Ástæða er til að vekja á því athygli að þessi grein var skrifum með það í huga að birtast bændum beint í Bændablaðinu. Það gekk ekki sökun þess að ég gat ekki fengið ákveðið svar um birtingu í næsta lagi né um það hvort greinin yfirleitt fengist birt. Ég gat ekki sætt mig við að umræða um þetta brennandi mál væri þannig tafin um allt að því mánuð. Ritsjórinn sagði að ritstjórnarstefnan (hvað birtist hverju sinni) sigldi öðru fremur eftir blæstri á auglýsingamarkaði hverju sinni. Ég hef því alla tíð misskilið tilgang Bændablaðsins sem ég hélt í fávisku minni að væri að vera í brennidepli umræðu um landbúnaðarmál á hverjum tíma.
Staða og umræðan í dag
Miklar blikur eru á lofti í íslenskum sauðfjárbúskap nú á haustdögum. Á sama tíma og bændur eru að heimta fé af fjalli betur á sig komið en dæmi munu um nokkru sinni áður er tilkynnt um verulegar verðlækkanir á afurðaverði til bænda.
Eðlilega hafa þessir atburðir kallað fram mikil viðbrögð í fjölmiðlum. Eftir þetta reiðarslag eru margir bændur eðlilega í uppnámi og margt sagt sem betur hefði mátt hugsa. Þegar þetta er skrifað 11. september þá finnst mér að ekki sé margt komið fram í þessum málum sem borið er fram af rökhyggju og köldu mati á aðstæðum nema mjög gott viðtal við Steinþór Skúlason í síðasta Bændablaði og þar skrifar einnig umhugsunarverðan pistil Baldur Grétarsson. Í því blaði birtist um leið innantómt raus þeirra formannannanna, Sindra og Þórarins, þar sem eins og áður fara ráðavilltir og hugmyndasnauðir menn. Í DV er kostulegt viðtala við framkvæmdastjóra LS og í öllum ósköpunum var aðeins hjákátlegt að sjá í viðtölum við bændur um viðbrögð við tíðindunum birtast Einar Ófeig sem var einn mannanna sem stóð að óbótasamningunum í vetur og síðar verður vikið að.
Þessi grafaalvarlega staða sem nú er komin upp krefst hins vegar fastra og öruggra viðbragða og þar er ekki eftir neinu að bíða. Um leið verða sauðfjárbændur að vakna af dvala og skoða stefnumótum sína til lengri tíma af miklu meiri alvöru en áður hefur verið gert. Stefnumótunarumræða af hendi tveggja síðustu formanna LS hefur aldrei nokkur verið og fyrir það m.a. brennur greinin í dag. Ein afleiðing þess er að það er miklu minna fyrir hendir af haldbærum gögnum en áður var til að byggja umræðu á. Ein sterkasta hugmynd tveggja síðustu formanna BÍ (verð að segja hugmynd um Sindra gæti verið hugsjón Haraldar þar sem hann veit hvað hugsjón er og hefur slíkar, að vísu misjafnar og sumar eins og þessi talsvert vanhugsaðar) hefur verið að koma sem allar mestu af hagtölusöfnun frá stofnuninni, mest yfir til MAST þar sem margt af því er í skötulíki. Eitt fyrsta verkið sem fyrir liggur er að koma skikki á slík mál vegna þess að mál verður að sækja með rökum og í þessu tilviki þarf oft að sækja þau í slíkar tölulegar staðreyndir.
Tilgangur greinarinnar
Ég vil í þessari grein reyna að benda á fjölmörg atriði sem fyrir liggur að skoða vandlega og móta breytta stefnu á grunni staðreynda. Von um einhverjar skyndilausnir skal enginn gera sér, væru þær til hefði einhver byrjað að vinna eftir þeim nú þegar. Málið er flóknara en svo. Byrja þarf á að gera kort af verkefninu og skrif mín geta í besta falli verið punktar í þeirri mynd. Verkið er hins vegar orðið miklu stærra og vandasamara en þyrfti að vera vegna slugs og verkleysis tveggja síðustu forystumanna BÍ og LS. Í vinnunni sem framundan er verður að velta við hverjum steini og endurskoða hugmyndir ef þörf er.
