Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ekki sagt af sér sem þingmaður Framsóknarflokksins og hann er ennþá formaður flokksins. Hann er vissulega ekki lengur forsætisráðherra eftir að hafa sagt af sér því embætti en hvað merkingu hefur afsögn ef hún er bara afsögn að einum þriðja hluta ef svo má segja?
Afsagnir stjórnmálamanna snúast yfirleitt um það að mikilvægt sé að sýna ábyrgð sína á eigin mistökum í verki og hætta alfarið afskiptum af stjórnmálum, um hríð að minnsta kosti. Með slíkum starfslokum á pólitíska sviðinu hreinsa stjórnmálamenn loftið, auðvelda þeim flokkum sem þeir eru í að vinna áfram að almannahag án þeirra sjálfra auk þess sem þeir sýna umheiminum að þeir iðrist þess sem var ástæða afsagnarinnar. Þeir hreinsa borð sitt ef svo má segja og hverfa af vettvangi til að hugsa sinn gang.
En ekki á Íslandi, ekki í þessari ríkisstjórn sem nú er við völd. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði einnig einungis af sér ráðherradómi í kjölfar lekamálsins en hún hætti ekki á þingi. Í þeim skilningi er staða þeirra Sigmundar Davíðs lík að afsagnir þeirra eru bara til hálfs, eða eins þriðja, og eru þá að vissu leyti engar afsagnir heldur tilraunir til að láta umheiminn halda að þau hafi sagt alfarið af sér sem pólitískir fulltrúar kjósenda. Athygli margra fjölmiðla, sérstaklega erlendra, á afsögn Sigmundar Davíðs snérist um það að hann segði af sér sem forsætisráðherra. Fáir létu þess getið að hann ætlaði sér að vera áfram formaður Framsóknarflokksins sem og þingmaður. Er einhver iðrun eða yfirlýsing um ábyrgð á bak við slíka afsögn?
„Sigmundur Davíð er nú eins og Íkarus nema að hann neitar að horfast í augu við það að hann flaug of hátt“
Eftir að hann sagði af sér sem forsætisráðherra í kjölfar fundarins með þingmönnum Framsóknarflokksins þá leið ekki langur tími þar til í ljós kom að það var hann sem hafði ákveðið að gera Lilju Alfreðsdóttur að ráðherra í ríkisstjórninni sem hann var hættur í. Fyrrverandi forsætisráðherra ákveður upp á sitt einsdæmi að sækja utanþingsráðherra fyrir ríkisstjórn sem hann stýrir ekki lengur. Það er ekkert eðlilegt við það. Og þingflokkur Framsóknarflokksins studdi þá tillögu hans að gera Lilju að ráðherra þrátt fyrir að Sigmundur Davíð hefði skömmu áður sýnt af sér fordæmalausa valdníðslu og frekju gagnvart þeim.
Þetta bendir til þess að Sigmundur Davíð verði einhvers konar skuggastjórnandi í Framsóknarflokknum og ríkisstjórninni, einhvers konar alltumlykjandi Jón Ásgeir sem stillir upp smápeðum í kringum sig sem hann stýrir svo í gegnum. Kannski verður þessi ríkisstjórn sem nú er tekin við völdum kennd við skuggaforsætisráðherrann Sigmund Davíð.
Fyrst gekk Sigmundur Davíð á bak við þingflokk sinn með því að fara á fund með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og hóta honum að hann myndi ganga á fund forseta Íslands, fá heimild til að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki styðja hann heilshugar.
Þegar þetta gekk ekki hjá Sigmundi Davíð fór hann á fund Ólafs Ragnars Grímssonar með það fyrir augum að fá heimildina til þingrofs sem hann hafði hótað Bjarna með. Ólafur Ragnar hefur áttað sig á því að þarna fór forsætisráðherra sem léki ítrekaða einleiki og veitti honum ekki þá heimild heldur ákvað að ræða fyrst við Bjarna Benediktsson um hvort möguleiki væri að halda ríkisstjórnarsamstarfinu gangandi og komast hjá því að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga.
Einhverjir hafa gagnrýnt Ólaf Ragnar fyrir þetta; að hann hefði átt að heimila Sigmundi Davíð að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga á þeim forsendum sem forsætisráðherra lagði upp með þar sem synjun hans hefði verið einhvers konar aðför að þingræðinu. Inntakið í þessari gagnrýni byggir á því að Ólafur Ragnar hafi, af einhverjum ástæðum, ekki viljað að kosningar færu fram. Enginn forseti með sæmilega dómgreind hefði veitt Sigmundi Davíð þesssa heimild til þingrofs á þessum tímapunkti án þess að ráðfæra sig við samflokk hans í ríkisstjórn og þingflokk forsætisráðherrans. Til þess var Sigmundur Davíð í of litlu jarðsambandi og of pólitískt einangraður.
