Nákvæmlega núna er einhver að taka selfí eða snapp til að sýna hvað hann eða hún er frábær, að gera merkilegan hlut eða hversu mikið hann eða hún er að taka þátt í samfélaginu á réttan hátt miðað við skoðun dagsins í þeirri bólu sem viðkomandi lifir í.
Síðastliðin 5 ár hafa gjörbreytt samfélaginu þar sem umræða og samskipti hafa færst á stig vörumerkja og nú eru allir vörumerki, hegða sér eins og vörumerki og markaðsstjóri vörumerkisins Ég er ég. Hvernig lít Ég út í umhverfinu í dag? Hvað þarf Ég að gera til að selja? Söluvaran er viðbrögð við því sem ég sendi frá mér og er salan því mæld í lækum, deilingum, kommentum og svörum. En við sem höfum unnið lengi í auglýsingabransanum vitum að til að fá fólk til að hreyfa sig, vekja viðbrögð, þá þýðir enga meðalmennsku. Það þarf að ögra til að fá viðbrögð. Þess vegna finna allir markaðsstjórarnir á Sjálfunum það fljótlega út að eina leiðin til að selja vörumerkið Ég er að ögra. Að ögra er gott. Því án ögrunar fellur vörumerkið Ég í verði og þá gleymist hliðræna útgáfan af vörumerkinu sem er einstaklingurinn sjálfur og það er það versta sem gerist í nútímanum. Gleymdur einstaklingur í hliðrænu lífi er sá sem átti sér stafræna útgáfu sem var venjuleg og skar sig ekki úr.
Það er ekki langt síðan allir lifðu og kepptu í raunveruleiknum, þar sem einn og einn þorði að skera sig úr fjöldanum en flestir kepptust við að falla inn í hópinn. Hefur það breyst? Nú eru allir að keppast við að skera sig úr en að vísu allir á sama hátt og á sama tíma. Þannig að í raun er það að falla inn í hópinn einmitt það að ögra á samfélagsmiðlum og breyta heiminum, oft á dag.
En hver er afleiðingin? Skiptir þetta einhverju máli til lengri tíma? Er ég bara röflandi miðaldra karl að hafa áhyggjur af því að heimurinn breytist hraðar en ég? Sjálfur hef ég unnið mikið með samfélagsmiðla sem markaðstæki en ákvað strax að vera ekki til á Facebook sjálfur. Einhvern veginn hafði ég ekki áhuga á að hafa beinan aðgang að mér hvenær sem er fyrir hvern sem er. Einnig vildi ég ekki vera í þeirri stöðu að segja nei takk við vinabeiðnum til að hafa einkalífið mitt í friði. Nýlega byrjaði ég þó á Snapchat og fann að ég datt stax inn í munstrið, vildi fá viðbrögð.
Þar sem ég er ekki til á Facebook líður mér pínulítið eins og sá sem mætir í partí en ákveður að vera bílstjóri það kvöldið en allir aðrir ákveða að vera óökufærir sama kvöld. Svo líður kvöldið og allir verða ruglaðir nema sá sem ákvað að vera stabíll. Svo er það þetta augnablik þegar partíið fer á hvolf og allir vita allt, geta allt og verða óþolandi málglaðir og yfirlýsingagjarnir. Ætla ég að taka þátt eða ekki? Gestirnir skilja svo ekkert í þér að vilja ekki fá þér með þeim og vera jafn ruglaður. Mér líður nákvæmlega þannig núna þegar ég sé hverja byltinguna á fætur annarri þar sem samfélagið fer á hvolf, samfélagsmiðlarnir á hliðina, Twitter á hiðina, oft yfir smámálum á örskotsstundu. Slagorðin dynja yfir, allir breyta um prófílmynd, mæta á einhvern stað fyrir málstað sem þeir skilja ekki alveg en það er gott fyrir ímynd vörumerkisins síns að mæta, taka selfí og pósta. Senda snapp og vera með, annars fellur maður ekki inn í hópinn. Á morgun snýst svo samfélagið á hina hliðina og þá þarf að hlaupa, snappa, selfía og pósta. Ekki stoppa, hugsa, spyrja spurninga, vera gagrýninn, skoða báðar hliðar og mynda sér skoðun eftir það. Allt þarf að gerast núna því á morgun er komin ný bylting.
Stjórnmálafólkið er í sömu gildrunni, því það sem nú hefur gerst er að það er ekki bara unga fólkið sem er að ögra gildum samfélagsins, ýta við og krefjast breytinga. Við þekkjum það í gegnum söguna og það er saklaus eðlileg þróun mannkyns. Nei, allur aldursskalinn tekur þátt og pólitíkusarnir eru verstir. Þeir keppa í lækkeppninni á hverjum degi og halda að þjóðin endurspeglist í viðbrögðunum sem þeir fá á netinu. Afleiðingin er að skammtímamarkmið yfirtaka lengri tíma markmið því að lifa daginn af í pólitík er alveg nógu erfitt markmið í skyndibita samfélagsmiðla.
Í grunnskóla fékk ég broskalla ef ég stóð mig vel. Ég var aftur á móti áhugasamari um að vera óþekkur og seldi mér strax þá skoðun að broskallar væru fyrir fávísa. Í dag líður mér eins og broskallafíknin hafi fylgt öllum í gegnum grunnskólann og yfirfærst á viðbrögð á samfélagsmiðlum. Hvað fékk ég marga „broskarla“ í dag? Fíknin getur yfirtekið heilt samfélag en sá sem ætlaði að keyra heim, situr bara og klórar sér í hausnum.
Það má ekki skilja þessi skrif mín þannig að ég sé á móti samfélagsmiðlum. Mér finnst þeir snilld. Það sem ég hef áhyggjur af er hvernig fólk umgengst samfélagsmiðla þar sem ég held við eigum eftir að þroskast mikið áður en við náum valdi á því skrímsli sem við höfum í höndunum.
Athugasemdir