Já. Ísland er lítið land. Lítið skrýtið land. Og stundum verður það jafnvel minna en land. Stundum er Ísland bara herbergi.
Það fannst mér um daginn, þegar Logi Bergmann tvítaði af aðdáun um Bjarna Ben sem hafði skellt í köku fyrir afmæli dóttur sinnar. Svanhildur, kona Loga, er aðstoðarmaður Bjarna Ben. Einhvernveginn fannst manni þau vera þarna öll saman í herbergi, með afmælisbarninu, já og ríkisstjórninni allri, en Simmi Dé fyrir utan, berjandi á gluggann hrópandi:
„Halló! Ég sé ykkur! Ég sé ykkur!“
Þarna var semsagt aðalfréttaþulur næststærstu sjónvarpsstöðvar landsins í herbergi með fjármálaráðherranum að dást að honum baka köku fyrir barnaafmælið, nánast ofan í hrærivélinni með honum. Síðar um daginn sáum við svo sama mann lesa frétt um sama ráðherra, og læddist að manni sá grunur að hann væri jafnvel nýkominn úr barnaafmælinu heima hjá honum, með kökuna góðu í maganum. Það var allavega einhver súkkulaðihreimur í röddinni, þegar hann las fréttina.
Stundum er Ísland bara herbergi.
Það fannst manni líka í liðinni viku þegar búvörulögin voru samþykkt með tveimur atkvæðum stjórnarmeirihlutans gegn einu mótatkvæði stjórnarandstöðunnar. Stundum er Alþingi bara herbergi, þar sem fólk er fast saman og búið að vera alltof lengi fast saman. Afstaða, andstaða, samstaða, pattstaða … þetta rennur allt í einn graut. Samningur sem gerður var í rammlæstu þingflokksherbergi Framsóknar, þar sem þybbnir karlar sömdu við þybbna karla um að þybbnir karlar yrðu áfram á fóðrum hjá íslenskum bændum, sá samningur var auðvitað augljóslega hættulegt spillingarefni þegar hann var borinn út úr þingflokksherberginu og inn í þingsal, en eftir að hann hafði legið þar nokkra mánuði útí horni var hann nánast hættur að stinka. Fólk var allavega alveg hætt að finna lyktina af honum, eða kannski orðið samdauna honum, en samt sem áður alveg til í að losna við hann úr því hátíðlega herbergi.
Rétt þar á undan höfðum við verið upplýst um það (loksins) hvaða aðferðum Össur Skarphéðinsson beitir allajafna í prófkjörunum í Samfylkingunni, sem hann vinnur alltaf með þriggja rútu mun, og bíður þeirra svo á bensínstöðinni bakvið prófkjörið og gefur öllum N1 vegabréf að launum. Í Samfylkingarherberginu var samstaða um að þegja þetta af sér, Doninn var enda sjálfur á staðnum og leiðinlegt að fara að minnast á þetta við hann. Hann var allavega ekki með „óútskýrða fjarvist“ eins og hann var við 625 atkvæðagreiðslur í þinginu eitt árið, samkvæmt síðustu fréttum.
En við þekkjum öll þessa tilfinningu. Návígið gerir okkur öll að vinum. Enginn stundar skítkast í veislunni miðri.
Af þessum sökum til dæmis eru íslenskar bíómyndir alltaf bestar á frumsýningunni. Leikarar og leikstjóri eru í salnum, áhorfendur rjúka upp um hálsinn á þeim þegar ljósin kvikna og koma svo út með fimm stjörnur í augum. Viku síðar er myndin kannski ekki alveg svona góð. Þetta er líka ástæðan fyrir öllum útgáfuteitunum í bókmenntaheiminum. Í útgáfuteitum verða allar bækur góðar og ættingjarnir fara heim jafn sælir og höfundurinn sem sofnar pottsannfærður um ágæti verks síns. Þá skiptir litlu þótt dómar verði misjafnir þegar þeir loks koma, þeir hverfa bara inn í hnausþykka sigur-teitis-tilfinninguna eins og krækiber í rjóma.
Af þessum sökum sækjum við í návígið.
Við erum bara þannig fólk. Ein stór fjölskylda. Og ef einhver úr fjölskyldunni er yfirlýstur fáviti, með Þjóðfylkingar-tattú á enninu og Trump-hárkollu, og auk þess þrjár nýlegar nauðgunarkærur sveimandi yfir höfði sér, (sem valda því að gervihárið rís æði rafmagnslega upp af hvirflinum) þá getum við reynt að leiða hann hjá okkur, og gerum það, alveg þar til við lendum við hliðina á honum við langborðið, þá gerum við samkomulag (sem er samt svona hálfgert „shame-komulag“) sem segir: Ég veit að þér finnst ég vera fáránlegur, og fyrir mér ert þú fastur á banalstiginu, en við skulum samt reyna að haga okkur, reyna að tala saman, um körfuboltalandsliðið, víkingaklappið og ferðamannastrauminn, já og jeppann sem þú varst auðvitað að gera upp! Við reynum að beina umræðunni út fyrir vissa varnargarða sem við höfum reist í huganum. Og já, jafnvel fávitinn með Trump-kolluna kann þennan leik.
Þannig virkar íslenska meðvirknin. Við látum eins og þú, réttdræpur fasistinn, sért annar maður en þú ert. Við búum til úr þér nýja persónu. Við tölum við þinn „betri mann“. Um leið og við látum af okkar eigin helstu kröfum. Með öðrum orðum: Þú ert ekki þú og ég er ekki ég. Við erum hérna bara svona tveir landar að blanda geði. Íslendingar á flughafnarbar í útlöndum, eða fastir saman í geimhylki á leið til Mars. Við erum svo góð í þessum leik að við þurfum ekki einu sinni að ávarpa hann eða finna honum nafn, svo djúpt er hann okkur í blóð borinn.
