Fimmtán ára gamall fór ég ránshendi um bókabúð Máls og menningar á Laugaveginum. Ég skautaði upp á efri hæðina í annarlegu ástandi, stakk nokkrum kaffiborðsbókum undir peysuna og ráfaði óléttur út. Þetta voru rándýrir múrsteinar um rússnesk tónskáld sem ég gaf bróður mínum í afmæligjöf. Hann varð orðlaus af undrun því að ég hafði aldrei fært honum gjafir – ef frá eru talin jólin þar á undan þegar ég gaf honum og pabba sameiginlegar nærbuxur og var vísað á dyr.
Stundum stal ég í gríni. Reif nammi af skenknum úti í sjoppu og þaut með það út á götu. Í París stakk ég á mig penna í stórmarkaði en var gripinn af öryggisvörðum og látinn skrifa upp á plagg með játningu áður en þeir slepptu mér aftur. Þessu smáþjófnaðartímabili lauk þegar ég rændi strigaskóm á Laugaveginum. Verslunarstjórinn hafði aldrei séð annað eins. Rúmlega tvítugur maður á bullandi námslánum að stela hvítum strigaskóm? Af hverju varstu að þessu?
Bara, sagði ég. Mig langaði til þess.
Nokkrum mínútum síðar sat ég lúpulegur í baksæti Svörtu Maríu efst á Barónsstíg og starði á grá hár á hnakkaspiki bærast undan mávahúfu í takt við talanda miðaldra manns. Mér yrði sleppt ef ég stæli aldrei aftur. Ég stóð við það – þangað til að ég lærði á tölvu, tæpum áratug síðar.
Þegar ég fór fyrst að fikta við tölvur voru á sveimi nördar sem enginn hafði þolað en fengu nú uppreisn æru sem ofvitar í tæknimálum. Þeir dreifðu efni eins og dópsalar nema nú var ekki talað um svartan afgan og spítt heldur boðið upp á glampandi geisladiska með Freehand, Quarkxpress, Painter og Corel draw. Aðal myndin í bíó var Hackers með Angelínu Jolie, Bill Gates þótti kyntákn og frasar á borð við „framtíðin er núna“ lágu í loftinu. Hjá nördunum fékk maður forrit fyrir slikk sem hefðu kostað stjarnfræðilegar upphæðir úti í búð. Þegar ég fór að vinna í DV-húsinu upplifði ég hvernig starfsfólkið hjálpaðist að við að deila hugbúnaði; engri heilvita manneskju datt í hug að borga fyrir Photoshop eða Word.
Um aldamótin vann ég á vefstofu sem var með áttatíu manns í vinnu og tapaði átta milljónum á dag. Þarna varð til eitt helsta klámmyndasafn Norðurlanda á stuttum tíma því barnungur kerfisstjórinn sat flest kvöld og hlóð niður þvílíku magni af erótísku efni að Austurstrætið nötraði ennþá af frygð þegar starfsfólkið mætti á morgnana. Það var klippt táknrænt á þessa amerísku sáðrás þegar þoturnar flugu á risatyppin í New York. Íslenska netbólan sprakk og mörg okkar soguðust inn í bankana til að undirbúa næsta fjármálahrun en aðrir hurfu til útlanda í leit að ævintýrum, þar á meðal við hjónin.
„Spúsa mín talaði heilshugar gegn glæpsamlegu athæfinu, glórulaus um að helvískur eiginmaðurinn væri úti í horni að dæla niður Twin Peaks-seríunni.“
Fljótlega upp úr þessu fór ég að hlaða niður efni með svokölluðum Torrent-skrám. Líkastur óðum krakka í sælgætisbúð safnaði ég bíómyndum eftir Fellini og Saura inn á fimm hundruð gígabæta diska og réttlætti athæfið með því að þetta væru listaverk sem væri erfitt að nálgast eftir löglegum leiðum. Ég gaf mér þó sjaldnast tíma til að horfa á mynd því það var miklu skemmtilegra að leita uppi næstu skrá. Botninum náði ég þegar konan mín tók þátt í átaki gegn niðurhali. Heilt kvikmyndateymi athafnaði sig inni í stofu meðan spúsa mín talaði heilshugar gegn glæpsamlegu athæfinu, glórulaus um að helvískur eiginmaðurinn væri úti í horni að dæla niður Twin Peaks-seríunni.
Smám saman varð þetta of mikið vesen. Fyrstu árin hafði verið nóg að ná í skrá með lykilorðum til að opna flest forrit en undir lokin gerðu fyrirtæki eins og Adope mér erfiðara um vik – um leið og ég varð uppteknari af því að skrifa bækur.
Þegar við hjónin fluttum til Berlínar fékk þýska stálið mig endanlega til að hætta að hala niður efni. Höfundarréttarstofa Þjóðverja, hin hræðilega GEMA, þefaði uppi og sektaði þá sem nýttu sér Torrent-skrár.
Ránsferli mínum lauk loks formlega í sumar þegar harði diskurinn í fartölvunni hrundi á ferðalagi. Öryggisafritið var staðsett í Berlín og því lá ekki beint við að setja upp nýjan disk með spegli af þeim gamla, líkt og áður. Við nánari athugun sá ég að forrit sem ég hafði verið háður árum saman höfðu hríðfallið í verði, mörg þeirra voru seld í mánaðarlegri áskrift með sjálfkrafa uppfærslum. Forritið Macjournal, sem hafði mótað allan minn rithöfundarferil, kostaði innan við tíu þúsund krónur svo það virtist fáránlegt að stela því. Og bíómyndir gat ég nálgast á Netflix fyrir nokkrar evrur á mánuði. Úrvalið reyndar takmarkað en lagaðist með hverri vikunni sem leið. Bíómyndir eftir Fellini gat ég keypt úti í búð og þannig var ég líklegri til að horfa á þær.
Framtíð skapandi lista á netinu er björt. Í netveitum morgundagsins mun ég geta leitað að bútum úr íslenskum bíómyndum eða hlustað eftir röddum foreldra minna sem unnu við útvarp um það leyti sem ég fæddist. En til að sú framtíðarsýn geti orðið að veruleika verður að betrumbæta lögin um höfundarrétt og byggja upp miklu betri veitur.
Ráðast verður á rót vandans sem er sá að stórfyrirtækin eru hinir einu sönnu þjófar. Bæði internetfyrirtækin og netveitur á borð við Spotify sem græða á tá og fingri meðan listamenn fá sorglega lítið í sinn hlut.
Það gengur hægt að laga þessi mál því inngróin virðing pólitíkusa fyrir fjármálaöflum er sterk. Það er freistandi að hæðast bara að Jakobi Frímanni, þrástagast á að það að deila stafrænu skjali sé eins og að lána bók af bókasafni og uppnefna rithöfundinn Einar Kárason vonlausa risaeðlu sem neiti að horfast í augu við nútíma tækniframfarir. Þess konar framfarir að Tóti tölvuhjassi geti hlaðið niður Fellini í friði fyrir ofbeldi yfirvalda. En Tóti tölvuhjassi er hin eina sanna risaeðla. Ef hann getur ekki hætt að safna skrám af sjálfsdáðum verður hann að fá hjálp til þess, alveg eins og aðrir fíklar.
Athugasemdir