Flestir munu sammála um að sá bráðavandi sem nú brennur er kominn til vegna mikils verðfalls á flestum stærstu erlendum mörkuðum, bæði vegna styrkingar krónunnar en einnig gengishruns aukalega í stærstu viðskiptalöndunum með sauðfjárafurðir, Bretlandi og Noregi. Afurðastöðvarnar voru fyrir komnar flestar í ákaflega bága stöðu vegna þess að verðlagningin haustið 2015 reyndist að hluta óraunhæf. Þó að þannig sé einfalt að greina áhrifamestu þættina og marga þeirra höfum við enga stjórn á þá er vandi okkar að greina afleiðingar, skipuleggja viðbrögð og velta fyrir okkur hvað hefði getað stuðlað að annarri þróun mála.
Staða afurðastöðvanna
Ég vel að byrja á að snúa mér að nokkrum spurningum um málefni afurðastöðvanna. Ég tel með öllu ómarktæka gagnrýni um að stöðuna nú megi kenna sláturleyfishöfum. Munum að afurðastöðvarnar eru langflestar í eigi bænda sjálfra og væri svo hafa stjórnir þeirra gersamlega brugðist hlutverki sínu og þar sitja bændur á fleti fyrir. Ég vil meira segja ganga það langt að fullyrða að sauðfjárbúskapur í landinu á fáa traustari fagmenn í dag en Steinþór Skúlason og Ágúst Andrésson þannig að aðeins séu nefndir þeir sem þar standa í fremstu víglínu. Barátt LS í að beina spjótum að þessum aðilum er því dæmd sem herferð Don Quiexote. Þess í stað liggur í augum uppi að koma verður á enn nánara samstarfi á milli bænda og afurðastöðvageirans. Þetta verður að vinna sem ein heild eigi dæmið að ganga upp.
Þrátt fyrir það eru fjölmargar spurningar sem eðlilegt er að spyrja og skoða betur þegar heildarendurskoðun fer fram. Skoða þarf á hvern hátt sláturkostaðar hefur verið að þróast síðustu tuttugu árin. Komi þar fram misfellur verður að leita skýringa á þeim. Mögulega hafa fjárfestingar einhvers staðar farið úr böndunum. Mest grunar mig samt að hlutur þeirra aðila sem hafa einkaleyfi á að stela peningum, bankanna, sé hvað mestur í þessu sambandi, eins og reyndar á öllum framleiðslustigunum. Þá ættu tölur síðustu tveggja áratuga að geta varpað einhverri mynd á hagræðinguna í þessum rekstri. Skilaði hin mikla fækkun sláturhúsa mögulega ekki því sem til var ætlast? Komi þar óvænt svör þarf að bregðast við því. Síðan er gömlu sígildu spurningarnar eins og hvort lenging sláturtíma með meiri samvinnu bænda og afurðastöðvanna geti bætt rekstur þeirra. Öllum mögulegum hagræðingarmöguleikum þarf að velta fyrir sér. Hin tímabundni rekstur sláturhúsanna er innibyggt óhagræði einn og sér.
Þáttur verslunar
Það er flestum ljóst að sá hluti útsöluverðs dilkakjöts sem skilar sér til framleiðandans er með öllu óviðunandi. Greinilegt er að einhvers staðar í ferlinum er alvarlegur leki. Mögulega víða. Hann verður ekki fundinn nema með sem traustustum upplýsingum um alla þætti ferilsins.