Þetta er enda eina leiðin. Annars væri ekki líft hér á þessu landi. Í þessu herbergi. Hver var annars að reka við?
Allt þetta kom upp í hugann um liðna helgi, þegar 300 framsóknarmenn lokuðu sig af í einu herbergi norður í Mývatnssveit með formanni sínum, sem hafði fært þeim glæstan kosningasigur fyrir þremur árum, en hafði í millitíðinni skipt hásæti landsins út fyrir einn panamahatt. Sat nú þarna samt í salnum og vonaðist eftir endurkjöri, en hafði óvænt fengið þrjú mótframboð í andlitið. Þetta var orðið vægast sagt vandræðalegt, og viðstaddir gerðu auðvitað það eina rétta í stöðunni: Klöppuðu kappann upp á svið með júhú-hrópum og gáfu honum allt sitt traust, kannski vegna þess að hann hafði ekkert sjálfur, en mest þó til þess að þetta yrði nú ekki ennþá vandræðalegra, fyrir hann og fyrir þau. Fólk hefði bara ekki afborið þá þjáningu að þurfa að horfa upp á Sigmund Davíð springa í loft, úr harmi, fyrir framan það.
Hér náði íslenska meðvirknin og moðvirknin hæstu hæðum. Öll framsóknarherbegi landsins, sneisafull af skynsömu fólki, voru þegar búin að álykta gegn formanni sínum, það eina sem ekki gat það var herbergið þar sem formaðurinn var sjálfur staddur í. Sjálfsagt hafði hann mætt manna fyrstur, stillt sér upp í anddyrinu og tekið fagnandi og faðmandi á móti öllum eins og þetta væri hans eigið fimmtugsafmæli. Hvernig átti þá fólkið að geta annað en kosið hann? Maður eyðileggur ekki fimmtugsafmæli með því að vísa afmælisbarninu á dyr.
Stundum er Ísland bara herbergi.
Hér skipti engu máli þótt formaðurinn hefði hrökklast úr embætti forsætisráðherra með skömm, fyrir aðeins nokkrum mánuðum, eftir að hafa hlotið eldsnögga endemis-heimsfrægð þegar hann reyndi eins og hann gat að ljúga sig frá sannleikanum í sænskum sjónvarpsþætti, né heldur sú staðreynd að hann geymir ennþá auð sinn og konu sinnar í skattaskjóli, á Tortóla, utan hins íslenska efnahagskerfis, hann sem var þó eitt sinn hæstráðandi þess. Trúverðugleiki mannsins hafði horfið á einni nóttu, fyrir hundrað nóttum síðan, en samt tókst honum að sannfæra 300 alls ógalna Þingeyinga til fylgis við sig, með gömlu góðu íslensku aðferðinni:
Að vera í herberginu.
Íslenska herbergisaðferðin er nefnilega ansi mögnuð. Í vor sáum við Davíð Oddsson komast nokkuð langt á henni, þó ekki nema upp í 13,7%, hann hefði þurft að vera duglegri, taka minnst 17 herbergi á dag. Eitt var alls ekki nóg. En þetta virkaði samt alls staðar sem hann kom: Umdeildur maður heldur opinn fund og fólkið mætir, forvitið að berja hann augum og fer síðan smám saman að finna til með honum, hann er búinn að koma sér út í vonlausar aðstæður og er greinilega ekki alveg í takti við samtímann og samfélagið. Hérna kikkar íslenska samlíðunin inn, eða eigum við að segja íslenska herragæskan, og fólk fer af fundi staðráðið í að láta frambjóðandanum líða betur.
Í Framsóknarflokknum dugir hins vegar bara eitt herbergi til að komast á lista og annað til að halda formannssætinu. Þetta lítur því bara nokkuð vel út fyrir Sigmund, og reyndar fyrir okkur hin líka, því í okkar augum er Simmi Dé á góðri leið með að jaðarsetja flokkinn sinn, við fáum þá kannski fjögurra ára frí frá Framsókn. Með þessu endurkomubrölti sínu er hann breyta flokknum sínum í hóp svolítið skemmtilegra Bakkabræðra, sem henda má gaman að, en eru kannski ekki rétta fólkið til að fara með stjórn landsins. Því þessa dagana hljómar Framsóknarmaðurinn einhvern veginn svona:
„Ég bara, þú veist, vorkenni honum. Þetta er örugglega ógeðslega erfitt. Hann er bara búinn að vera að plata fólk og ég veit að manni líður ekki vel þá. Hann er bara svona einn stór samviskubiti. Og svo er konan hans líka ríkari en hann, og það er náttúrlega rosalega erfitt sko, fyrir kallamann. Já. Fyrir hvern einasta kallamann er það mjög erfitt sko. Hann átti náttúrlega bara að taka peninginn af henni en það má víst ekki, útaf þessu jafnrétti. Ég bara sko vorkenn i… ég er bara að tryllast af vorkennslu í hjartanu og langar bara að kjósa hann. Já. Sigmundur Davíð. Hann er bara minn formaður, forseti, ráðherra, allt. Sigmundur Davíð. Ha ha ha ha ha! Hann er góður. Er það ekki? Sigmundur? Ég held það, sko.“
Athugasemdir