Nokkrum dögum áður en ég flaug til Króatíu um daginn fór ég að finna örlítinn verk í tönn sem dýrðlingurinn hann Jónas hafði potað í fyrir tæpu ári og sagt að sennilega þyrfti að gera eitthvað meira við fljótlega. Af frestunaráráttu og almennri snilld ákvað ég að láta ekkert gera meira við tönnina heldur bara bíða eftir því að hún lagaðist (eins og gerist mjög oft, eða þannig).
Þar sem ég lá og sólaði mig í litla strandbænum Porec fann ég að verkurinn í tönninni jókst. Ég át Íbúfen og Paratabs og drakk Treo og Grappa, en allt kom fyrir ekki. Verkurinn varð sífellt sárari. Mér datt þó ekki í hug að króatískir tannlæknar gætu gert neitt nema að vinna mér og tönn minni skaða og því beit ég bara á sárveikan jaxlinn.
Á sjöunda degi sögðu samferðarmenn mínir stopp. Ég yrði að finna tannlækni í Porec eða ég eyðilegði fríið fyrir þeim með kveini mínu um tönnina. Ég fór því á stúfana og pantaði tíma hjá dr. med. dent. Mario Fiskus.
Kvíða mínum fyrir þessari tannlæknaheimsókn er vart hægt að lýsa með orðum. Ég sá alveg fyrir mér einhvern vanþróaðan króatískan tannlækni, berhentan og blóðugan uppað öxlum, glottandi með glóandi tangir upp í mínum viðkvæma skolti. Og svo sá ég fyrir mér reikninginn. Ég hef ekki borgað neitt inní heilbrigðiskerfið í Króatíu. Skoðunin ein hlyti að kosta hundraðþúsundkall. Ég færi frá þessum króatíska fúskara gjaldþrota, nokkrum tönnum fátækari og sennilega afmynduð fyrir lífstíð.
„Ég sá alveg fyrir mér einhvern vanþróaðan króatískan tannlækni, berhentan og blóðugan uppað öxlum, glottandi með glóandi tangir upp í mínum viðkvæma skolti. Og svo sá ég fyrir mér reikninginn.“
Ég mætti til dr. Fiskusar náföl og skjálfandi. Það kom mér ánægjulega á óvart að ég þurfti aðeins að bíða í fáeinar mínútur, en þá var mér vísað inn á tannlæknastofu sem er líklega sú dauðhreinsaðasta sem ég hef heimsótt. Dr. Fiskus talaði súpergóða ensku og hann var dressaður eins og hann óttaðist að ég væri með ebóluna. Svo sprautaði hann í mig deyfilyfi, ofurvarlega, og var svo mjúkhentur að mér fannst ég næstum komin til himna. Til himna með ótrúúúlega myndarlegum tannlækni. Já, ég gleymdi að segja það. Dr. Fiskus leit út eins og hann hefði nýlega verið kjörinn Herra Króatía.
Þegar Dr. Fiskus hafði gert bráðabirgðaviðgerð á tönninni, skrifað upp á sýklalyf fyrir mig og skrifað orðsendingu til Jónasar, þá afhenti hann mér reikninginn. Hann hljóðaði upp á 160 kúnur, sem eru um það bil 3.200 íslenskar krónur. Ég sveif út og restin af fríinu var draumi líkust.
Hvað er þetta eiginlega? Hvernig dettur mér í hug að tannlæknar á 300 þúsund manna eyju hljóti að vera betri en tannlæknar í landi sem í búa yfir fjórar milljónir manna? Er þetta ekki einhver geggjun? Sama geggjunin og segir manni að íslenskur fiskur sé betri en annar fiskur, íslenskt lambakjöt betra en annað kjöt og svo framvegis? Íslenskt, já takk og allt það kjaftæði.
Niðurstaða: Ég er fordómafullur asni og ég kenni íslenskri þjóðrembu um. Ég veit ekki hver hefur smitað mig af henni, en fari hann í fúlan pytt. Og dr. med. dent. Mario Fiskus, þú átt sennilega ekki eftir að lesa þetta, en ... Volim te.*
* Ég elska þig.
Athugasemdir