Verslunin hefur verið ásökuð um að taka of mikið til sín í þessum ferli. Þó að Sindri og Þórarinn telji sig sterka munu stundum alveg órökstuddar fullyrðingar þeirra og óbótaskammir í þeim efnum í garð verslunarinnar engu skila og því síður líkamlegir kraftar þeirra. Einnig hér verður að að fara yfir málin og byggja á upplýsingum sem allir aðilar geta sammælst um. Ýmis skattlagningamál gagnvart ríkinu munu jafnvel vera skoðunarverð í þessu samhengi. Í öllu falli er ljóst að baráttuna hér verður að byggja á traustum gögnum. Fullyrðingar og formælingar eru slæmt veganesti. Hér er verið að kljást við sterkasta aðilann í ferlinum. Samkvæmt flestum veraldarlögmálum er því alls ekki ólíklegt að þar sé um leið einn af stærri göltunum að flá sé þá virkilega að finna í ferlinum.
Innanlandsmarkaðurinn
Innanlandsmarkaðurinn er og verður lang veigamesti markaður fyrir íslenska dilkakjötið enn um langt árabil. Þess vegna hlýtur farsæl samvinna í markaðsstarfi á þeim vettvangi að vera mikilvæg. Þar hlýtur náin samvinna afurðastöðva, verslunar og framleiðenda að vera farsælasta leiðin. Þar eiga sauðfjárbændur sjálfir sem framleiðendur stórt hlutverk sem eðlilegt er að sé veitt forysta af hendi LS. Umfang slíks starfs síðasta áratuginn held ég hafi því miður verið alltof lítið.
Einn hluti innanlandsmarkaðarins þar sem misbrestur hefur orðið á á allra síðustu árum er að láta lambakjötið ná hlutdeild í þeim geysivaxandi markaði sem neysla erlendra ferðamanna eru. Í þeim efnum hafa sláturleyfishafa mögulega gert minna en skyldi. Hlutur dilkakjötsins ætti áreiðanlega að vera meiri þar en verið hefur. Framkvæmdastjóri LS hefur unnið að átaki þar á þessu ári, sem hann segir hafa skilað sér vel og komandi talnasöfnun um þróunina mun vonandi staðfesta. Allt segir að þarna sé miklu meira að sækja en orðið er.
Útflutningur dilkakjöts
Útflutningsmál dilkakjöts verða ekki gerð að stóru umræðuefni hér. Sú saga er saga hinna stóru vonbrigða. Möguleikar á því sviði eru að mínu viti samt verulegir en þar þarf að læra af reynslunni. Ég held að bændur sjálfir eigi að treysta sér sjálfum jafn vel og auglýsingastofum til að meta þá sögu. Gerum okkur grein fyrir að mesta áfallið í augnablikinu er vegna peningamálaþróunar í öðrum löndum sem við höfum ekki minnstu áhrif á. Eina af atburðum ársins sem rekja má til eigin athafna er frelsisferð landbúnaðarráðherra sem þá var titlaður utanríkisráðherra til Úkraínu. Þó að forsætisráðherra þáverandi byggi yfir mikilli reynslu af að koma fyrir verðmætum í öðrum löndum kom hann ráðherranum því miður ekki fyrir austur þar til frambúðar. Samkvæmt fréttum sækja stjórnarhættir stjórnvalda þar samt ótrúlega mikið til þess sem flokkur þeirra hefur öðrum meira verið bendlaður við. Hefði hann því fljótt átt að verða hagvanur á sléttunum austur þar.
Hvað best verk í útflutningsmálum dilkakjöts eru að mínu mati áralangt starf Baldvins Jónssonar við að koma því á sérmarkaði Vestanhafs. Þann veg þarf að ryðja frekar og einnig á fleiri stöðum. Í útflutningsmálunum verða bændur samt líka að gera sér grein fyrir að hluta vandans sem springur nú í andlit þeirra má rekja til afnáms á útflutningsskyldu sem þeir stóðu sjálfir að í búvörusamningum. Reynslan í þessum málum hefur að lokum samt vonandi kennt okkur það sama og langstærstu útflutningsþjóðar heimsins á þessari vöru, Nýsjálendingum, að árangursríkt útflutningsstarfs verður að vera á einni hendi en ekki í höndum margra sláturleyfishafa sem fara að undirbjóða hvorn annan á erlendum mörkuðum. Þar er smæð okkar slík að það þolum við ekki í þeirri samkeppni.
