Sagt er að besta leiðin til að ræna banka sé að eiga hann. Við þekkjum okkar séríslensku útgáfu af slíku ráni eftir að tveir ríkisbankar voru „seldir“ vildarvinum núverandi ríkisstjórnarflokka og gerðir gjaldþrota á aðeins sex árum – með fulltingi sömu ríkisstjórnarflokka, sem afnámu allar reglur sem hægt var. Ekkert hefur orðið af rannsókn á þeirri einka(vina)væðingu þrátt fyrir skýran vilja Alþingis þar að lútandi í nóvember 2012 – þar sem þingmenn núverandi ríkisstjórnar, sjálfir „seljendurnir“, sátu reyndar hjá við atkvæðagreiðsluna. Engu að síður má lesa heilmargt um einkavinavæðingu ríkisbankanna í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og það er enginn yndislestur.
Eftir hrun hefur ríkissjóður – almenningur – átt Landsbankann og arður af rekstri hans runnið í okkar sameiginlegu sjóði og nú er Íslandsbanki að bætast við bankaeign Íslendinga. Enginn vildi kaupa hann svo kröfuhafar létu hann upp í stöðugleikaframlagið. Svo ku Arion banki vera til sölu, en við eigum um 13% í honum.
Einhverra hluta vegna hefur Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, verið ólmur í að selja stóran hluta almennings í Landsbankanum, eða tæplega 30%. Að sögn til að „greiða niður skuldir ríkissjóðs“ eða að „ríkið eigi ekki að stunda bankarekstur“. Það eru helstu röksemdir hans fyrir sölunni. En íslenskir bankar virðast ekki vera góð söluvara um þessar mundir, þrátt fyrir beltin, axlaböndin og okrið. Samkvæmt markaðslögmálum er söluverð bankanna því í lágmarki og þar sem þrír bankar eru í framboði en kaupendur ekki á hverju strái er hætt við að hlutabréfin seldust á undirverði ef þau seljast yfir höfuð.
Bankasýsla ríkisins er stofnun sem fjármálaráðherra hefur falið að undirbúa sölu Landsbankans. Ráðherrann hafði fyrirhugað að leggja stofnunina niður og einkavæða bankana sjálfur, en hætti svo við það án skýringa. Skipaði þess í stað nýja stjórn Bankasýslunnar.
Bankasýslan áætlar verðmæti þessara tæpu 30% í Landsbankanum, sem ráðherra vill selja, um 70 milljarða króna. Arður af rekstri bankans hefur verið mikill og sumir segja að hann sé arðbærasta fyrirtæki landsins. Það tæki því nýja eigendur 30% hluta bankans ekki ýkja langan tíma að greiða upp sinn hlut miðað við svipaðan arð næstu árin.
Við sáum það sama við leynilega sölu á hlut í Borgun. Þá var meðal annars ættingjum fjármálaráðherra seldur hluturinn í nóvember 2014 fyrir 2,2 milljarða og fyrirtækið greiddi himinháan arð í febrúar 2015 – í fyrsta sinn síðan 2008. Það var flottur díll.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur talað gegn sölu Landsbankans og fært mjög góð rök fyrir máli sínu. Frosti segir í útvarpsviðtali í síðustu viku að í nýlegri skýrslu Bankasýslunnar komi fram að verðmæti bankanna sé mjög lágt í sögulegu samhengi og því sé þetta afar vondur tími til að selja. Þrátt fyrir það segir í skýrslunni að ekki sé bolmagn hér heima til að kaupa hlut í bankanum og því þurfi að finna kaupendur erlendis. Sem þýðir að erlendir (vogunar)sjóðir gætu eignast hlut í einu stærsta og arðbærasta fyrirtæki þjóðarinnar sem er mikilvægur hluti innviða landsins og þótt einhver gjaldeyrir kæmi inn í landið í upphafi myndi enn meiri gjaldeyrir fara út úr landinu í áranna rás.
Þetta þýðir auðvitað líka að okkar séríslensku auðmenn sem földu milljarðana sína í skattaskjólum og á aflandssvæðum gætu endurtekið leikinn í gegnum öll aflandsfélögin sín. Svolítil aukaáhætta fyrir almenning en líklega fátt því til fyrirstöðu.
Ég vil ekki selja Landsbankann - hvorki í heilu lagi né í hlutum. Hvorki íslenskum einkavinum né erlendum sjóðum. Sé heldur ekkert því til fyrirstöðu að sjóður almennings, ríkissjóður, reki banka sem gæti auðveldlega sýnt gott fordæmi í fákeppninni og boðið upp á betri kjör en aðrir bankar – sem yrðu að fylgja á eftir. Þetta er hægt, látum engan telja okkur trú um annað. Tölum, skrifum og berjumst gegn því að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, selji eða gefi arðbærustu eignir okkar. Það fór hroðalega illa síðast og það ætti að vera víti til varnaðar. Við viljum ekki annað bankahrun, er það?
Athugasemdir