Þegar ég var ungur var ég sannfærður um að ég væri snillingur. Og ég var ekki sá eini. Allir vinir mínir voru á sama máli – um að ég væri snillingur – en líka að þeir væru snillingar. Og ég var sammála þeim – þeir voru allir snillingar – nema einn, en það var af því hann reykti svo mikið hass. En ég var samt alveg með það á hreinu að undir hass-skýinu blundaði lítill snillingur sem þráði að komast út.
Þegar ég var 19 ára létum ég og vinur minn taka ljósmyndir og kvikmyndir af okkur í þeim eina tilgangi að þær myndu finnast mörgum árum eftir dauða okkar – áður en við urðum frægir fyrir snilld. Þetta voru svokallaðar „Snillingamyndir“.
Þetta snillinga-konsept hefur blundað í kollinum á mér allar götur síðan og ég hef farið í marga hringi með það. Eftir því sem ég hef tekið út reynslu og þroska hef ég stundum tvíeflst í hugmyndinni um eigin snilligáfu, en ég hef líka efast. Það var svo fyrir nokkrum árum sem ég tók mjög meðvitaða ákvörðun – ákvörðun sem svo sannarlega breytti lífi mínu. Ég ákvað að hætta að vera snillingur. Ég sagði upp snilligáfunni – kvaddi hana pent og sagði henni að fara norður og niður. Ég hafði hreinlega ekkert með hana að gera lengur.
Erfiðir tímar tóku við. Það skal viðurkennt að stundum var erfitt að falla ekki í snillinginn með Facebook-færslum sem nánast gulltryggðu fyrirfram klapp og hoss – þið vitið: „Handrit í vinnslu – meira síðar ...“ „Fyrsti tökudagur!“ „Plata á leiðinni!“ Allt svona gat gefið af sér tugi kommenta sem öll voru á einn veg eins og: „Hlakka til!“ „Get ekki beðið“ og svo sakbitnasta sælan: „Snillingur!“
En ég stóðst freistinguna. Ég komst að því (laug því að sjálfum mér) að ég þyrfti þetta ekki – þetta væri bara froða. Það er sjálfsagt að þiggja klappið og hneigja sig – en þá aðeins að það sé verðskuldað og EFTIR að verkið hefur verið opinberað – en ekki áður. Það er nefnilega svindl. Ég hélt áfram að gera það sem ég hafði gert þegar ég var snillingur – en nú með annað viðhorf í farteskinu. Ég byrjaði að hlusta á annað fólk og viðurkenna fyrir sjálfum mér að ég gæti kannski lært eitthvað af því. Ég byrjaði að vera forvitinn og fór að spyrja spurninga sem ég hætti á að gætu hljómað kjánalegar. Og svo komst ég að því að það eru kannski mun færri snillingar til en ég hélt.
„Ég vona að ég hafi ekki verið alveg svona slæmur þegar ég var snillingur og ef svo er þá biðst ég afsökunar.“
Þessir vinir mínir, sem ég hafði gengið að sem vísu að væru snillingar, voru líklega ekki svona miklir snillingar – heldur bara ósköp venjulegir menn. Sumir höfðu reyndar farið flatt á þessu snillingatali öllu og voru dálítið að spóla í sama farinu. Einn þeirra held ég sé enn að reyna að klambra saman sinni fyrstu smásögu sem hann byrjaði á þegar hann var fimmtán ára. Hann er líklega misskilinn snillingur.
Og í dag er ég eiginlega ekki alveg viss um hverjir eru snillingar. Ég man eftir að hafa lesið um Peter Sellers og séð kvikmynd um ævi hans. Honum er alltaf lýst sem snillingi og vissulega var hann mjög fyndinn í Bleika pardusnum. En samstarfsmenn hans áttu mjög erfitt með að finna til eitthvað jákvætt að segja um hann. Hann var almennt illa liðinn og hafði það orð á sér að vera bölvuð prímadonna. Óþolandi í návígi semsagt. Er það að vera snillingur?
Mýtan um snillinginn er sú að hann er með alveg magnaðan talent og hefur lítið fyrir því að slengja snilldinni fram úr erminni. Og vegna þess að þetta er svo lítið mál fyrir hann er hann algerlega frjáls. Hann hagar sér eins og honum sýnist. Umkringdur fólki sem situr og stendur eins og hann vill. Hann er óútreiknanlegur. Hann mætir kannski. Hann vill ekki láta binda sig – enda snillingur.
