur dögum síðar var hann kominn í kunnuglegri gír: „Áttu ennþá mann? Ekki búin að gera upp vændisfortíðina? Forvitnilegt allt.“
„Áttu ennþá mann? Ekki búin að gera upp vændisfortíðina? Forvitnilegt allt.“
Ég hringdi aftur í indæla lögreglumanninn sem gaf mér sama ráð og áður, að hafa samband við lögmann fjölmiðilsins. Ef ég hefði hug á því gæti ég líka kíkt við og farið yfir málið með honum. Ég reyndi, en þegar ég kom var hvorki hann né nokkur annar inni sem gat aðstoðað mig.
Lögmaðurinn minn ákvað að fylgja mér upp á stöð. Hann gerði boð á undan okkur en þegar við komum var enginn við. Það tók þrjár tilraunir að ná sambandi við lögreglumann. Næsta dag mættum við aftur á umsömdum tíma, en biðum engu að síður hátt í hálftíma eftir að lögreglumaðurinn birtist loks í gættinni og bauð okkur upp á skrifstofu.
Þar upphófst sérkennilegt samtal þar sem lögreglumaðurinn lagði til að við færum aftur án frekari málalenginga, því það væri best að lögmaðurinn myndi skrifa kæruna sjálfur og senda inn. Enn betra væri þó að höfða einkamál gegn manninum, sem kæmi aldrei til kasta lögreglu. Viðbrögðin komu á óvart því ég hélt að hver sem er gæti lagt fram kæru og þyrfti ekki að ráða lögmann í vinnu til þess. Jú, það er hægt, sagði lögreglumaðurinn, en þá væri betra að lögmaður væri ekki viðstaddur. Ég átti erfitt með að skilja þessi rök og eftir talsvert þref féllst lögreglumaðurinn loks á að taka við kærunni.
Fljótlega kom í ljós að ég gat ekki kært manninn fyrir áreiti eða meiðandi ummæli, aðeins hótanir sem hægt væri að túlka sem líflátshótanir. Við drógum út ummæli á borð við: „Óhjákvæmileg slátrun á ykkur er framundan,“ og annað í þeim dúr. Lögreglumanninum benti á að það þyrfti góðan vilja til að túlka þessi ummæli sem líflátshótun en tók við kærunni.
Ég sagði að mér stæði ekki á sama og benti á að maðurinn væri augljóslega ekki í andlegu jafnvægi. Síðan spurði ég hvort það færi eitthvað ferli af stað í svona málum, hvort honum yrði jafnvel boðin aðstoð. „Ef þér þykir lögreglan treg til, þá ættir þú að vita hvernig þetta er uppi á geðdeild,“ var svarið.
Þrátt fyrir byrjunarörðugleika kunni ég vel við manninn sem sat á móti mér og kom mér fyrir sjónir sem erkitýpan af rannsóknarlögreglumanni sem leiðist skriffinnska og líður best á vettvangi glæps.
„Ertu viss um að þú viljir kæra?“ spurði lögreglumaðurinn. Hann hafði sínar ástæður. Ólíklegt var að málið færi fyrir dóm og sumir menn bregðast hinir verstu við þegar þeim er svarað með þessum hætti. Það gæti jafnvel ýtt honum fram af brúninni. Lögmaðurinn deildi áhyggjum lögreglumannsins og velti upp þeim möguleika að láta tilkynningu duga. En ég var búin að vara hann við og varð að standa við það. Alveg eins og ég gæti ekki hvikað frá þeirri ákvörðun að opinbera hann léti hann ekki segjast.
Í störfum mínum sem blaðamaður og ritstjóri hef ég staðið að baki málum sem hafa vakið hörð viðbrögð og jafnvel reiði. Það á við um flesta sem starfa við fjölmiðla. Í þessu fagi veistu aldrei hverju þú átt von á. Fyrrverandi samstarfskona mín var ein á kvöldvakt á föstudagskvöldi þegar hún fékk símtal frá manni sem setti borvél í gang og hótaði að koma niður á skrifstofu til að bora í hnéskeljarnar á henni.
Þegar ég birti frásögn af fjögurra daga dvöl í Kvennafangelsinu hringdi fangi inn með hótanir. Í annan stað hótaði kona sjálfsvígi vegna þess að ég vildi ekki birta eitthvað sem hún taldi fréttnæmt. Karlar í valdastöðum hóta helst málsóknum. Einn hótaði umfjöllun í miðli sem hann stýrði sem átti að rýra trúverðugleika minn.
Hótanirnar eru allskonar og þær koma úr ýmsum áttum. Innan stéttarinnar virðist hins vegar ekki vera hefð fyrir því að kæra áreiti til lögreglu, þótt til séu dæmi um annað.
Í fyrra fjallaði Kastljósið um málefni konu sem hafði lengi verið ofsótt af fyrrverandi maka sínum. Í kjölfar umfjöllunarinnar fór maðurinn að áreita þáttastjórnendur. Helga Seljan bárust hótanir sem hann reyndi að kæra. Hjá lögreglunni fékk hann hins vegar þau svör að hótanirnar væru ekki nógu afgerandi til að hægt væri að kæra þær. Var honum bent á dómafordæmi þar sem manni var heimilt að segja við annan mann að hann myndi finna hann í fjöru án þess að það væri álitið hótun. Helgi leit svo á að það væri prinsippmál að kæra áreitið. „Maður lætur ekki hóta sér,“ útskýrði hann.