Búvörusamningar
Víkjum síðan að nokkrum málum sem fyrst og fremst er bænda að takast á við sem liggur í hlutarins eðli að eru erfiðust. Í tíð tveggja síðustu formsanna LS hefur allt starf sem flokka má sem stefnumótun legið í láginni. Einhverju sinni kallaði Sindri til einhverja auglýsingastofu til slíkra starfa. Fólk sem af eðlilegum ástæðum vissi hvorki í þennan heim né annan um þessa atvinnugrein og árangur þess starfs í samræmi við það. Þessum þætti var ætíð áður sinnt talsvert af formönnunum sem störfuðu á undan þessum peyjum og yfirleitt nokkur umræða á aðalfundum. Því miður hefur þessi umræða að miklu dáið.
Talsverður hluti af tekjum sauðfjárbænda kemur frá sauðfjársamningi. Af eðlilegum ástæðum þá fer fram veruleg stefnumótun með samningsgerð við ríkið þar sem utanaðkomandi aðili er kominn að borðinu. Sagan sýnir að misjafnlega hefur gengið að koma málum fram á þeim vettvangi. Steininn tók þó úr í þessum málum við samningagerð á síðasta vetri. Þar sömdu fulltrúar bænda að því er virðist að miklu af eigin frumkvæði yfir sig tilsvarandi ógöngur í sauðfjárræktinni til lengri tíma og tímabundin kreppa í afurðasölumálum skapar nú. Ég hef mikið skrifað um þessi mál síðan og verð þess var að fleiri og fleiri bændur eru að átta sig á þeim ósköpum sem þarna gerðust. Málið rek ég ekki hér en bendi á margar greinar sem birst hafa víða, flestar á netmiðlum þar sem Bændablaðið hefur neitað þeim birtingar en hinn eðlilegi vettvangur rökræðu hefði þó verið þar. Mikill hlutur Tjörva Bjarnasonar í því máli verður ekki rakinn hér, bíður betri tíma síðar. Aðeins minnst á að hann er orðinn reynslumestur allra Íslendinga í að halda faglegu efni frá íslenskum bændum. Alþingi hefur gefið þessum samningum falleinkunn. Merk nýmæli komu frá ráðherra, landgreiðslur, en hvorki þeim né öðrum verri nýmælum ráðuneytis var svarað með nokkurri skoðun eða vinnu frá hendi BÍ eða LS. Ráðherra hafði samt boðað landgreiðslur strax við setningu búnaðarþings 2014 þannig að tíminn til starfa átti að vera nægur.
Hér verð ég að leyfa mér smá innskot laustengt umræðuefninu. Það sárgrætilegasta af hendi BÍ við búvörusamningagerðina er að árið 2014 boðaði landbúnaðarráðherra í raun BÍ til umræðu um nýja sýn. Umræðu við þjóðina sem búvörusamningar eiga að vera. Á annan hátt geta þeir aldrei orðið til frambúðar. Þá hafði landbúnaðurinn um langt árabil búið við sanngjarna og tiltölulega málefnalega umfjöllun hjá fjölmiðlum. Þessu tilboði hafnaði stjórn BÍ. Kallaði í framhaldinu yfir sig ósköpin með búvörusamningunum sem enn veltast á Alþingi. Um leið kallaði hún yfir sig hreinan umsnúning hjá þjóðinni og fjölmiðlum í umfjöllun um landbúnaðarins sem tengist einnig öðrum handabakavinnubrögðum í tengslum við samningana. Þrátt fyrir allt þetta virðist Sindri ekki enn skilja að eina óumdeilda ákvörðunin sem hann getur tekið gagnvart íslenskum landbúnaði er að segja af sér. Nógum skaða hefur hann þegar valdið.
Innri mál sauðfjárbænda
Snúum okkur aftur að nokkrum atriðum í málefnum sauðfjárbænda sem ekki verður endalaust umflúið að reyna að finna lausnir á.
