Í tilefni af óförum sannleikans fyrir íslenska réttarkerfinu undanfarið, ætla ég að rifja upp framkomu dómskerfisins og fréttamanna við okkur starfsmenn verkalýðsfélaganna. Á árinu 2005 áttu trúnaðarmenn og starfsmenn stéttarfélaganna ítrekað í útistöðum við starfsmannaleigur. Deilurnar snerust um nánast öll form réttinda sem giltu í íslensku samfélagi. Leigurnar voru sannarlega dyggilega studdar af íslenskum lögmönnum. Þar fóru fremstir lögmenn sem voru þekktir fyrir stuðning við frjálshyggju. Þeir höfnuðu kröfum um framlagningu launaseðla og annarra gagna, en þegar þeir voru komnir út í horn gripu þeir ávallt til þess ráðs að senda starfsmennina úr landi, en mættu svo daginn eftir í fjölmiðla með margs konar órökstuddar ávirðingar í garð starfsmanna stéttarfélaganna.
Sú starfsmannaleiga sem ég ætla að fjalla um varð meðal annars uppvís að því að hafa í fórum sínum PIN-númer bankareikninga starfsmanna sinna og forstjórinn fór inn á reikningana og tók út fjármuni til greiðslu á einhverjum kostnaði sem honum fannst að starfsmenn ættu að greiða. Leigan var síðar dæmd til þess að endurgreiða umræddum starfsmönnum sínum um 2 milljónir króna hverjum, en þá var í snatri skipt um kennitölu og gamla kennitalan átti ekki fyrir skuldum þannig að starfsmenn fengu ekki launin sín.
Undirrituð fundargerð ómerkt
Aðstoð íslenskra lögmanna varð til þess að starfsmannaleigurnar forhertust og framangreint fyrirtæki gekk endanlega svo kirfilega fram af starfsmönnum RSÍ að ákveðið var að birta fundargerð aðaltrúnaðarmanns og túlks hans á heimasíðu sambandsins þann 23. október 2005. Á fundinum voru nokkrir Pólverjar, forsvarsmaður starfsmannaleigunnar og verkstjórar fyrirtækisins sem var að ráða Pólverjana.
Í fundargerðinni stendur meðal annars: „Á fundinum staðfestu Pólverjarnir að þeim hafi verið bannað af forsvarsmönnum starfsmannaleigunnar að hafa samband við trúnaðarmenn, einnig kom fram að þeir hefðu verið látnir samþykkja fyrir komuna hingað að þeir borguðu 500 dollara mánaðarlega til greiðslu kostnaðar á upphaldi þeirra hérna.“
Aðeins aftar: „en þegar þeir voru að byrja sitt starf komu þeir í fylgd forráðamanna starfsmannaleigunnar á verkstæðið og voru kynntir eins og manna er siður, til að leggja áherslu á hvernig forsvarsmaður starfsmannaleigunnar taldi að best væri að umgangast mennina ráðlagði hann verkstjóra Suðurverks að ef Pólverjarnir væru með eitthvað múður skildi hann bara lemja þá, því væru þeir vanir, að sjálfsögðu svaraði verkstjórinn um hæl að þess háttar hegðun væri ekki stunduð á þessum vinnustað.“
Aðeins aftar: „Það kom einnig fram á fundinum að Pólverjarnir telja að póstur þeirra sé skoðaður og lögðu fram aðvörunarbréf sem einn þeirra hafði fengið.“
Aðeins aftar: „Þeim var skýrt frá því strax við komuna til Keflavíkur, þar sem forsvarsmaður starfsmannaleigunnar sagði við þá að ef þeir ekki stæðu sig í vinnu, tæki hann þá til Reykjavíkur þar sem þeir yrðu settir í hvaða vinnu sem er fyrir einn USDollar á tímann og borguðu honum 80.000 USD sem væri sá kostnaður sem hann hafði þurft að bera vegna komu þeirra hingað yrði að fullu greiddur, sama gilti um ef þeir skemmdu einhver tæki, hvort sem það væri viljandi eða ekki.“