„Ólafur Ragnar er bæði „kingmaker“ og „kingslayer“ í tilfelli Sigmundar Davíðs“
Gleymum því hins vegar ekki heldur að Ólafur Ragnar er maðurinn sem veitti Sigmundi Davíð stjórnarmyndunarumboð árið 2013 þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið stærri en Framsóknarflokkurinn eftir kosningarnar og að þeir hafa hingað til þótt vera samherjar á pólitíska sviðinu. Ólafur Ragnar er kannski með eitt stærsta pólitíska nef liðinna áratuga á Íslandi og í þessu tilfelli hefur hann áttað sig á því að Sigmundur Davíð var orðinn örvæntingarfullur í þeirri viðleitni að bjarga sjálfum sér pólitískt og hegðaði sér þess vegna eins og einhver einræðisherra sem taldi sig ekki þurfa að tala við þingflokk sinn. Hegðun Sigmundar Davíðs var miklu meiri aðför að þingræðinu og lýðræðinu í reynd en sú ákvörðun Ólafs Ragnars að stoppa hann af.
Svo vitnað sé í fleyg orð breska hagfræðingsins John Maynard Keynes þá geta menn skipt um skoðun þegar staðreyndirnar breytast: „When the facts change, I change my mind. What do you?,“ sagði Keynes. Staðreyndirnar um Sigmund Davíð Gunnlaugsson voru svo sannarlega breyttar frá því forsetinn veitti honum stjórnarmyndunarumboð árið 2013. Ólafur Ragnar er bæði „kingmaker“ og „kingslayer“ í tilfelli Sigmundar Davíðs. Hann bæði færði Sigmundi Davíð völdin og tók þau svo af honum. Forseti Íslands hefur hingað til alltaf í sögu Íslands á lýðveldistímanum - nema einu sinni - veitt forsætisráðherrum umbeðna heimild til þingrofs. En ekki núna. Staðreyndirnar um undarlega framgöngu Sigmundar Davíðs í Wintris-málsins og í kjölfar þess voru bara þess eðlis að það var ekki hægt.
Nú voru flest sund lokuð fyrir Sigmund Davíð. Hann var búinn að reyna að fá stuðning Bjarna Benediktssonar og Sjálfstæðisflokksins en án árangurs og hann var búinn að reyna að fá stuðnings Ólafs Ragnars Grímssonar til að rjúfa þing en án árangurs. Þingflokkurinn veitti honum ekki heldur óskoraðan stuðning til að reyna að halda áfram í embætti forsætisráðherra enda sú hugmynd fráleit og ómöguleg í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn gat ekki stutt þá hugmynd.
Þessar þrjár stoðir Sigmundar Davíðs snéru allar við honum baki sama daginn. Fyrst Bjarni Benediktsson, svo Ólafur Ragnar og loks þingflokkurinn að hluta sem veigraði sér eðlilega við að fylkja sér um hann og tóku hagsmuni flokksins fram yfir hagsmuni Sigmundar Davíðs sem sannarlega er ekki stærri en eigin flokkur þó hann haldi það kannski sjálfur.
Í staðinn fyrir að átta sig á því á þessum tímapunkti að hann væri í vonlausri stöðu pólitískt og einfaldlega að segja af sér sem formaður Framsóknarflokksins og þingmaður hans þá ákvað Sigmundur Davíð að halda áfram störfum sínum fyrir flokkinn. Hinir tveir valkostir hans - stuðningur Sjálfstæðisflokksins við hann eða þingrof og kosningar - var úr sögunni og forsetinn var í reynd búinn að taka völdin yfir ríkisstjórn landsins úr höndunum á honum. Hann valdi að finna sér þessa þriðju leið í stað þess að viðurkenna algjört, pólitískt afhroð sitt.
Og það sem er einna merkilegast er að þingflokkur Framsóknarflokksins hefur leyft honum að komast upp með þessa fordæmalausu framkomu og valdníðslu gagnvart öðrum kjörnum fulltrúum flokksins á Alþingi í stað þess að krefjast þess að hann hætti að minnsta kosti sem formaður flokksins. Þingflokkur Framsóknarflokksins virðist vera þýlyndur og hlynntur einræði Sigmundar Davíðs að mestu - þó ekki Höskuldur Þórhallsson sem hefur stigið fram og sagt að hann telji að Sigmundur Davíð hefði átt að segja af sér þingmennsku. Foringjahollustan virðist vera algjör jafnvel þó það liggi ljóst fyrir að Sigmundur Davíð tekur sína eiginhagsmuni fram yfir hagsmuni þingflokks síns og Framsóknarflokksins. Þetta er augljóst.
Ef Sigmundur Davíð bæri sannarlega hagsmuni flokks síns fyrir brjósti þá myndi hann segja af sér þingmennsku og formannsembættinu sem allra fyrst og leyfa flokknum að reyna að lækna sár sín fyrir næstu kosningar. Nú ef Sigmundur Davíð gerir þetta ekki, og ef þingflokkurinn og framámenn í Framsóknarflokknum leyfa honum að komast upp með þetta, þá mun flokkurinn bíða afhroð í næstu kosningum með hann sem formann og sitjandi þingmann. Þetta er augljóst.
Sigmundur Davíð er nú eins og Íkarus nema að hann neitar að horfast í augu við þá staðreynd að hann flaug of hátt, gerði of mörg og of stór mistök og að pólitískur ferill hans er búinn. Eina leiðin fyrir hann er fjórða leiðin: Að hann hætti sem formaður og þingmaður Framsóknarflokksins. Í stað þess reynir hann að flögra áfram með brunna vængi. Það er eiginlega bara tragískt fyrir hann sjálfan og flokkinn hans. Þetta er augljóst.
Athugasemdir