„Óhjákvæmileg slátrun á ykkur er framundan.“
Afstaða Helga er heilbrigð. Það er engin ástæða til að umbera ofbeldi. Okkur hættir samt stundum til þess að hrista óþægindin af okkur og halda áfram, þótt það geti verið sárt og reyni stundum á.
En þetta var annars eðlis en áður. Fyrir því voru aðallega tvær ástæður. Í fyrsta lagi vegna þess að þarna var um langvarandi áreiti að ræða. Frá því í október 2013 og fram í september 2014 fékk ég reglulega tölvupósta frá manninum. Ég svaraði honum aldrei en því var komið á framfæri við hann að ef hann léti ekki af þessari hegðun yrði hann kærður til lögreglu. Það breytti engu.
Hann hætti þegar ég yfirgaf fjölmiðla, en byrjaði aftur um leið og ég hóf störf að nýju.
Hin ástæða var sú að þarna var ráðist að mér á grundvelli kynferðis, en ekki vegna einhvers sem ég hafði gert eða skrifað. Hann valdi mig, en ekki þann sem skrifaði fréttina eða þá sem stýrðu fjölmiðlinum á þeim tíma, vegna þess að ég var kona. Eina konan í skotlínunni.
Áður en við kvöddumst lofaði lögreglumaðurinn að hringja í manninn og tala um fyrir honum. Hann hefur ekki haft samband síðan.
Nokkrum mánuðum síðar fékk ég tilkynningu um að málið hefði verið látið niður falla. Mér var sama. Markmiðið var ekki að draga hann fyrir dóm, heldur að senda skýr skilaboð um að svona kemur maður ekki fram, ekki við mig, ekki við aðrar konur, ekki við neinn.
Ég veit að ég var ekki sú eina varð fyrir barðinu á kvenfyrirlitningu hans. Stundum fékk ég afrit af póstunum sem hann sendi á konurnar í kerfinu, starfsmenn lögreglu og ríkissaksóknara. Ofbeldi af þessu tagi beinist ekki aðeins að þeim sem starfa á fjölmiðlum. Margir sem starfa á opinberum vettvangi eða taka þátt í opinberri umræðu þekkja þennan veruleika. Ekki síst konur með femínískar áherslur.
Mín reynsla er ekki versta dæmið. Margar konur lenda mun verr í þessu.
Í gegnum tíðina hafa konur margoft sagt frá ógninni sem fylgir því að stíga fram, hótunum og áreiti sem þær hafa orðið fyrir vegna starfa sinna, skoðana eða framgöngu í fjölmiðlum. Þær hafa hvatt til þess að samfélagið taki þennan vanda föstum tökum og tryggi öryggi þeirra, rétt eins og Mijatovic gerir núna.
Hér á eftir eru birt brot úr nokkrum tölvupóstum sem maðurinn sendi mér á þessu tímabili. Póstarnir voru fleiri, en rétt er að taka fram að þeir voru misgrófir.
4. september
Sæl Ingibjörg.
Ertu orðin að kæfu?
Áttu börn? Þau eiga gott skilið jafnvel frá rottum einsog þér.
Láttu mig bara vita hvort þú eigir þau. Já og auðvitað hvort þú þurfir skjól til að sinna þeim. Hóran þín.
2. september
Þú munt fá lexíuna hóran þín.
Því lofa ég þér og fólkinu þínu.
19. júlí
Sæl Imba mín sæta.
Ertu búinn að hreinsa hjarta þitt.
Mældirði lengd allra lóganna sem fóru inní þig fyrir dópið. Náðirðu mílu?
28. maí
Eigum við ekki að hafa gaman.
... Ertu enn að setja í nefið þitt. Ekki selja þig. Alls ekki Reyni. Afhverju ertu horfin af síðum DV. Ertu full alla daga eða í slökun við cannabisreykingar. Væri til í að fyrirgefa þér allt þetta og meira til. Mannorðsmorð og sviptingar málfrelsis verða þér ekki fyrirgefin. Ég mun ekki skaffa þér dóp.
20. maí
Sendu væntumþykju mína til fólksins ykkar. Hún er einlæg og gagnkvæm.
16. maí
Mannorðsmorð eru dauðasök víða.
15. maí
Sæl yndið mitt.
Vonandi gengur þér vel í lífinu.
... Æra mín er merkilegri en þeirra sem lögðu hana í rúst. Því mun ég ganga í öll nauðsynleg verk vegna hennar og ykkar. Hef áður bent þér á að það sama muni ganga yfir ykkur Reyni og börnin ykkar sem þið létuð koma yfir mig og mín börn.
27. apríl
Óhjákvæmilegt verður þó að elta þá uppi sem sóttu að æru minni.
10. apríl
Ykkur verður óhjákvæmilega refsað. ... Börnum ykkar eða mökum verður ekki hlíft frekar en mínu fólki.
Athugasemdir