Aðeins aftar; „Einnig sögðu þeir að þeim hafði verið stranglega bannað að hafa samskipti við Íslendingana á vinnusvæðinu, þar sem þeir litu á Pólverja sem fyllibyttur og þjófa. Einnig var gengið svo langt að Pólverjunum var bannað að fara í sjoppu að kaupa sígarettur.“
Tveir fréttamenn sjónvarpsstöðvanna höfðu samband við mig í kjölfar birtingarinnar á heimasíðunni og spurðu um nokkur atriði úr fundargerðinni. Þar vísaði ég meðal annars í hluta af ræðu sem ég hafði flutt skömmu áður á ársfundi ASÍ. „Um alla Vestur-Evrópu spretta nú upp fyrirtæki þar sem koma fram einstaklingar sem sjá möguleika á því að hagnast á því að nýta sér bága stöðu verkafólks úr Austur-Evrópuríkjunum. Þessir dólgar setja upp búllur þar sem þeir bjóða þetta fólk til hvers konar starfa á niðursettu verði. Sumir dólganna velja sér það starfssvið að flytja inn stúlkur og börn sem þeir selja í kynlífsþrældóm, aðrir velja sér það starfssvið að nýta sér stöðu bláfátækra atvinnulausra fjölskyldufeðra og leigja þá til vinnu á Vesturlöndum. Þar er hirt af þeim mörg þeirra félagslegu réttinda sem þeir eiga rétt á og eins hluta af launum þeirra.
Aðferðir og viðhorf þessara dólga eru nákvæmlega þau sömu og framkoman við þetta fólk er hin sama. Hugsunarháttur þessara manna er nákvæmlega hinn sami, gildir þá einu hvort sviðið þeir velja. Fólkinu eru settir afarkostir, ef það fer ekki í einu og öllu eftir því sem leigudólgarnir vilja, þá glatar það tilverurétt og er komið í óviðráðanlegar fjárhagslegar skuldbindingar við dólgana.“
„Okkur starfsmönnum stéttarfélaganna hefur verið gert að sitja undir alls konar hótunum og upphrópunum um að við förum með lygar. Allt er gert til að ekki komist hið sanna fram“
Þyngsti meiðyrðadómurinn
Lögmaður fyrirtækisins var á þessum tíma fastur gestur í fréttaskýringum Ríkissjónvarpsins þar sem hann nýtti sér ávallt aðstöðu sína til þess að úthúða stéttarfélögunum og starfsmönnum þeirra. Auk þess var hann oft kallaður í Sjónvarpið sem álitsgjafi um þau mál sem hann sjálfur flutti fyrir dómstólum!? Hann var að sjálfsögðu kallaður í fréttir Sjónvarpsins daginn eftir viðtalið við mig þar sem hann hótaði mér meiðyrðamáli ef ég héldi mér ekki á mottunni. Það var svo fyrst eftir átta mánuði sem mér var stefnt og þann16. mars 2006 komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að mér bæri að greiða forsvarsmönnum starfsmannaleigunnar og lögmanninum samtals 1,5 milljónir króna. Fyrir dóminn höfðu komið tveir verkstjórar, ásamt trúnaðarmanni og túlki og staðfest að allt sem fram hafði komið um hátterni forsvarsmanna fyrirtækisins væri rétt. Þetta var langþyngsti meiðyrðadómur sem hafði verið felldur og samsvaraði níu mánaðarlaunum rafvirkja á þeim tíma. Ef þessi upphæð er færð yfir á sams konar laun í dag, næmi þessi upphæð um 3,2 milljónum króna.
Talsmaður verkalýðsfélags var sem sagt í héraðsdómi dæmdur fyrir að birta á heimasíðu félagsins fundargerð þar sem farið er yfir hvernig starfsmannaleiga níddist á erlendum starfsmönnum. Í dómnum ræður það viðhorf að fara megi illa með Pólverja, en það sé hins vegar lögbrot að segja frá því. Í svörum mínum fyrir dómara um notkun mína á orðinu „dólgur“ benti ég á að það væri algengt orð í íslensku og notað yfir fólk sem er með yfirgang gagnvart öðrum. Fólk sem hrifsaði til sín gæði sem er eign annarra. Til dæmis flugdólgur, sem hrifsar til sín frið annarra flugfarþega, dólgur í umferðinni er lýsing sem allir skilja og þannig mætti lengi telja.
