Þetta hefur verið viðburðaríkt ár fram til þessa. Átök eins og #freethenipple og #konurtala hafa valdið vitundarvakningu og mjakað þungum hlössum örfá hænuskref í rétta átt. Þau bjartsýnustu okkar leyfa sér að láta sig dreyma um framtíð þar sem kynferðisbrot eru tekin alvarlega og kynfrelsi virt. En áföllin hafa líka verið fjölmörg. Eitt það nýjasta var í raun lítið, en um leið átakanlega pínlegt ... frá svo mörgum sjónarhornum.
Hún ku vera hjúkrunarfræðingur. Hún leggur stund á blaðaskrif. Hún stærir sig af því að fjalla „opinskátt“ um kynlíf. Hljómar eins og uppskrift að einhverju góðu. Eða það hélt ég, í minni einfeldni. Nú á ég ekki heima á Íslandi og kannski fylgist ég ekki alveg nóg með íslenskum netmiðlum, en ég hélt, svona útundan mér, að hjúkrunarfræðingurinn væri að gera góða hluti. Ég er mikil áhugamanneskja um fagmennsku – og kynlíf. Það er jú alltaf þörf á fagfólki sem er til í að svara spurningum fólks um kynlíf.
En svo gerðist eitthvað. Hjúkrunarfræðingurinn skrifaði sem fyrr grein. Ég sá henni deilt á netmiðlum, furðaði mig á fyrirsögninni en ætlaði ekki að veita því meiri athygli. Þar til ég upplifði að fólk, sem ég þekki og læt mér annt um, var bókstaflega miður sín yfir greininni. Ekki af smáborgaralegri hneykslun eða af því að það er svo miklar teprur að það þoli ekki ofurlitla kynlífsumfjöllun, heldur af því að greinin ýfði upp hálfgróin sár, særði, stuðaði og kom af stað einkennum áfallastreitu. Greinin fjallaði nefnilega ekki um kynlíf sem slíkt. Greinin var klámgrein.
Nú skilst mér að um 20% þjóðarinnar séu búin að lesa greinina, ef marka má orð hjúkrunarfræðingsins sjálfs. Þess vegna ætla ég ekki að lepja upp úr henni nein smáatriði, þau sem áhuga hafa eru pottþétt búin að kynna sér málin. Eins og gengur og gerist mun smellum á greinina fækka þegar frá líður og fólk mun gleyma. Kannski eru allir nema ég þegar búnir að gleyma?
Hjúkrunarfræðingurinn mætti svo í útvarpsviðtal, þar sem klámgreinin umrædda var til umfjöllunar. Þar segir hún meðal annars „Ég er Ragga sem skrifar um kynlíf og ég má ýmislegt sem aðrir leyfa sér ekki“. Þessi fullyrðing var gerð að yfirskrift að umfjöllun um málið í einhverjum miðlum og það er þessi fullyrðing hennar sem mig langar að fókusera á, ásamt með öðru sem hún upplýsir um í þessu viðtali.
Nú sný ég máli mínu beint til þín, Ragga sem „mátt allt“. Þú talaðir jú um það í útvarpsviðtalinu að þú skyldir ekkert í því að fólk skyldi ekki snúa sér beint til þín með gagnrýni á þessa grein. Ég get ekki talað fyrir alla, en fyrir mitt leyti var það hið algera og yfirþyrmandi ógeðs- og vonbrigðatilfinning sem læsti klónum í mig þegar ég las greinina sem fyrirbyggði algerlega hverja hugsanlega löngun til þess að ræða við þig persónulega. Fyrir utan að greinin er birt opinberlega, hví skyldi ekki umræða um hana vera opinber líka? Hafandi hlustað á viðtalið er þess utan deginum ljósara að þú hefur tamið þér vægast sagt hrokafullt viðhorf til gagnrýnenda þinna. „Fámennur og hávær hópur“ segir þú. A-ha. Í kommentakerfinu við þessi merkisskrif þín var afgerandi meirihluti kvenna afar gagnrýninn í garð þessara skrifa þinna, á meðan karlar tjáðu skiptari skoðanir. Útvarpsmennirnir spurðu hvort þetta væri sami hópur og tiltekinn lögfræðingur hefur vísað til, talsmenn þess að kynferðisofbeldi verði tekið alvarlega, og það þvertekur þú fyrir.
Sannleikurinn er samt að í kommentakerfum koma sömu nöfn og gagnrýna lögfræðinginn með gagnrýni á þessi skrif þín. Og tónninn í stuðningsmönnum greinar þinnar er vissulega sláandi keimlíkur tóninum í stuðningsmönnum lögfræðingsins. Sunna Kristinsdóttir skrifaði yfirvegaða og milda grein, þar sem hún benti, á mjög einfaldan hátt, á fáeina af ótalmörgum göllum skrifa þinna. Þú hæðist yfirlætislega að henni í útvarpsviðtalinu, þegar í raun hefði verið vel gerlegt að takast á við gagnrýnina á málefnalegan hátt.