Eins og áður segir er búvörusamningur stefnumótandi og samningur lands og þjóðar um stuðning við þessa atvinnugrein. Það hlýtur að krefja bændur um enn skýrari sýn um það hver markmið þessa stuðnings eiga að vera til framtíðar.
Sauðfjárræktin er eina grein landbúnaðarins sem segja má að stuðli lengur að viðhaldi byggðar í landinu. Það er einfaldlega eðli greinarinnar. Nú er fráleitt að þessi grein geti ein staðið undir slíku en bresti hún brestu margt um leið. Í mest vaxandi atvinnustarfsemi landsins í dag ferðaþjónustunni held ég að sé sterkur bandamaður í dag ef rétt er á málum haldið. Ekki verður séð að stór árangur hafi náðst í ferðaþjónustunni í að markaðssetja eyðibyggðir sem samt eru meira en nægar hér á landi. Ljóst er að ferðamenn sækja hingað lifandi mannlíf og náttúru og víðáttur hálendisins. Til að viðhalda lifandi dreifðri byggð verður því sauðfjárbúskapur hluti af málinu. Á þessu þarf að skapa sameiginlegan skilning þessara greina. Þjóðin mun styðja skýra stefnu í þessum málum.
Augljóst virðist að til frambúðar verður að gera þær kröfur til sauðfjársamnings að framlög sem falla til framleiðslu í greininni skili sér til íslenskra neytenda en ekki sem dulbúinn stuðningur við útflutning. Þetta virðist mér það augljóst að ekki þurfi margt að ræða.
Landnýtingarmál hafa orðið heit mál í umræðu um sauðfjárframleiðsluna. Ég leyfi mér að fullyrða að ofbeit er ekki lengur að finna hér á landi svo nokkru nemi en því miður hafa þau örfáu slík mál nánast legið óhreyfð frá hendi eftirlitsaðilans (Landgræðslunnar). Landnýtingarmál verða hins vegar í sambandi við þróun sauðfjárbúskapar að fara í gegnum hreinskipta umræðu allra aðila. Fyrirfram skal því ekki neitað að til greina geti komið að friða tiltekin skilgreind landsvæði alveg fyrir sauðfjárbeit. Komi til áframhaldandi stuðningur til landeigendur á slíkum svæðum félli hann undir annað en stuðning við sauðfjárbúskap. Annað mál þessu tengt sem bændur verða að finna betri og varanlegri lausnir á en nú er eru lausaganga sauðfjár á vissum svæðum. Hér er fyrst og fremst um að ræða svæði sem liggja að mestri umferð og einnig þar sem landnytjar eru orðnar það breytilegar og ólíkar á landsvæðum þar sem lausaganga sauðfjár kann að valda óskunda.
Stærsta vandamálið sem bændur standa samt frammi fyrir að leysa sín á milli er hvaða sauðfjárbúskap skal styrkja til lengri tíma litið. Það er alveg ljóst að sú helstefna með að dreifa stuðningi sem mest eins og samningurinn frá í vetur gerði ráð fyrir er það versta af öllu vondu. Þegar hefur verið nefndur stuðningur á grunni þess að viðhalda dreifðri byggð. Stétt sem hefur einhverja sómatilfinningu mun einnig sjá til þess að aldraðir bændur á jörðum þar sem því miður ekki verður endurnýjun í búskap þegar starfsdegi núverandi ábúenda líkur fái að njóta óbreytt stuðnings til eðlilegra búskaparloka. Allir sem til þekkja í sveitum landsins vita að þetta er því miður of stór hópur.
Vandinn er skipting á þann hóp sem eftir stendur. Mín skoðun er að til lengri tíma verði á engan hátt varinn stuðningur nema á þeim grunni að styðja eigi lífvænlegan fjárbúskap til frambúðar fjárbúskap sem skapar mannsæmandi tekjur.
