Glóandi geislavirknin titrar. Truflar forritun erfðavísanna. Finnar vinna að grafhýsi, mörg hundruð metra djúpu, til þess að jarðsyngja geislavirka úrganginn sinn. En Fúkúsíma frussar. Og Sjérnóbíl seytlar. Fólk, fuglar, gróður, dýr og allt. Allt safnar eitri. Allt fær krabbamein. En svo er kominn fram sveppur í Rússlandi sem nærist á geislavirkni. Það er nú meira.
Höfin rísa og falla, flóð og fjara og flóð og flóð og full af plasti og drasli. Hvalir með magana fulla af dekkjum og skúringafötum og plastperlum úr andlitsskrúbbinu okkar. Fuglarnir olíubaðaðir. Rörið sem þvinga á í gegnum friðland innfæddra Norður-Ameríkana á að dæla svartagulli suður til þeirra sem peningana eiga. Breytum því í plastbolla. Drekkum úr honum kaffi. Einusinni. Dælum honum út í sjó. En svo er víst kominn fram sveppur frá Suður-Ameríku sem borðar plast. Það er nú meira.
Vélin sem krefst þess að mannkynið framleiði meira en það þarf og neyti meira en náttúran ræður við er að standa sig svipað vel í fjöldaútrýmingu og loftsteinninn sem kyssti jörðina sínum dauðakossi fyrir 65 milljónum ára. Á hverjum sólarhring þurrkast út 150–200 tegundir plantna, skordýra, fugla og spendýra af yfirborði plánetunnar okkar. Það er 1.000 sinnum meira en eðlilegt getur talist. Svo eru skröltormar víst hættir að skrölta því þá er erfiðara að finna þá. Og risatennur fíla hættar að vaxa svo menn vilja síður veiða þá. Það er nú meira.
Við erum nautið í postulínsbúðinni sem rústar öllu og grætur eyðilegginguna. En á gólfinu, í tortímingunni, raða brotin sér saman á nýjan hátt. Allt finnur sér tilgang. Nýtt form. Eitrið verður að kókómjólk og sorpið verður að súkkulaðisnúð og þegar partíið er búið og við komin aftur í hellana situr móðir náttúra í þynnkunni og borðar frá sér serótónínþunglyndið. Hlakkar til mánudagsins. Það verður nú meira.
Athugasemdir