En leyf mér að útskýra stuttlega þetta með að mega – eða mega ekki. Í stuttu máli má skipta þessari pælingu – um hvað má og ekki má – í tvennt, siðferðilegt og löglegt. Fyrst skulum við taka siðferðilega vinkilinn. Nú er það svo að þessi klámgrein var birt á opnum miðli á netinu. Miðli sem er opinn hverju barni sem kann á mús eða snertiskjá – og kann að lesa. Á meðan mörg okkar hafa áhyggjur af – og beitum okkur gegn – mansali, sem skiljanlega viðgengst svo lengi sem eftirspurn er til staðar, varpar þú töfraljóma á kaup á afnotum af líkama annarra. Enn fremur ýtirðu heldur betur undir mýtuna um hamingjusömu hóruna – í þessu tilfelli konuna sem er svo ljónheppin að fá að hitta hinn fjallmyndarlega Stefán frá Íslandi og selja honum afnot af líkama sínum. Ókei, leyfum okkur, rökræðanna vegna, að ímynda okkur að til sé hamingjusamt fólk í vændi. Tölfræðin sýnir okkur samt að á milli 65 – 95% af konum í vændi hafa lent í kynferðislegri misnotkun sem barn. Tilviljun að þær velja sér þetta „gefandi starf“ í framhaldi, heldurðu? Um 80% af vændiskonum upplifa nauðgun í starfi – ein skýrslanna sem ég vitna í hér tekur reyndar fram að erfitt sé að festa nákvæma tölu hér á, þar sem vændi er í eðli sínu ekki svo óskylt kynferðisofbeldi, þ.m.t. nauðgun. Stór hluti fólks í vændi notar vímuefni til að deyfa sig tilfinningalega. Og tölur frá Kanada sýna að fólk í vændi er í 40% meiri lífshættu en fólk í öðrum greinum. En þau eru pottþétt rosalega hamingjusöm með það – sem og allt ofangreint. Og auðvitað máttu halda þessu fram. Ekki ætla ég að stoppa þig.
Klám er svo aftur eitthvað sem flest okkar áttum okkur á að hvorki þarfnast né á skilið þá upphafningu sem þú veitir því í greininni þinni. Klám, sérstaklega á borð við það sem Delta White (vændiskonan sem var svo heppin að fá að selja söguhetjunni þinni líkama sinn) er bendluð við, sýnir konur sem hluti, viðföng fantasía karlmanna. Við vitum að ungir drengir komast í fyrsta skipti í tæri við klám við 11 – 12 ára aldurinn. Fyrir mörgum þeirra verður klám aðal „kynfræðslan“ – þar sem þeir „læra“ nákvæmlega hversu mikils virði upplifun kvenna er í kynlífi. Í nýlegu viðtali í Stundinni greindi Stefán Máni rithöfundur frá því hvernig lauflétt klám (samanborið við bransa Deltu White), á borð við Bósa og Tígulgosann, hefði haft verulega slæm áhrif á hann „Af því að þar voru konur kynlífsleikföng sem gerðu allt sem þær voru beðnar um að gera, alltaf hressar og graðar. Gaurarnir voru með risatyppi og geðveikt úthald, með tvær og þrjár í einu“. Þetta er ímyndin sem þú ert að mæra. Og já, auðvitað máttu það.
En víkjum þá að lagalega vinklinum á fullyrðingunni þinni um að þú „megir ýmislegt“. Aðrir hafa nú þegar gagnrýnt að þú upphefjir og rómantíserir „viðskipti“ sem eru ólögleg á Íslandi. En það eru fleiri hliðar sem vert er að skoða. Hér er ein skilgreining á klámi sem notast hefur verið við í lögum: „Klám er ögrandi framsetning á kynlífi í auðgunartilgangi, án ástar, blíðu eða ábyrgðar...“. Það má vissulega deila um hversu „ögrandi“ þessi framsetning þín var, en þú tekur allavega af allan vafa í útvarpsviðtalinu um þitt mat, með mögulega vandræðalegustu yfirlýsingu sem komið hefur frá meint viti borinni manneskju á öldum ljósvakans: „Örugglega margir sem hafa rúnkað sér yfir þessu í gærkvöldi“ – og þegar útvarpsmennirnir efast: „Ég meina, lýsingarnar eru alveg sæmilega sexí, þú veist...“
Og viðurlögin? Nú er ég ekki löglærð, en mér virðist þetta frekar skýrt; „Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum“. Þannig að hér má vera að þú hafir aðeins misreiknað þig. Þetta er nefnilega, eftir allt saman, nokkuð sem þú mátt ekki, allavega samkvæmt mínum skilningi á þessum lögum.
Nokkrar heimildir:
http://www.althingi.is/altext/126/s/0625.html
http://www.dv.is/frettir/2015/11/19/stefan-mani-lamdi-menn-og-skemmdist-af-klami/
http://www.rapeis.org/activism/prostitution/prostitutionfacts.html
http://www.prostitutionresearch.com/Prostitution%20Quick%20Facts%2012-21-12.pdf
https://knuz.wordpress.com/2014/10/30/notallporn-hvers-vegna-skipta-godu-hlidarnar-engu-mali/
van Nunen, K., Leuridan, E., Van Hal, G., Van Damme, P., & Decorte, T. (2014). Legal and illegal drug use among female sex workers in bar and club prostitution in Belgium: A quantitative and qualitative study. Drugs: Education, Prevention & Policy, 21(1), 56-64. doi:10.3109/09687637.2013.806432
Móró, L., Simon, K., & Sárosi, P. (2013). Drug use among sex workers in Hungary. Social Science & Medicine, 9364-69. doi:10.1016/j.socscimed.2013.06.004
Askola, H. (2007). Violence against Women, Trafficking, and Migration in the European Union. European Law Journal, 13(2), 204-217. doi:10.1111/j.1468-0386.2007.00364.x
Athugasemdir