Tölulegar upplýsingar um það hvar slíkur búskapur er sterkastar með tilliti til þessa um leið að horft er til landnýtingarmála en þó öðru fremur sjálfbærni búskaparins eru sem betur fer það miklar fyrir hendi innan stofnanna landbúnaðarins að slíka greiningu á ekki að vera vandasamt að gera. Þegar þetta langt er komið í marmiðssetningum stuðnings fara ákvarðanir virkilega að taka á. Því miður verður stefnumörkum í þessum efnum samt ekki skotið á frest til eilífðarnóns.
Framtíðarþróun
Engum verður að sjálfsögðu bannað að stunda fjárbúskap. Þeir þróa sína framleiðslu einfaldlega án opinbers stuðnings. Möguleikarnir eru þar áreiðanlega fjölmargir. Í eðli sínu er til viðbótar framleiðsla eins og undir merkjum beint frá býli eða lífrænnar framleiðslu þegar horft er í grunninn best komin undir merkjum opins markaðar. Þessar afurðir byggja í grunnin á að vera minnihlutaframleiðsla á markaði og síðari hlutinn auk þess að hluta trúarbrögð sem aldrei er hollt að þróa í samningum. Eðlilegust þróun slíkrar framleiðslu verður því í miklum tengslum við kaupendur en ekki að hluta með opinberum stuðningi. Upp úr þessu mun aðeins spretta í framtíðinni fjölbreyttari og sterkari sauðfjárbúskapur.
Hér hafa aðeins verið nefnd örfá atriði sem þörf er á að ræða við stefnumörkum sauðfjárbúskapar til framtíðar. En allt þetta og miklu fleira þarf að skoða og ræða. Að lokum örfá orð um hvernig slík vinna verður hafin af ykkur bændum.
Hreingerðingaráætlun bænda í byrjun
Fyrsta atriði sem þið þurfið að gera og það strax er að skipta út margnefndum formönnum BÍ og LS. Sýnt virðist að þeir hafa ekki sóma til að segja af sér starfi. Þetta er einfaldlega augljós forsenda þess að eðlileg vinna geti hafist. Um leið eru það skýr skilaboð til þjóðarinnar um kaflaskil í landbúnaðarumræðunni. Fulltrúar fleiri verða kallaðir að umræðu.
Góðu heilli eigið þið bændur fólk í hópum til að taka við þeirra störfum. Gleymið í því sambandi ekki að leita meðal kvenna í stéttinni, sauðfjárbúskapur sérstaklega byggir meira og meira á þeirra vinnuframlagi. Ágætt kann einnig að vera að losa sig við örfáa ráðna æðstu stjórnendur. Versta illfyglið er sem betur fer að vísu flogið burt tímabundið. Eftir standið þið þá með öflugt og hæft starfslið.
Beint í framhaldinu þarf strax að byrja að vinna að öflum upplýsinga um raunverulega þróun eins og rætt er að framan. Í framhaldinu greina menn þær niðurstöður og reyna að byggja á stefnu til framtíðar.
Ég minni ykkur á að hér er ég aðeins að hvetja ykkur til hliðstæðrar upplýsingaöflunar eins og ég tel mig hafa verið að vinna með ykkur innan búanna í rúm 40 ár um bústofninn. Á því sviði held ég þið sjáið að árangurinn er umtalsverður.
Af öllum erlendum aðilum sem þekkja sauðfjárbúskap víða um heim er Ísland metið frá náttúrunnar hendi sem eitt besta sauðfjárframleiðsluland í heimi. Á síðustu áratugum hafið þið einnig þróað framfarir í búskap sem mælast á við það sem best þekkist í sauðfjárrækt i heiminum. Í verðlagningu framleiðslunnar gengur yfir él sem mun létta fyrr en síðar. Ykkar mál er að hrista af ykkur óværuna sem þið hafið alið í félagskerfinu á síðasta áratug og ganga með röskleika að nýju til starfa. Að því loknu mun aftur geta birt til í þessari elstu atvinnugrein á Íslandi.
Athugasemdir