Þegar ég ber fram orðið Þögn / eyðilegg ég það, orti pólska skáldkonan Wislawa Szymborska. Það er ekki þversagnalaust að tjá hug sinn, hafi hann að geyma þögn verður hún ekki tjáð öðruvísi en með orðinu þögn. Vilji maður ekki taka þátt í umræðu verður því ekki komið á framfæri öðruvísi en með þátttöku í umræðu. Er umræða góð? Er þögn góð? Er öll umræða góð? Og öll þögn? Væri öllum best að steinhalda kjafti?
Í stað þess að grípa fegins hendi tækifæri til að útskýra sem yfirvegaðast stjórnsýslu og mannaráðningar við háskóla, fagna umfjöllun og eyða tortryggni með nokkrum vel völdum orðum, notar forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands tilefnið sem nýleg frétt Stundarinnar gefur til umvandana við vinnubrögð blaðamanns og þá einkum fyrir þá sök að hafa vitnað í skrif undirritaðs, sem séu ómark. Óneitanlega væri fallegra ef valdsmaður tjáði sig af ögn meiri mildi, sýndi fordæmi með því að taka gagnrýni vel, réttmætri eða óréttmætri, og einskorða sig við rök í svörum sínum. En gott og vel.
Eftir stendur að það er laukrétt sem ég sagði í grein minni, að sönnu „stórkarlalega“ (eins og forseti Hugvísindasviðs tvítekur), að óvenju mikið er um fjölskyldutengsl í bókmenntafræðideild. Ég nefndi þetta reyndar aðeins í framhjáhlaupi. Samhengið er augljóst hverju barni: Hjalti Snær Ægisson skrifaði vandlætingargrein, heilagri en páfinn, ég svaraði og benti á vanhelga jörðina, ýmislegt gæti orkað í meira lagi tvímælis, honum nægði að líta í kringum sig.
Nú hef ég takmarkaðan áhuga á ráðningamálum háskóla. Þau eru flókin en þó hvorki hafin yfir skilning venjulegs fólks né gagnrýni. Best væri ef ráðningar væru á höndum alþjóðlegra sérfræðinga en sá hængur er á að sérfræðingar kunna fæstir íslensku og meta varla hæfni eins eða neins nema með ráðgjöf. Veruleikinn er eitthvað á þessa lund: Ráðgefandi nefndir eru skipaðar, að hluta til innan deilda og að hluta til utan þeirra, og hafa þær úrslitavald um hverja ráðningu, þótt hún sé að sjálfsögðu á ábyrgð yfirmanna. Auðvitað lýsa viðkomandi yfirmenn sig vanhæfa ef svo vill til að umsækjendur tengjast þeim fjölskylduböndum, það segir sig sjálft. Nefndir sjá um að meta hæfni og verður mennskum við matið varla annað en hugsað hvernig stemmningin við deildina verði framvegis. Heiðríkjan verður með torveldara móti eins og gengur. En ekkert útilokar þá tilviljun að allir þeir sem metnir eru hæfastir tengist þeim sem fyrir eru fjölskylduböndum og þó sé ferlið með öllu faglegt. Það væri popúlískt að fara fram á algert gagnsæi, góðar ástæður eru fyrir trúnaðarskyldu. En á hinn bóginn gilda lög um upplýsingaskyldu við alla ráðstöfun á opinberu fé.
Ég biðst afsökunar hafi ég sært einhverja að ósekju með apalátum. En Háskóli er eins og hver önnur ríkisstofnun. Hann þarf að sæta „umræðu“, með gæsalöppum og án þeirra.
„Utan frá séð lítur þetta allt öðru vísi út en það er í reynd,“ sagði Sveinn Yngvi Egilsson við blaðamann Stundarinnar. Skemmtilega kafkaískt svar og ég sé fyrir mér nokkrar viðbótarsenur í verkum Kafka: Jú, við hjá stofnuninni sjáum auðvitað að það er rétt að K. var drepinn en það lítur allt saman öðruvísi út hér hjá okkur en út á við; eða: jú, það er að vísu rétt að Höllin virkar örlítið ógnvænleg og dularfull þarna neðan úr þorpinu en í reynd er allt öðruvísi umhorfs.
Ég tek fram að ég er ekki að hæðast að Ástráði, sem svo vill til að hefur auðgað íslenskar bókmenntir svo um munar með þýðingum á verkum Kafka, einungis að benda á að bókmenntir skýra veruleikann, annars væru þær ekki til neins. Kafkaískar senur eru út um allt, kannski sérstaklega í starfi stofnana.
Ég efast ekki um að þetta virkar öðruvísi fyrir starfsmenn Háskólans. Ég efast ekki um heilindi neinna þeirra, hvað þá hvatalíf, en vorkenni þeim ekki að sæta gagnrýni. Tal Ástráðs um atvinnuróg er þreytandi. Menn kæra einfaldlega bara atvinnuróg, fremur en að hálforða hann eins og á hraðferð niður brekku á svigskíðum. Sem betur fer er ekki lengur bundið í lög að það sé bannað að gagnrýna opinbera embættismenn. Það er ekki ég sem geri stöðu starfsmanna bókmenntafræðideildar óþægilega heldur kringumstæðurnar sjálfar. Það eina sem ég hef gert er að nefna þær. Er það bannað?
Þá lætur Ástráður í veðri vaka að starfsmenn Hugvísindasviðs liggi sem í blóði sínu eftir kjaftháttinn í mér. Patetík er almennt ekki tæk sem rök eða viðbrögð við gagnrýni. Þetta er hálfgert væl. Starfsfólki Hugvísindasviðs er engin sérstök vorkunn umfram það sem gengur og gerist í samfélaginu. Álíti það virkilega svo vera hefur það minna bein í nefinu en ég ætlaði.