Ef litið er á dóma til dæmis um hrottafengnar hópnauðganir, þá virðist það vera smáræði í augum dómara í samanburði við ef starfsmaður verkalýðsfélags reynir að svara fyrir félagsmenn sína í fjölmiðlum. Lögmaður fyrirtækisins hafði hins vegar í innrömmuðum greinum á áberandi stað í útbreiddasta dagblaði landsins og sjónvarpi allra landsmanna ausið svívirðingum yfir starfsfólk verkalýðsfélaga, fyrir að vera ekki sammála öfgakenndum frjálshyggjusjónarmiðum hans. Hann kallaði okkur eitthvert vinstra lið, talibana og jafnvel eitthvað enn verra. En ef trúnaðarmaður reyndi að gæta hagsmuna lítilmagnans, sem fyrirtækið hafði augljóslega ítrekað fótum troðið, þá dæmdu dómstólar starfsmann verkalýðfélags í háar fébætur fyrir meiðyrði. Okkur starfsmönnum stéttarfélaganna hefur verið gert að að sitja undir alls konar hótunum og upphrópunum um að við förum með lygar. Allt er gert til að ekki komist hið sanna fram, reynt er að koma vitnum úr landi svo ekki sé hægt að upplýsa mál.
Dæmdur fyrir ummæli blaðamanna
Miðstjórn RSÍ ákvað að áfrýja dómi héraðsdóms, það væri ekki hægt að líða það að starfsmaður verkalýðsfélags væri dæmdur fyrir að birta sannleikann. Hæstiréttur sýknaði flestar ómerkingar héraðsdóms á grundvelli þess að flestar þeirra væru ekki ummæli formanns RSÍ, heldur fullyrðingar blaðamannanna og túlkanir þeirra á deilu verkalýðsfélaganna við starfsmannaleiguna. Hæstiréttur taldi að þetta væri ekki fullsannað og dæmdi hins vegar ómerk svör mín við spurningum blaðamanns um hvað stæði í fundargerðinni, þar bar hæst að forsvarsmenn starfsmannaleigunnar hefðu hvatt verkstjóra á svæðinu til að ganga í skrokk á Pólverjunum, þeir væru vanir því frá heimaslóðum. Hæstiréttur taldi að 250 þúsund krónur væri hæfileg sekt fyrir þessi ummæli mín. Þessi ummæli voru hins vegar í undirritaðri fundargerð aðaltrúnaðarmanns á Kárahnjúkasvæðinu, sem túlkur ásamt tveim verkstjórum höfðu staðfest fyrir héraðsdómi að væru rétt og þau höfðu verið á umræddum fundi.
Ég hef oft verið hugsandi yfir því hvernig fréttamenn fjalla um svona mál. Hvers vegna fjalla þeir ekki um eigin aðkomu? Hvers vegna tóku fréttamenn langt viðtal við forsvarsmann starfsmannaleigunnar þar sem hann úthúðaði verkalýðshreyfingunni og starfsmönnum hennar, þegar dómur héraðsdóms féll? En þegar Hæstiréttur felldi sinn dóm með sýknu í flestum atriðum og athugasemdum við umfjöllun fréttamanna, var ekkert fjallað um þá niðurstöðu í fréttatímunum. Í þessu tilfelli má benda á fjölmörg mál þar sem forsvarsmenn fyrirtækja og ekki síður lögmenn þeirra viðhafa gífuryrði um starfsmenn stéttarfélaganna og bera á þá þungar sakir. Lögmennirnir fá greiðan aðgang að spjallþáttunum og fréttum, en svo þegar það kemur síðar í ljós að starfsmenn stéttarfélaganna höfðu í einu og öllu rétt fyrir sér er ekki minnst á það einu orði í fréttatímum. Þegar mál vinnast fyrir dómstólum og í ljós kemur að allar þær ávirðingar sem talsmenn launamanna máttu sitja undir voru ósannar þá gera fréttamenn ekkert með það, nákvæmlega ekkert.
Athugasemdir