Einhver hataðasta persóna sjónvarpssögunnar er úr gamanþáttunum Little Britain, en hún er holdgervingur „kerfisins“ sem segir alltaf nei, alveg sama hver spurningin er. Computer says no. Þú ert númer milljón í röðinni. Vinsamlega bíðið á meðan kerfið sýgur úr þér allan lífsvilja og gubbar í grautinn þinn við undirleik panflaututónlistar.
Helvítis regluverk
Óopinber þjóðaríþrótt Íslendinga er að þusa yfir „kerfinu“ og þar legg ég mitt af mörkum með reglulegu tuði yfir þunglamalegum stofnanabáknum sem virðast stjórnast af einbeittum vilja til að murka lífið úr fólki með regluverki. Orð fá ekki lýst fyrirlitningu minni á að vera send milli stofnana og látin bíða eftir stimpli á löggiltan pappír. Ég held að það sé raunverulega hægt að valda hægfara dauða fólks með skriffinnsku, biðlistum og niðurnjörvuðum heimsóknartímum. Í slíku þrasi á ég til að gleyma því að „andskotans kerfiskallarnir og -kellingarnar“ hafa oftar en einu sinni bjargað mér, eða einhverjum sem mér þykir vænt um, á ögurstundu. Hér vandast málið, því björgunin hefur iðulega verið í formi þess að hunsa kerfið. Þetta er feimnismál, enda er erfitt að þakka fólki fyrir hluti sem gætu varðað brottrekstur þeirra. Af þeim sökum hef ég afmáð persónuauðkennandi upplýsingar úr eftirfarandi sögum af kerfisstarfsmönnum sem reyndust ofurhetjur í dulargervi. Afskaplega sannfærandi, ferköntuðu, einkennisklæddu dulargervi, í sumum tilvikum.
Heilbrigðisstarfsmaðurinn
Ég er að tala um þig sem varst á vakt þegar ég lá á spítala eftir sársaukafyllstu reynslu lífs míns og „kerfið“ bannaði manninum mínum að sofa við hlið mér, en þú gerðir undantekningu svo við gætum sofnað í faðmlögum eftir gríðarlega þrekraun. Þú veist ekki hvað þetta skipti okkur miklu máli. Eða jú, eflaust vissirðu það upp á hár. Takk.
Flugfélagsstarfsmaðurinn
Ég er að tala um þig, konuna sem bjargaði jólafríinu mínu þegar ég var í námi í Bandaríkjunum og keypti falsaðan flugmiða heim til Íslands af svikahröppum. Fátæki námsmaðurinn hafði ekki efni á að kaupa nýjan flugmiða og mætti titrandi upp á flugvöll með ekkert í höndunum nema tárvott útprent af falsaðri kvittun. Þú fylgdir mér eins og verndarengill í gegnum öll öryggishliðin, reifst við þá sem ætluðu að malda í móinn og gekkst í persónulega ábyrgð fyrir mig án þess að þekkja mig neitt. Það er þér að þakka að ég og fjölskyldan mín áttum gleðileg jól.
Hjúkrunarfræðingurinn
Ég er að tala um þig sem horfðir í hina áttina þegar heimsóknartímanum lauk á vökudeildinni og ég átti að fara heim í stað þess að halda áfram að stara blóðhlaupnum augum inn í hitakassa sonar míns. Ég hefði verið frávita af áhyggjum heima hjá mér og þú skildir það. Takk fyrir að leyfa mér að dotta í hægindastólnum – og fyrir vatnsglasið sem beið mín þegar ég vaknaði.
Uppeldisfræðingurinn
Ég er að tala um þig, sem áttir að leggja mat á þroska sonar míns sem varð hræddur og skreið undir skrifborðið þegar hann átti að svara spurningum þínum. Í staðinn fyrir að fara eftir „kerfinu“ og fella hann á prófinu skreiðstu undir skrifborðið til hans og spjallaðir við hann um múmínálfana. Sú stund mun aldrei gleymast.
Læknirinn
Ég er að tala um þig sem leyfðir mér að koma skilaboðum til ástvinar sem lá á gjörgæslu og heimsóknir voru bannaðar. Þú veist það eflaust ekki, en í umslaginu sem þú fórst með fyrir mig voru orð sem ég hefði aldrei getað sætt mig við að hefðu ekki komist á leiðarenda þetta kvöld.
Presturinn
Ég er að tala um þig sem leyfðir rónunum að sofa inni í kirkjunni þinni þótt „kerfið“ bannaði það og útskýrðir fyrir mér að velferð þeirra væri mikilvægari en þægindi mín sem túrista. Ég er alveg sammála, en það gastu ekki vitað fyrirfram. Takk fyrir að vera reiðubúinn að taka slaginn fyrir þá sem minnst mega sín.
Sálfræðingurinn
Ég er að tala um þig sem máttir bara veita mér fimm sálfræðiviðtöl samkvæmt „kerfinu“, en ákvaðst að hunsa reglurnar og veita mér aðhlynningu sem ég tel víst að hafi bjargað sálarheill minni. Og þú gerðir það í sjálfboðavinnu. Á mismunandi tímum sólarhrings, í eigin persónu, símleiðis og í tölvupósti. Ég mun seint fá þér fullþakkað.
#Takkþú
Kæru nafnlausu kerfisstarfsmenn. Undantekningin frá reglunni er ykkur að þakka. Það eru einmitt svoleiðis hvunndagskraftaverk sem skipta sköpum á ögurstundu. Þegar þreytta móðirin með organdi barnið fær skyndilega að fara fram fyrir röðina. Þegar stöðumælasektirnar fyrir utan bráðamóttökuna „týnast“ fyrirvaralaust. Ef fólk eins og þið væruð ekki til myndi tölvan alltaf segja nei og heimurinn væri töluvert ómanneskjulegri staður en hann er.
Ég tel mig tala fyrir hönd okkar allra þegar ég segi: Við kunnum að meta þig.
Takk.
Athugasemdir