Forseti Hugvísindasviðs tæpir kurteislega á hvötunum sem hugsanlega búi að baki gagnrýni minni, nefnir að sjálfur sé ég bókmenntafræðingur og hafi kennt við deildina sem stundakennari og kveðst ekki vita til þess að mér hafi verið illa tekið. Hvað þýðir þetta? Hvað merkir svona setning í hálfu kafi á svigskíðum? Jú, þetta eru drög að hvatarýni. Ástæða er til að árétta að hvatarýni er ekki rökræða (ég á við árétta sauðsvörtum helvítis almenningnum til gagns og uppfræðingar): Það eru ekki marktæk rök að velta fyrir sér hvötum þess sem tjáir gagnrýni eða skoðun, það skiptir engu máli hvort hvatirnar séu til dæmis að sá hinn sami sé illa leikinn af hraksmánarlegum móttökum við háskóladeild, öfundsjúkur, með rauða hunda, gyðingur, hægrimaður, vinstrimaður, með holdsveiki, rauðhærður, hörundsár, með mjólkuróþol eða eitthvað annað. Allt getur þetta vel að merkja verið kórrétt. Hvati tjáningar getur verið af misjöfnu tagi. En það kemur málinu og sannleika þess bara ekki við. Haldi ég því fram að sólin sé græn til að koma höggi á mann sem hefur sagt að hún sé blá segir það ekkert um lit sólarinnar að benda á hvatir mínar. Þetta er grundvallaratriði í allri rökhugsun en enginn hægðarleikur að fylgja, annars væru allir með doktorsgráðu í vísindalegri mannvisku.
Svo það sé á hreinu hef ég aldrei sótt um að vera háskólakennari og hef yfir engu að kvarta við stundakennslu við Háskóla Íslands, mér hefur verið ljómandi vel tekið og hef haft gaman af kennslu, af áhugasömum nemendum með ástríðu fyrir bókmenntum, gaman af að setja mig í stellingar fræðimanns endrum og sinnum, því vel að merkja þarf hver sem gerist íhlaupamaður við háskóla að leika hlutverk og lúta ákveðnum reglum, halda sig innan ákveðins ramma. Þetta er lítið mál, bókmenntafræði er mestmegnis spurning um almenna skynsemi, sæmilega dómgreind, áhuga. Síðan er maður laus allra mála og getur tjáð sig að vild. Viðrað efasemdir um bókmenntafræði ef manni sýnist.
Ef til vill veitir ekki af námi í greiningu myndmáls. Kindabyssur virðast vefjast fyrir ýmsum og myndin reynist hafa hundrað daga hala. Óþekktur höfundur ágætrar skýrslu á bókmenntasíðunni Druslubækur og doðrantar álítur hrúta geta beitt kindabyssu, Hjalti Snær Ægisson sér fyrir sér í grein á Kjarnanum að fólk hlaupi um tún með slík vopn og Ástráður Eysteinsson sér fyrir sér lamb þótt samhengið kalli fremur á mynd af aflóga gamalær. Svo það sé útskýrt, sem ekki virðist vanþörf á, eru kindabyssur notaðar í neyð til að lóga fé sem ekki er á vetur setjandi, fársjúkt og feigt. Enginn hefur gaman af kindabyssunotkun, hún er ill nauðsyn. Varpi einhver slíkri mynd fram má vænta þess að það sé gert í ögrunarskyni. Auðvitað orkar slík ögrun tvímælis. Skárra væri það. En ég held að vel megi velta því fyrir sér hvort aðferðir bókmenntafræðinnar og afurðir hafi oft verið meira lifandi en nú.
Auk þess að vera annálaður ómerkingur er ég efins um að ráðningamál séu það áhugaverðasta fyrir fjölmiðil með háskólaáhuga. Jafn áhugavert efni fyrir atorkusaman blaðamann væri að grennslast fyrir um það hvaða viðmið eru notuð í dag þegar skipað er í Háskólaráð. Á vef Háskóla Íslands er engar upplýsingar að finna um þetta, þótt að öðru leyti sinni Háskólaráð upplýsingaskyldu sinni með sóma. Í Háskólaráði situr fjöldi fulltrúa stórfyrirtækja og einn fulltrúi stjórnmálaflokks, Sjálfstæðisflokksins. Af hverju? Og af hverju er forstjóri Símans í Háskólaráði? Hefur hann eitthvert sérstakt vit á akademíu? Góður sem forstjóri Símans vafalaust er á sínu sviði fyrir sinn hatt er erfitt að sjá af hverju er mark er á honum takandi um málefni háskóla fremur en til dæmis honum mér, eða rútubílsstjóra með sagnfræðiáhuga, eða safnstjóra eða alþýðufræðara eða menntaskólakennara eða grúskara eða bónda norður á landi. Mín tilfinning (fremur en kenning) er að ástæðan fyrir setu fulltrúa stórfyrirtækja í Háskólaráði sé sívaxandi tenging fjármálalífs (fremur en atvinnulífs) við háskóla, á alþjóðavísu. Það kann að enda á þennan veg: Fjármálaöfl geta farið að vasast til um hvernig menntun sé háttað, svo hún falli betur að þörfum stórfyrirtækja, og þá má spyrja hvað sé orðið um sjálfstæði háskóla, akademískt frelsi. Háskóli hefur þá framvegis ekki mótandi áhrif á samfélagið heldur öfugt, ráðandi samfélagsöfl móta háskóla.
Þetta mætti ræða. Það mætti líka ræða bókmenntir. Það má ræða ráðningarmál að vild og það má ræða stórkarla og stórkarla að vild og að vild. Ég fagna því að forseti Hugvísindasviðs tjái sig. Háskólafólk gerir of mikið af því að halda kjafti.
Athugasemdir