Trúarbrögð eru oft notuð til þess að réttlæta ótrúlegustu grimmd. Oft er sagt að það sé einfaldlega vegna geðveiki viðkomandi gerenda. En það er engin tilviljun að fólk í verulega alvarlegu geðrofi eða siðrofi geti fundið sér stoð í Biblíunni fyrir því að drepa saklausa. Jafnvel fólk með hið mesta geðheilbrigði finnur sér þar stoð fyrir grimmd.
Skoðanakönnun um stuðning Bandaríkjamanna við skipulegar pyndingar á mönnum sem taldir voru tengjast hryðjuverkum sýndi fram á að trú virtist hafa veruleg áhrif á afstöðu fólks. Kristnir voru miklu líklegri til að vilja pyndingar heldur en þeir sem ekki eru trúaðir.
Um 75% Íslendinga eru meðlimir í Þjóðkirkjunni og að meðtöldum öðrum kristnum trúfélögum eru hátt í níu af hverjum tíu Íslendingum skilgreindir sem kristnir. Nú þegar páskarnir eru að ganga í garð er eðlilegt að rifja upp söguna um páskana sem prestar hneigjast síður til að segja okkur úr bókinni sem gerð er krafa um að sé grundvöllur gildismats okkar og annarra vestrænna samfélaga.
Nafnið Páskar á uppruna sinn í sögu úr Biblíunni. Hebresk útgáfa orðsins merkti að Guð ætlaði að „ganga fram hjá“ heimilum Gyðinga í Egyptalandi á ferð sinni um landið. Og hvert var erindið í þessari spásseringu? Jú, hann ætlaði að „ganga frá“ öllum frumburðum landsins.
Barnafjöldamorð Guðs
Í Biblíunni er þessu lýst orðrétt: „Þá sagði Móse: „Svo segir Drottinn: ,Um miðnætti vil ég ganga mitt í gegnum Egyptaland, og þá skulu allir frumburðir í Egyptalandi deyja, frá frumgetnum syni Faraós, sem situr í hásæti sínu, til frumgetnings ambáttarinnar, sem stendur við kvörnina, og allir frumburðir fénaðarins. Þá skal verða svo mikið harmakvein um allt Egyptaland, að jafnmikið hefir ekki verið og mun aldrei verða.“
Margir eru með stór áform fyrir páskahelgina. Þó fáir svona. En þetta gekk eftir. Guð drap fyrsta drengbarn allra foreldra í Egyptalandi nema Gyðinganna. Og líka fyrsta afkvæmi búfjár, ef hitt skyldi ekki nægja til að valda ógn og skelfingu:
„Gjörðist þá mikið harmakvein í Egyptalandi, því að ekki var það hús, að eigi væri lík inni,“ segir í Biblíunni.
„Ekki var það hús, að eigi væri lík inni“
Tilgangurinn með þessu var að knýja Faraóann til að leysa Gyðinga úr þrældómi. Reyndar er tekið sérstaklega fram af Guði að hann myndi drepa börn annars fólks sem er svo óheppið að vera þrælar. Þannig að prinsippið um að ekki eigi að hneppa fólk í þrældóm er ekki að baki þessu, enda ætti þá varla að drepa börn annarra þræla sem eru bara svo óheppnir að vera af öðru þjóðerni eða annarrar trúar.
Kristnir fræðimenn hafa varið miklum tíma í að greina hvort Guð hafi verið vondur þegar hann drap börnin, en niðurstaðan virðist yfirleitt vera nei. Sumir hverjir eru reyndar á því að Guð hafi verið réttu megin siðferðislega og hefði í raun átt að drepa fleiri börn, enda hafi hann líklega verið að hefna fyrir barnadráp Egypta.
Börn sem fylgiskaði
Sagan af páskunum kennir okkur að það sé í himnalagi að drepa börn óvina sinna við vissar aðstæður og þótt önnur börn deyi með, sé það í lagi ef það þjónar tilgangi manns. Það er auðvelt að heimfæra þetta yfir á siðferðislegt niðurbrot í mannkynssögunni fram á þennan dag. Þegar börn deyja í drónaárásum eða öðrum sprengjuárásum er það alls ekki ósamrýmanlegt vilja Guðs. Vissulega má finna boðorð í Biblíunni sem banna dráp, en Guð setur svolítið tóninn með fjöldamorði sínu á börnum.
Hver veit hversu margir einstaklingar sem eru illa haldnir af geðrofi og á barmi þess að missa stjórn á sér hafi lesið Biblíuna spjalda á milli og fundið þar þessar ótrúlegu sögur af grimmdarverkum Guðs í æðri tilgangi?
Hugmyndafræði að baki vítahrings ofbeldis
Við erum öll vinir á Íslandi og lítil ástæða til að óttast að fólk grípi til óyndisúrræða eins og Guð gerði forðum í Egyptalandi. En það er samt hætta á að okkur verði meira sama um barnadráp meðal annarra þjóða, sérstaklega þeirra sem lifa í landi undir stjórn slæmra leiðtoga eins og trúarofstækismanna, ef við meðtökum boðskap Guðs um að tilgangurinn helgi meðalið. Og það sem verra er, því meira sem barnadráp eiga sér stað sem fylgiskaði („collateral damage“) eður ei, þess líklegra er að hatur festi rætur í viðkomandi samfélagi og ungt fólk finni sjálfsréttlætingutil hryðjuverka gegn Vesturlöndum. Oft nota hryðjuverkamenn trúarbrögð einmitt til að undirbyggja sig hugmyndafræðilega og sálfræðilega fyrir að drepa aðra eða sprengja sjálfan sig upp á meðal mannfjöldans. Þannig getur trúin knúið vítahring ofbeldis.
Þegar íslenskir stjórnmálamenn býsnast yfir því að ekki eigi að leyfa kennslu á kristnum gildum í skólum eru þeir líklega ekki að vísa til þessa hluta Biblíunnar. Þeir eru vonandi að hugsa um Jesús, þegar hann vildi bjóða hinn vangann, og þegar hann var krossfestur á föstudaginn langa fyrir „syndir okkar“. Það er að segja þetta með eplið, sem parturinn af rifbeini karlmannsins asnaðist til að þiggja. Ekki barnafjöldamorðin. En Jesú var einmitt pyndaður til dauða á páskunum fyrir að vera uppreisnarmaður, negldur á pyndingartækið sem nú er tákn kristinna manna. Á páskum er því ekki einungis fagnað að Guð drap bara hin börnin, heldur að Jesús hafi risið upp frá dauðum (eins og sjálfsprengdu uppreisnarmenn nútímans trúa að þeir geri).
Dreptu barnið þitt fyrir mig
Guð var reyndar ennþá hneigðari til að hvetja okkur til barnadrápa en kemur fram í Páskaævintýri hans í Egyptalandi. Honum var afar mikilvægt að við værum til í að drepa börn. Eitt skiptið fann hann hjá sér þörf til að sannfæra mann nokkurn, Abraham, um að fara með son sinn upp á fjall og slátra barnungum drengnum sínum þar eins og dýri. Það var ekki fyrr en Guð hafði brotið niður siðferði og vilja Abrahams þannig að hann var raunverulega kominn með hnífinn á loft til að drepa son sinn fyrir hann að hann gaf honum séns á að sleppa því.
Gleðilega páska („ganga fram hjá heimilum Guðs útvalinna á leið hans til skipulegs barnafjöldamorðs á landsvísu“).
Athugasemdir