Ég vona að ég hafi ekki verið alveg svona slæmur þegar ég var snillingur og ef svo er þá biðst ég afsökunar. En semsagt, eftir að ég sagði upp snilligáfunni fór ég að vinna. Ég fór meðal annars að vinna með nokkrum útlendingum sem voru ekki snillingar – höfðu aldrei litið á sig sem slíka og ætluðu ekki að fara að byrja á því. Þetta var fólk sem hafði áratuga reynslu af sínu starfi og vandaði sig. Ég lærði heilmikið af því að umgangast þau og vinna með þeim. Og þau þóttust eitthvað hafa lært af mér. En kannski fyrst og fremst var það innsýn inn í hugarfar Íslendingsins.
Því það var ekki bara ég og vinir mínir sem vorum í snillingaleik. Íslendingar eru nefnilega ansi margir haldnir mikilli snillingahyggju. Við könnumst jú öll við „best í heimi“ hugarfarið. Á síðasta áratug voru íslenskir bankamenn sannfærðir um að þeir væru snillingar. Í dag byggja nýir snillingar heilu hótelkeðjurnar og flugfélögin sem blása út eins og enginn sé morgundagurinn. Við fremjum viðskiptalegt harakiri á hverjum áratug – í nafni snilligáfu.
Í bókmenntum má sjá þessa snillingahyggju mjög vel. Við eigum jú alveg ótrúlega marga rithöfunda miðað við höfðatölu. Bækur seljast vel og ótrúlega margar af þeim fá alveg ótrúlega margar stjörnur miðað við höfðatölu. Sama er að segja um kvikmyndirnar og tónlistina. Snillingarnir eru ótrúlega margir. Og ég held þeir séu of margir. Það er að segja – og nú ætla ég að vera leiðinlegur – þeir eru of margir til að vera raunverulegir. Þeir eru líklega ekki svona margir.
Það segir til dæmis stóra sögu að þrátt fyrir að við höfum í aldaraðir talið okkur vera slíka bókmenntaþjóð að fáir standi okkur á sporði – þá séu aðeins örfá ár síðan byrjað var að kenna fag sem kallast „ritlist“ í Háskóla Íslands. Þar sækja upprennandi rithöfundar sér menntun í faginu. Í snillingahyggju áratuganna hafði engum manni dottið slíkt í hug. Þú kennir jú ekki snillingi – þeir kenna þér. Þeir eru nefnilega snillingar.
Vefur snillingahyggjunnar virkar nefnilega einhvern veginn svona: Efnilegur maður eða kona ákveður að verða listamaður. Til að gera það þarf hann/hún annaðhvort að fara í nám eða hreinlega að segja frá því að hann/hún sé að fara að gera eitthvað. Upp úr því getur byrjað að myndast eftirvænting – allavega hjá svona ellefu vinum hans/hennar. Þessir ellefu vinir hafa svo margföldunaráhrif og áður en við vitum af eru kannski tugir eða hundruð manna byrjaðir að tala um þetta efnilega sem þessi efnilega manneskja er að fara að gera – þarna strax fer orðið „snillingur“ að detta inn. Mögulega er einn þeirra kannski fjölmiðlamaður og skrifar kannski greinarbút um efnilegu manneskjuna. Líður nú og bíður og verkið er opinberað. Og það ber þess ótvíræð merki að listamaðurinn sé efnilegur. Og allir þeir sem höfðu væntingar verða svo ánægðir að þeir kalla verkið snilldarverk og höfundinn snilling. Það fær fimm stjörnur af fimm mögulegum. Loksins, loksins!
Efnilegi listamaðurinn hefur engar aðrar forsendur en að trúa því sem sagt er um hann. Hann hlýtur bara að vera snillingur fyrst að allir í kringum hann segja það. Ekki lýgur blaðið sem gaf honum fimm stjörnur. Og í framhaldinu er haldið fast í þessa fullvissu, bæði hjá listamanninum sjálfum og fólkinu í kringum hann, að jú, hann/hún er snillingur og það mun ekki breytast. Og sem snillingur heldur listamaðurinn áfram að búa til list – en sú list verður yfirleitt ekkert mikið skárri en þetta efnilega verk sem kom fram þarna fyrst. Þetta fer jafnvel versnandi. Og af hverju? Jú, af því að listamaðurinn bar sig ekki eftir því að mennta sig frekar í faginu – og ég er ekki að tala um að setjast á skólabekk – heldur bara hreinlega leyfa sér að efast stöku sinnum um eigin snilld og hlusta á aðra sem hafa kannski eitthvað til málanna að leggja – vanda sig meira og með því að búa til hugsanlega betra verk. En, nei – snillingar gera víst ekki svoleiðis.
Athugasemdir